RÚSSNESKA orkufyrirtækið Gazprom hefur valið franska fyrirtækið Total of France til samstarfs um gasvinnslu á Shtokman-svæðinu svokallaða í Barentshafi norðan við Kola-skaga. Þar er að finna einhverjar mestu gaslindir á jörðinni.

RÚSSNESKA orkufyrirtækið Gazprom hefur valið franska fyrirtækið Total of France til samstarfs um gasvinnslu á Shtokman-svæðinu svokallaða í Barentshafi norðan við Kola-skaga. Þar er að finna einhverjar mestu gaslindir á jörðinni.

Gazprom hafði verið í viðræðum við norsku fyrirtækin Statoil og Norsk Hydro og bandarísku fyrirtækin Chevron og ConocoPhillips auk hins franska Total.

Fram kemur í tilkynningu frá Gazprom að Total muni ráða yfir 25% í fyrirtæki sem stofnað verður um gasvinnsluna á Shtokman-svæðinu. Gazprom muni fara með 51% hlut en öðrum aðilum muni standa til boða 24% hlutur.

Aðkoma kannski síðar

Í frétt á fréttavef norska blaðsins Aftenposten segir að Gazprom hefði áður gefið til kynna að fyrirtækið hefði áhuga á samstarfi við norsku fyrirtækin, Statoil og Norsk Hydro, sem ákveðið hefur verið að sameina. Norsku fyrirtækin hafi þótt álitlegir kostir vegna reynslu þeirra á norðlægum slóðum. Talsmenn Gazprom segi hins vegar að ekki sé útilokað að norsku fyrirtækjunum muni standa til boða aðkoma að verkefninu síðar.

Gasvinnsla Gazprom á Shtokman svæðinu verður umsvifamesta orkuvinnsla sem rússneskt fyrirtæki hefur ráðist í til þessa. Frá því hefur verið greint áður að Rússar stefni að því að flytja gasið frá Shtokman-svæðinu í leiðslum til viðskiptavina í Evrópu en ekki í fljótandi formi með skipum til Ameríku.