Alltaf við og við eru framin ofbeldisverk, sem valda því, að við hrökkvum við. Um síðustu helgi voru tveir ungir menn á ferð um miðborg Reykjavíkur. Þá viku fjórir menn sér að þeim og réðust á þá, án nokkurs tilefnis svo vitað sé.

Alltaf við og við eru framin ofbeldisverk, sem valda því, að við hrökkvum við. Um síðustu helgi voru tveir ungir menn á ferð um miðborg Reykjavíkur. Þá viku fjórir menn sér að þeim og réðust á þá, án nokkurs tilefnis svo vitað sé. Fjórmenningarnir ökklabrutu annan manninn og brutu jafnframt í honum rifbein. Hinn tvímenninganna varð fyrir svo fólskulegri árás, að þegar ritstjórn Morgunblaðsins var að vinna frétt um þennan atburð sl. þriðjudag lá hann á taugadeild Landspítala með höfuðáverka eftir mjög alvarlega líkamsárás.

Í Morgunblaðinu í gær var frá því skýrt, að sex strákar á aldrinum 14-17 ára hefðu verið stoppaðir á Borgarfjarðarbrú seint á mánudagskvöld. Þeir voru í árásarleiðangri á hendur unglingum í Borgarnesi. Áður hafði komið til átaka á milli unglinga af höfuðborgarsvæðinu og unglinga úr Borgarnesi á svæði tívolís við Smáralind.

Í bílunum tveimur voru tveir 17 ára piltar ökumenn. Annar var próflaus en hinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Enn og aftur vaknar sú spurning, sem er svo sem margrædd, hvað valdi því, að ungmenni og ungt fólk breytist í einhvers konar villidýr.

Er það svo, að enginn geti verið óhultur, sem er á ferð um miðborg Reykjavíkur að næturlagi? Er alveg sama hvort lögreglan er sýnileg eða myndavélum fjölgað? Er næsti maður barinn, ef einhverjum öðrum sýnist svo? Er lögreglan sýnileg? Hún hefur verið það síðustu mánuði í sambandi við hraðamælingar og eftirlit með því, hvort ökumenn séu undir áhrifum áfengis eða vímuefna. En er hún sýnileg í miðborginni að næturlagi?

Þótt nærtækt sé að krefjast þyngri refsinga yfir ofbeldismönnum er þó æskilegra að ná tökum á forvarnaraðgerðum, sem duga svo að efnilegir unglingar breytist ekki á skömmum tíma í óargadýr.

Í Morgunblaðinu í dag er frétt þess efnis, að tveir ökumenn séu teknir á dag undir áhrifum vímuefna. Erum við að missa tökin á fíkniefnavandanum, sem vafalaust tengist ofbeldisverkunum í ríkum mæli?

Í Morgunblaðinu í dag er frétt um að í einu borgarhverfi sé fíkniefnasali á ferð með mikil umsvif. Lögreglan kveðst í samtali við blaðið fylgjast með þeim manni og öðrum, sem stundi það sem kallað er götusölu. Hinn almenni borgari spyr hins vegar hvers vegna slíkir menn séu ekki teknir. Það er auðvitað óhugnanlegt að þeir geti stundað iðju sína inn í miðjum íbúðahverfum. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að um fleiri slík tilvik sé að ræða án þess að þess verði vart að lögregluyfirvöld grípi inn í. Vafalaust hefur lögregla sínar ástæður fyrir því, en blasi það við að um fíkniefnasölu sé að ræða má spyrja, hvers vegna slík hreiður eru ekki hreinsuð út.