Einar Daði Lárusson
Einar Daði Lárusson
EINAR Daði Lárusson úr ÍR endaði í sjöunda sæti í áttþraut á Heimsmeistaramóti unglinga 17 ára og yngri sem fram fer í Ostrava í Tékklandi. Einar Daði kastaði spjótinu 42,68 metra í næst síðustu grein keppninnar og féll við það niður í tíunda sætið.

EINAR Daði Lárusson úr ÍR endaði í sjöunda sæti í áttþraut á Heimsmeistaramóti unglinga 17 ára og yngri sem fram fer í Ostrava í Tékklandi. Einar Daði kastaði spjótinu 42,68 metra í næst síðustu grein keppninnar og féll við það niður í tíunda sætið. Síðasta greinin var 1.000 metra hlaup og þar náði hann að vinna sig aftur upp um þrjú sæti, hljóp á 2.44,38 sem var þriðji besti árangur keppenda í þeirri grein.

Fyrsta greinin í gær var 110 metra grindahlaup og þar fékk Einar Daði tímann 14,85 sekúndur, vippaði sér síðan yfir 1,83 metra í hástökki áður en hann fór í spjótkastið og loks 1.000 metra hlaupið.

Einar Daði hlaut samtals 5.999 stig í þrautinni og bætti eigið Íslandsmet í drengjaflokki um 205 stig, en metið setti hann í vor þegar hann náði lágmarkinu til að komast inn á þetta mót. Sá sem sigraði hlaut 6.261 stig og sá sem varð í næsta sæti fyrir ofan Einar Daða hlaut 6.144 stig.

Bætti árangur sinn í sex greinum

Það er greinilegt að hann er í mikilli framför því hann bætti árangur sinn í sex greinum af átta, 100 metra hlaupi, langstökki, kúluvarpi, 400 metra hlaupi, spjótkasti og 1.000 metra hlaupi.

Þetta er besti árangur sem Íslendingur hefur náð á HM 17 ára og yngri en fyrir tveimur árum varð Íris Anna Skúladóttir í 9. sæti á HM undir 18 ára.