Umhverfisvænt Sumir vilja meina að besta aðferðin til að slá tún sé að beita orfi og ljá upp á gamla mátann.
Umhverfisvænt Sumir vilja meina að besta aðferðin til að slá tún sé að beita orfi og ljá upp á gamla mátann. — Morgunblaðið/Eggert
MARGIR hafa kannski ekki leitt hugann að því en svo einfalt verk sem það er að slá garðinn getur verið slæmt fyrir umhverfið því bensínsláttuvélar sem stundum standa kyrrar langtímum saman eru ekki alltaf í sem bestu standi.

MARGIR hafa kannski ekki leitt hugann að því en svo einfalt verk sem það er að slá garðinn getur verið slæmt fyrir umhverfið því bensínsláttuvélar sem stundum standa kyrrar langtímum saman eru ekki alltaf í sem bestu standi. Flestir nota sláttuvélar sem ganga fyrir bensíni, jafnvel með tvígengisvélum sem menga mikið og því mætti skoða aðra möguleika til að slá grasið.

*Rafmagnssláttuvélar eru líklega auðveldasta leiðin til að slá á umhverfisvænni máta. Þær nýta rafmagn sem á Íslandi er framleitt með vatnsafli. Mörgum þykir þó óþægilegt að burðast með langar framlengingarsnúrur vítt og breitt um stóra garða.

*Handsláttuvélar eru umhverfisvænar og auk þess er góð líkamsrækt að slá garðinn með þess konar sláttuvél. Þær eru líka ódýrar og nánast viðhaldsfríar og hægt er að slá garðinn í rólegheitum með þess konar sláttuvél en vissulega geta þær verið leiðigjarnar í vætutíð eða þegar grasið er hátt því þá er mjög erfitt að slá með handsláttuvélum.

*Orf og ljár er án nokkurs vafa fullkomlega umhverfisvæn leið til að slá gras. Til viðbótar er sláttur með orfi og ljá nánast hljóðlaus og hin besta líkamsrækt og þá skiptir heldur engu máli hvort grasið er hátt eða blautt.

Hægt að minnka mengun frá bensínsláttuvélum

Fyrir þá sem ekki vilja gefa bensínsláttuvélina upp á bátinn þá má gera ýmislegt til að draga úr menguninni frá sláttuvélinni.

*Gætið þess að halda vélinni hreinni að innan og utan, sérstaklega loftsíu, olíusíu og kertum.

*Ef blanda þarf olíu við bensínið þá skal gæta þess að blanda í réttum hlutföllum.

*Notið sláttuvélina ekki að óþörfu, t.d. er óþarfi að slá eins oft í miklum þurrkum eins og verið hafa undanfarið.

*Hönnun lóðarinnar skiptir miklu máli. Flöt og einföld grasflöt er einfaldari í slætti en hæðótt og uppskipt grasflöt og því mætti velja sláttuvél sem hentar lóðinni, t.d. rafmagns á minni lóðir en bensín á stórar og flatar lóðir.