Hallmundur Kristinsson heyrði af því að ný og umhverfisvæn forsetabifreið væri komin að Bessastöðum: Ólafur forseti gerist nú grænn. grænka sumir af öfund. (Örpistill þessi er umhverfisvænn, eftir frábæran höfund).

Hallmundur Kristinsson heyrði af því að ný og umhverfisvæn forsetabifreið væri komin að Bessastöðum:

Ólafur forseti gerist nú grænn.

grænka sumir af öfund.

(Örpistill þessi er umhverfisvænn,

eftir frábæran höfund).

Það heyrðist norður til Davíðs Hjálmars Haraldssonar að nýja forsetabifreiðin væri hljóðlaus:

Ólafur lifir í ást og sátt

við umhverfið – sem er vandi,

og þegar hann blessaður hefur hátt,

það heyrist á Norðurlandi.

Frá því segir á Vísnavef Skagfirðinga að við fyrsta forsetakjör á Íslandi hafi það aðeins verið þingmenn sem kusu og komu fram 15 auðir seðlar við þá atkvæðagreiðslu. Út af því var þessi ferskeytla ort af ókunnum höfundi:

Áttu að fella forsetann

fimmtán seðlar auðir.

Höfundunum enginn ann,

allir betur dauðir.

Ármann Þorgrímsson hnýtir heimspeki í sléttubönd, sem flytja má aftur á bak og áfram:

Hrakar viti allra ört

eyðist sálar kraftur

þjakar marga sorgin svört

syndin kemur aftur.

Stefán Stefánsson frá Móskógum á Bökkum orti til Jóns Kjartanssonar, forstjóra Áfengisverslunar ríkisins, en sagt var að hann hefði bara vinnukonuútsvar.

Aldrei mikið útsvar bar

eða skatta og þess konar

sem heldur ekki von til var

"vinnukona Framsóknar".

pebl@mbl.is

Höf.: pebl@mbl.is