— Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Steingrím Sigurgeirsson sts@mbl.

Eftir Steingrím Sigurgeirsson

sts@mbl.is

Það er ekki hægt að segja annað en að vel hafi viðrað á okkur Íslendinga og ég hef fyrir satt að það hafi meðal annars leitt til þess að sala á hvítvínum hafi tekið allnokkurn kipp enda fátt ljúfara á heitu og sólríku sumarsíðdegi en gott glas af hvítvíni. Hér eru austurrísk og ítölsk vín sem svíkja engan.

Frizzando d'Villa Vinea 2006 frá Sandhofer er einn af sumarsmellunum 2007. Þetta er tiltölulega lítið vínhús (15 hektarar) í Neusiedlersee sem hefur getið sér gott orð í Austurríki og er ánægjulegt að sjá með fulltrúa í vínbúðunum hér. Frizzando er vín sem freyðir en er samt ekki alveg freyðivín. Fersk vínber og gul þroskuð epli og gular perur í fersku, örlítið sætu og aðallega yndislegu léttfreyðandi víni. Austurríkismenn kalla vín sem þessi Perlwein, þau perla en freyða ekki. Það gerist ekki mikið sumarlegra. 1.790 krónur. 88/100

Annað austurrískt vín sem hefur verið fáanlegt um nokkurt skeið en nú í nýjum árgangi er Bründlmayer Grüner Veltliner Kamptaler Terrassen 2006. Bründlmayer er einn besti framleiðandi Austurríkis en eins og ég hef margoft bent á eru austurrísku hvítvínin með einhverju því stórkostlegasta sem hægt er að fá. Grüner Veltliner er ásamt Riesling þeirra besta þrúga (þótt Sauvignon Blanc eigi sína spretti í suðurhluta landsins) og þetta er fantagott eintak. Þétt í nefi sem munni, angan af hvítum og suðrænum ávöxtum, banana og ferskjum með votti af kryddi, hvítum pipar, sem er svo dæmigerður fyrir þessa þrúgu. Prófið með grilluðum humar! 1.590 krónur. 89/100

Þá yfir til Ítalíu og fyrst Veneto og framleiðandans Pieropan sem er eitt þeirra vínhúsa sem býr til "alvöru" Soave-vín sem sýna að Soave geta verið vín í heimsklassa.

Pieropan Soave Classico 2005 er þurrt og öflugt matarvín, íhaldssamt með angan af fíkjum og ristuðum hnetum, rjómaþykkt og milt í munni, með þó nokkurri sýru. Verður að hafa mat til að njóta sín og þetta er vín sem getur tekist á við t.d. grillaðan fisk í ítölskum stíl með sítrónu og ólívuolíu með glæsibrag. 1.490 krónur. 89/100

Og loks vín frá Alto Adige eða Suður-Týról, ítalska héraðið við rætur Alpanna þar sem flestir tala þýsku. Einn af betri framleiðendum héraðsins er Alois Lageder og hér eru tvö hvítvín framleidd úr þrúgum úr Pinot-fjölskyldunni.

Alois Lageder Dolomiti Pinot Grigio 2006 er vín úr þrúgunni sem í Alsace heitir Pinot Gris en hefur slegið í gegn t.d. í Bandaríkjunum í ítölsku Pinot Grigio-útgáfunni. Ferskur og þéttur hvítur ávöxtur, þroskaðar perur, melónur, örlítið ristað. Langt og þéttriðið út í gegn með ögn krydduðum endi. 1.690 krónur. 90/100

Alois Lageder Pinot Blanc Haberlehof 2006 er þurrara með fágaðri blómaangan og grænum eplum, þurrt og ávaxtaríkt með hnetukeim (möndlum) í munni, vín sem kallar á góðan ítalskan mat, hvers vegna ekki risotto? 1.780 krónur. 91/100