Ánægjulegt Helgi S. Guðmundsson og Benedikt Sigurðsson hjá Samvinnutryggingum, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Einar Stefánsson og Friðbert Jónasson yfirlæknar og Jóhannes M. Gunnarsson, forstjóri LSH.
Ánægjulegt Helgi S. Guðmundsson og Benedikt Sigurðsson hjá Samvinnutryggingum, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Einar Stefánsson og Friðbert Jónasson yfirlæknar og Jóhannes M. Gunnarsson, forstjóri LSH. — Morgunblaðið/G. Rúnar
Forsvarsmenn Samvinnutrygginga hafa stofnað sjóðinn "Sjónvernd og blinduvarnir á Íslandi", sem styrkja mun forvarnir og tækjakaup til augnlækninga hérlendis.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

SJÓNVERND og blinduvarnir á Íslandi, nefnist nýr sjóður sem Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar hefur stofnað. Stofnframlagið eru 25 milljónir króna og tilgangurinn með stofnun sjóðsins er tvíþættur. Annars vegar að efla tækjakost til augnlækninga og hins vegar að styrkja forvarnarstarf gegn blindu á Íslandi. Stjórn hins nýja sjóðs skipa þeir Benedikt Sigurðsson framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga, Einar Stefánsson yfirlæknir augndeildar og Helgi S. Guðmundsson stjórnarmaður í Samvinnutryggingum. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í gær.

Tækjabúnaðurinn mjög dýr

Einar Stefánsson segir framlag Samvinnutrygginga afskaplega merkilegt og göfugt, en með því verði hægt að bjóða Íslendingum upp á augnlækningar í fremstu röð í heiminum. "Okkur hefur gengið vel og við stöndum vel á mörgum sviðum. En augnlækningar eru mjög tækjafrek grein," segir Einar. "Framþróun er ör og tækin verða sífellt betri og dýrari. Sú barátta að halda í við tæknina er endalaus og á vissan hátt höfum við verið að tapa þeirri baráttu, markið færðist sífellt lengra í burtu, alveg þangað til nú." Kveður hann sjóðinn setja endapunkt við þennan eltingaleik. Nefnir hann sem dæmi að hornhimnuflutningar hafi verið stundaðir hér á landi á níunda áratugnum, en ekki hafi tekist að halda í við auknar kröfur um gæði og geymslu líffæranna.

Hornhimnubanka komið á fót

Með framlögum sjóðsins til tækjakaupa segir Einar hins vegar að íslenskur hornhimnubanki verði mögulegur, en tugir Íslendinga munu njóta þess að slíkur banki sé til. Segir Einar að erlendir aðilar sem hingað til hafi útvegað hornhimnur úr látnum einstaklingum fyrir íslenska sjúklinga geti það ekki lengur vegna skorts á líffæragjöfum hvarvetna. Knýjandi nauðsyn sé því að Íslendingar verði sjálfum sér nógir í þeim efnum.

Auðveldara að fá fólk til starfa

Benedikt Sigurðsson segir það ánægjulegt fyrir Samvinnutryggingar að koma að þessu verkefni, en félagið vilji leggja sitt lóð á vogarskálarnar í heilbrigðis-, líknar- og menntamálum á næstunni. Það sé vilji félagsins að sjóðurinn starfi sjálfstætt og útdeili fé til augnlækninga með eins skynsamlegum hætti og mögulegt er. Þá segir Benedikt það von sína að með bættum aðstæðum og tækjakosti til augnlækninga hérlendis verði augndeild Landspítalans gert hægara um vik að fá til sín lækna og hjúkrunarfólk sem hefur aflað sér sérþekkingar erlendis og ílenst þar.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra lýsti við þetta tilefni mikilli ánægju með styrktarsjóðinn og sagði að þó menntun, rannsóknir og reynsla íslenskra lækna hefði skilað góðum árangri helgist framfarir öðrum þræði af þeim tækjum sem menn hafa í höndunum hverju sinni. Sagði hann augndeildinga skorta ýmis tæki sem fyrirsjáanlegt væri að opnuðu augnlæknum hér nýja möguleika.

Merkilegt framlag einkaaðila

Kvað Guðlaugur Þór framtakið athyglisvert fyrir þá sök að það sýndi vilja einkarekins fyrirtækis til að leggja sitt af mörkum svo að hér á landi verði heilbrigðisþjónusta meðal þess besta sem gerist. Kallar ráðherrann eftir því að fleiri láti gott af sér leiða á þessu viði og láti sig heilsuþjónustu varða. "Einkaaðilar hafa verið áberandi í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það er svo mikið af spennandi verkefnum í heilbrigðismálum sem farnast best í samvinnu opinberra aðila og einkaaðila. Lykilatriðið í þessu er fjölbreytnin," segir Guðlaugur Þór, sem telur mikla möguleika felast í því að einkaaðilar beini athygli sinni að heilbrigðismálunum í meiri mæli.
Í hnotskurn
» Fyrsta verkefni sjóðsins verður að koma á laggirnar hornhimnubanka sem þarf að standast strangar kröfur.
» Augnlækningar í fremstu röð verða mögulegar hér á landi við framlag sjóðsins.
» Framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga segir félagið vilja leggja sitt af mörkum í heilbrigðis-, mennta- og líknarmálum.