50 ára Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.
50 ára Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Í SAURBÆJARPRESTAKALLI er því fagnað um þessar mundir að 50 ár eru síðan Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd var vígð. Af því tilefni verður helgina 14. og 15. júlí dagskrá, sem samanstendur af málþingi um Hallgrím Pétursson og hátíðarmessu.

Í SAURBÆJARPRESTAKALLI er því fagnað um þessar mundir að 50 ár eru síðan Hallgrímskirkja í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd var vígð. Af því tilefni verður helgina 14. og 15. júlí dagskrá, sem samanstendur af málþingi um Hallgrím Pétursson og hátíðarmessu.

Yfirskrift málþingsins er "Hallgrímsstefna á heimaslóð" og hefst það kl. 13.30 á laugardeginum á Hótel Glymi. Þar munu 5 fyrirlesarar, þau Einar Sigurbjörnsson, Kristján Eiríksson, Margrét Eggertsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Þórunn Sigurðardóttir flytja erindi, en stjórn dagskrárinnar verður í höndum Sigurbjargar Þrastardóttur. Aðgangseyrir er 1.500 krónur og eru veitingar innifaldar í verði.

Þá verður kl. 14 á sunnudeginum hátíðarmessa, þar sem sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup í Skálholti, mun predika; sr. Kristinn Jens Sigurþórsson, sóknarprestur í Saurbæ, þjónar fyrir altari og kór Saurbæjarprestakalls syngur undir stjórn Viðars Guðmundssonar organista.

Að messu lokinni verður öllum viðstöddum boðið að þiggja kirkjukaffi á Hótel Glymi.

Í fréttatilkynningu segir að í tilefni vígsluafmælisins hefur á árinu þegar verið staðið fyrir ýmsum menningarviðburðum, en þrennir tónleikar hafa verið haldnir í kirkjunni, þar af tvennir með Megasi og Píslarsveit hans, og einnig hafa verið settar upp tvær myndlistarsýningar. Sú fyrri bar yfirskriftina "Mynd mín af Hallgrími" og áttu 27 listamenn hver sitt verk á þeirri sýningu. Nú stendur yfir í kirkjunni sýning 26 barna úr Heiðarskóla.

"Þá má nefna að unnið hefur verið að því í sumar að fegra mjög umhverfi kirkjunnar í Saurbæ en búið er að leggja malbik á bílaplanið fyrir framan kirkjuna og bætir það mjög alla aðkomu. Þá hafa verið lagðir göngustígar á milli helstu örnefna í landi Saurbæjar sem tengjast sr. Hallgrími og þannig má segja að á staðnum gefist kostur á að komast í nánari snertingu við arfleifð hans, sem kallaður hefur verið prestur allrar þjóðarinnar," segir í fréttatilkynningu.