Staðfastur Bush á fundinum í gær.
Staðfastur Bush á fundinum í gær. — Reuters
Eftir Arndísi Þórarinsdóttur arndis@mbl.

Eftir Arndísi Þórarinsdóttur

arndis@mbl.is

"ÞEGAR við byrjum að draga okkur út úr Írak verður það vegna þess að hernaðarsérfræðingar okkar segja okkur að gera það, ekki vegna þess að skoðanakannanir segi okkur að það væri skynsamleg pólitísk ákvörðun," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi í gær, þar sem á honum dundi spurningaflóð vegna Íraksstríðsins.

Bush sagði að það að kalla herliðið heim of snemma jafngilti því að láta Írak í hendur al-Qaeda samtakanna. Þá myndi þurfa að senda bandaríska hermenn aftur á sama vettvang síðar, til þess að mæta enn hættulegri óvini. Þrátt fyrir þetta samþykkti fulltrúadeild bandaríska þingsins seint í gærkvöld að kalla herinn heim fyrir næsta vor. Bush hefur sagst ætla að beita neitunarvaldi á niðurstöðuna.

Vill efla stríðsreksturinn

Bush sagði að hann vissi að bandaríska þjóðin væri orðin langþreytt á stríðsrekstrinum, enda væri þetta ljótt og langvinnt stríð. Hann sagði þó að hann tryði því að stríðið gæti unnist, og yrði að vinnast. "Ef við aukum stuðning okkar við herliðið núna, þá flýtum við fyrir því að það komi heim," sagði forsetinn, en í næstu viku er gert ráð fyrir því að öldungadeild þingsins kjósi um breytingar á hermálafjárlögum.

Blaðamannafundurinn í gær var haldinn í kjölfar þess að skýrsla Bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, um al-Qaeda var birt. Í henni var því haldið fram að hryðjuverkasamtökin hefðu nú náð sama styrk og þau höfðu yfir að ráða í september árið 2001, árið sem árásirnar voru gerðar á Tvíburaturnana í New York. Í skýrslunni var sagt að höfuðpaurar samtakanna væru búnir að koma sér notalega fyrir í fjalllendinu í Pakistan og væru betur búnir en nokkru sinni til þess að ráðast gegn Vesturlöndum. Bush sagði þetta fjarstæðu.

Miðar hægt í Írak

Annað málefni fundarins var skýrsla sem birt var í vikunni um árangur Íraksstjórnar við að ná þeim markmiðum sem Bandaríkjastjórn hafði sett henni. Í skýrslunni kom fram að innan við helmingur þeirra markmiða, sem sett voru, hefði náðst. Bush sagði að það væru ljósir punktar í skýrslunni, en viðurkenndi að enn væri mikið verk fyrir höndum í Írak svo að mætti ná pólitískum og efnahagslegum markmiðum. Hann ítrekaði einnig að lokaskýrsla um málið yrði ekki tilbúin fyrr en í september og því myndi hann ekki láta þessa skýrslu hafa áhrif á framgöngu Bandaríkjamanna í Írak.
Í hnotskurn
» Á síðustu fimm árum hafa ríflega 3.000 bandarískir hermenn fallið í Írak, í stríði sem hefur kostað Bandaríkin um 10 milljarða dala, eða rúmlega 600 milljónir króna, á mánuði.
» Ljóst er að tugir, ef ekki hundruð þúsunda Íraka hafa fallið og milljónir eru á vergangi.
» Stuðningur við stríðið er dvínandi í Bandaríkjunum.