Þórunn Jóhannsdóttir, áður til heimilis á Gránufélagsgötu 7 á Akureyri, fæddist á Hinriksmýri á Árskógsströnd 4. nóvember 1919. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð 6. júlí síðastliðinn. Foreldrar Þórunnar voru Malín Þorsteinsdóttir, f. 17. apríl 1882, d. 25. júní 1969, og Jóhann Sigurður Jónsson, f. 1. júní 1881, d. 30. október 1956. Systur Þórunnar samfeðra voru: 1) Sigríður Jóna, f. 10. ágúst 1903, d. 22. apríl 1982, 2) Gunnfríður, f. 23. janúar 1905, d. 22. nóvember 1980, 3) Kristín María, f. 24. ágúst 1908, d. 23. maí 1933, 4) Sigurpálína, f. 20. ágúst 1910, d. 11. maí 1958, 5) Pollý, f. 18. júlí 1912, d. 6. janúar 1967, og 6) Kristín, f. 14. maí 1916, d. 21. mars 1999.

Eiginmaður Þórunnar var Baldvin Ásmundsson sjómaður, f. á Brimnesi á Árskógsströnd 17. maí 1911, d. 13. febrúar 1985. Börn þeirra eru: 1) Heiðar Rafn, f. 1. október 1944, d. 21. janúar 2005. Fyrri kona hans er Sigrún Arngrímsdóttir, f. 15. maí 1943. Börn þeirra eru Jóhann Rafn, Arna Kristjana, Baldvin Þór og Hafþór. Seinni kona Heiðars er Anna Steinlaug Ingólfsdóttir, f. 2. júní 1951. Börn þeirra eru Linda Hrönn (fósturdóttir), Dagný og Einir. 2) Snjólaug Aðalheiður, f. 26. febrúar 1948, gift Guðlaugi Arasyni, f. 14. mars 1947. Börn þeirra eru Baldvin Ari, Heimir og Þórunn. 3) Jóhann Sigurður, f. 13. nóvember 1951, d. 1. nóvember 1956. Afkomendur Þórunnar og Baldvins eru komnir á fjórða tug.

Sambýlismaður Þórunnar á efri árum var Hjörleifur Jóhannsson frá Hrísey, f. 13. september 1915, d. 2. október 2001.

Þórunn verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um hana ömmu mína eru yndislegar móttökur og flottheit í matargerð. Kannski áhugi minn á öllu sem tengist mat sé kominn frá henni. Þegar ég hitti ömmu var alltaf mikið knúsast, bæði þegar ég kom og einnig þegar ég fór. Fyrst fékk ég knús uppi í stofu, svo annað niðri í forstofu og eitt svona í lokin úti á stétt. Svo stóð hún úti og veifaði þangað til við sáumst ekki lengur.

Þegar ég var lítil fórum við fjölskyldan oft í bæinn. Í hádeginu biðum við systkinin spennt eftir því að koma auga á ömmu og afa koma úr vinnunni. Amma bauðst strax til að drífa sig heim að yla handa okkur pylsur. Eftir hádegismat fórum við að erindast meðan amma og afi fengu sér blund. Í kaffitímanum hafði amma svo dýrindiskræsingar á boðstólum eins og upprúllaðar pönnsur með sykri eða heimalagaðri sultu og troðfullar af rjóma. Amma gerði líka bestu kæfu í heimi sem hægt var að skera niður í sneiðar. Kæfuna setti hún ofan á glænýtt flatbrauð og soðið brauð en mér fannst hún best ein og sér. Smurbrauðsterturnar hennar ömmu voru líka einstakar og fallega skreyttar með eggjum, gaffalbitum og rauðrófum. Heita kakóið setti svo punktinn yfir i-ið. Eftir svona "drekkutíma" stóðu allir á blístri og fékk pabbi sér oftar en ekki kríu, eins og hann kallaði það, í sófanum.

Amma útbjó einnig kvöldmat handa okkur, oftast steik. Í eftirmat fengum við svo kaldan ávaxtagraut með rjóma og þar á eftir var komið að ísnum. Amma átti margar sortir af ís og fengum við systkinin að fara niður í kistu og velja okkur. Oft var amma með flottar ístertur sem maður fékk nú hvergi annars staðar.

Stundum fékk ég að gista í Gránufélagsgötunni hjá ömmu og afa. Þá tók afi gestadýnuna fram og svaf sjálfur á henni í stofunni en ég fékk að sofa í holunni hans við hliðina á ömmu. Ég man að þegar ég var hjá þeim þá fannst mér ég mjög fullorðin og dugleg. Ég fékk að raka skeggið á afa og hjálpa ömmu með augndropana og stundum fékk ég að labba alein niður í Turninn niðri á eyri. Þar keypti ég Thule handa afa, einn pott af mjólk og pela af rjóma fyrir ömmu og gotterí handa mér. Ég hef nú grun um að amma hafi staðið úti á stétt og fylgst með mér svona með öðru að minnsta kosti.

Amma var mikil ballkona og fannst fátt skemmtilegra en að dansa. Hún var líka alltaf svo smart og hafði áhuga á öllu sem var móðins. Ég man eftir einu kvöldi sérstaklega því þá var kolvitlaust veður og fáir á ferli. Amma lét það nú ekki stoppa sig heldur dreif sig á 3 böll það kvöldið. Það var bara ekki nógu mikið fjör á þeim fyrri. Hún spurði mig í hvert sinn sem ég heimsótti hana hvort ég væri ekki búin að fara á ball og skildi ekkert í mér þegar ég svaraði henni nánast alltaf neitandi.

Amma var búin að vera léleg í skrokknum og því hafði hún ekki komist á ball lengi. Ég er viss um að nú er hún búin að taka fram ballskóna að nýju.

Ég kveð með söknuði elskulega ömmu mína sem kallaði mig svo oft litlu Lóuna sína.

Dagný Heiðarsdóttir.

Elskuleg amma mín er látin. Með þakklæti í huga minnist ég hennar nú, sannfærð um að hún sé komin í samvistir við afa á ný. Ég er lánsöm að hafa fengið að njóta samvista við hana og afa í uppvexti mínum þar sem þau bjuggu í Gránufélagsgötunni. Í minningunni eru ljúfar stundir þar sem amma ásamt afa sá til þess að sem allra best færi um nöfnu hennar hjá henni, hvort sem um væri að ræða kvölds, morgna eða miðjan dag. Allt fram til síðasta dags var henni mjög umhugað um velferð allra í fjölskyldunni og ekki síst litlu krílanna sem hún spurði alltaf eftir. Ég kveð nú ömmu mína í bili og þakka henni fyrir allt sem hún gerði fyrir mig. Megi hún eiga góðar stundir hinumegin.

Dýpsta sæla og sorgin þunga,

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra mál ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)

Þín

Þórunn.