Víkverja langar til að flytja og helst kaupa hús í Grafarholti, nýrri byggð við Úlfarsfell eða jafnvel á Völlunum í Hafnarfirði.

Víkverja langar til að flytja og helst kaupa hús í Grafarholti, nýrri byggð við Úlfarsfell eða jafnvel á Völlunum í Hafnarfirði. Ástæðan er einföld – eins og er samanstendur bakgarður Víkverja af um það bil eitt hundrað steinvölum, þremur stráum, einum rifnum plastpoka og tveimur fíflum. Í fyrrnefndum hverfum hins vegar er bakgarðurinn enginn annar en guðsgræn og yndisleg náttúran auk þess sem flestir eiga litla ferkantaða einkaflöt að auki.

Víkverji var í heimsókn í Grafarholti í gær og skellti sér út í göngutúr í bakgarðinum. Á eins og hálfs tíma göngu upplifði Víkverji náttúruna eins og hún gerist best og það án þess að sjá til mannabyggða lungann af ferðinni. Það er einhver undarleg hamingjutilfinning að vera í óbyggðum, þó að maður sé það ekki í raun – en heili Víkverja hefur alltaf átt einkar auðvelt með að blekkja sjálfan sig, svona eins og þegar Víkverji vill ekki vakna á morgnana og heili hans telur honum trú um að það sé alheimsfrídagur akkúrat þann dag.

Víkverji villtist þrisvar, reyndi að miða staðsetningu sína út frá fjöllum og lækkandi sól, gekk fram á árásargjarna fugla sem allt gera til að verja hreiður sitt, sá ungmenni ríða berbakt á hestum sínum og fann svo stíginn heim á endanum. Ef valinn er einn af litlu kræklóttu göngustígunum upp frá Rauðavatni má síðan finna yndislega litla sælureiti inni í rjóðrum og á milli steina.

Það sem greip athygli Víkverja var það að í óbyggðaför sinni sá hann engar mannverur utan ungmennin á hestunum. Um leið og Víkverji komst hins vegar inn á aðalstíginn, sem liggur frá Grafarholtshverfinu og upp að hitaveitutanki, hitti hann fyrir þó nokkrar eldri konur í heilsubótargöngu og eitt par.

Ætli Víkverji sé sá eini sem sækir í hið óbyggða – ætli spennufíkillinn dragi hann einan áfram í leiðangur um hið óþekkta?

Víkverja finnst furðulegt hvað fólk virðist halda sig við það sem það þekkir og hika við að bregða af leið. Finnst honum líklegt að það sé ein af ástæðum þess að Esjan er yfirleitt afar fjölmenn og sérstaklega á góðviðrisdögum þó að orsökin sé auðvitað einnig sú að Esjan hentar einfaldlega vel fyrir léttar fjallgöngur. Víkverji vill benda á að í kringum höfuðborgarsvæðið er krökkt af spennandi göngusvæðum og fjöllum, fellum og hólum sem einnig er gaman að heimsækja. Það er alltaf gaman að breyta til – eða það finnst Víkverja að minnsta kosti.