Sveinn Andri Sveinsson
Sveinn Andri Sveinsson
HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur sýknaði í gær tvo menn af ákæru fyrir tilraun til að smygla tæpum 4 kg af kókaíni til landsins seint á síðasta ári.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur sýknaði í gær tvo menn af ákæru fyrir tilraun til að smygla tæpum 4 kg af kókaíni til landsins seint á síðasta ári. Dómurinn viðurkennir að við fyrstu sýn kunni framburður mannanna að virðast ótrúverðugur og jafnvel reyfarakenndur á köflum, en það var hins vegar mat dómsins að svo væri ekki. Mennirnir voru sýknaðir þar sem ekki voru nein gögn sem ættu að leiða til þess að við sönnunarmat ætti að hafna framburði mannanna.

Málið hófst þegar tollverðir fundu kókaínið falið í Benz-bíl sem hafði verið fluttur til landsins með Helgafelli frá Cuxhaven í Þýskalandi. Sími annars mannanna var hleraður og gerviefni sett í stað fíkniefnanna. Hinn 7. febrúar 2007 annaðist annar ákærði tollafgreiðslu bílsins sem fluttur var á tiltekinn stað og tveim dögum síðar nálguðust báðir ákærðu bílinn og þá var gerviefnið fjarlægt úr bílnum en mennirnir báru hvor á sinn hátt um þann þátt málsins. Báðir hafa mennirnir sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins, annar frá 9. febrúar og hinn frá 1. mars. Báðir neituðu sök og sagðist annar þeirra ekki hafa haft hugmynd um að fíkniefni væru í bílnum. Við handtöku hefði hann áttað sig á að hann hefði verið svikinn í viðskiptum vegna bílsins sem ónafngreindur maður bauð honum sumarið 2006. Ákærði þorði ekki að taka áhættu sem því fylgdi að nafngreina manninn er stæði að baki smyglinu.

Áfrýjun til athugunar

Meðákærði sagðist hafa fjarlægt gerviefnin úr bílnum en ónafngreindur maður hefði beðið hann um það þar sem ekki væri hægt að afhenda eiganda bílinn með gervipakkningum í. Maðurinn hefði sagt að fíkniefni hefðu verið flutt inn með bílnum en lögreglan þá búin að skipta á þeim og gerviefnum. Auk þess sagðist ákærði hafa lesið í DV að búið væri að taka fíkniefnin og sagðist viss um að hann væri að fjarlægja gerviefni og vitað að það væri ekki saknæmt. Ríkissaksóknari skoðar hvort málinu verður áfrýjað.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari dæmdi málið.

"Allt of langt gengið"

SVEINN Andri Sveinsson, verjandi annars sakborninganna í kókaínmálinu, átelur réttarkerfið fyrir að láta umbjóðanda sinn sæta gæslu mánuðum saman í ljósi þess að dómurinn dæmdi loks sýknudóm.

"Það hefur verið vikið fulllangt frá þeirri meginreglu að enginn skuli fara í fangelsi nema hafa fengið refsidóm," segir hann. "Ríkissaksóknari hefur mótað einhverja stefnu í þessum málum um að það varði almannahagsmuni að menn sem tengjast stórum fíkniefnamálum sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur. Og undir þetta hafa dómstólar tekið. Þarna var allt of langt gengið og það þarf að hugsa þetta upp frá grunni. Lög gera ráð fyrir að menn geti sótt bætur í ríkissjóð en peningar bæta ekki allt þegar venjulegir menn hafa verið sviptir frelsi sínu mánuðum saman," segir Sveinn Andri.