Sigurður Pétursson
Sigurður Pétursson
Sigurður Pétursson telur að nú þurfi samstillt átak stjórnvalda og heimamanna til að lina höggið á Vestfjörðum: "Fari svo að stjórnvöld horfi áfram aðgerðalaus upp á hnignun byggða á Vestfjörðum verða íbúarnir sjálfir að taka sér þann rétt sem þeim ber"

EFTIR niðurskurð þorskveiðiheimilda um einn þriðja, eða 60 þúsund tonn, er brýnna en nokkru sinni fyrr að stjórnvöld beiti sameiginlegu afli til að rétta við byggðahallann sem veldur því að landið er að sporðreisast og fólkið hrynur af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Vestfirðir hafa mátt glíma við fólksfækkun allt frá því kvótakerfi var sett á í fiskveiðum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Síðustu tíðindi bæta þar gráu ofan á svart. Nú þarf samstillt átak stjórnvalda og heimamanna til að lina höggið og bægja burt þeim skugga sem hvílir yfir byggðunum. Hér eru sett fram tíu ráð, sem dugað geta til að efla byggð og atvinnu á Vestfjörðum nú þegar. Ráð sem hægt er að fylgja strax, ef vilji er fyrir hendi:

1. Stofnun Háskóla Vestfjarða á Ísafirði.

2. Sjálfstæð rannsóknarstofnun í fiskifræðum verði stofnsett við Háskóla Vestfjarða.

3. Heimahöfn rannsóknarskipa Hafrannsóknastofnunar verði flutt til Ísafjarðar og þau gerð út héðan.

4. Hornstrandastofa á Ísafirði og Látrabjargsstofa á Patreksfirði verði strax settar upp.

5. Alþjóðleg rannsóknarstofnun í jarðkerfisfræðum á norðurhveli verði stofnuð í tengslum við Háskóla Vestfjarða.

6. Miðstöð fiskeldisrannsókna með áherslu á þorskeldi verði sett upp á Ísafirði.

7. Skýrsludeild ríkislögreglustjóra verði strax stofnsett á Vestfjörðum.

8. Þjóðskjalasafn Íslands verði að hluta flutt til Vestfjarða.

9. Jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði boðin út strax og vegurinn um Barðastrandarsýslu, frá Vatnsfirði til Kollafjarðar, kláraður innan tveggja ára.

10. Orkubú Vestfjarða og Rarik verði sameinuð í orkufyrirtæki með höfuðstöðvar á Vestfjörðum.

Allar þessar ráðstafanir eru á hendi framkvæmdavaldsins: ríkisstjórnar og ráðherra. Þær eru viðbót við þau verkefni sem þegar hafa verið samþykkt, svo sem Óshlíðargöng, styrkingu fjarskipta og fjölgun opinberra starfa. Þær ráðstafanir voru samþykktar áður en síðustu ótíðindi gerðust. Mótvægisaðgerðir hafa nú verið boðaðar með almennum orðum, en hér eru sett fram raunhæf, föst verkefni. Hér eru tillögur sem munar um. Ráðamenn góðir, nú er tími til aðgerða!

Ef ekki verður strax tilkynnt um aðgerðir sem þessar, eða aðrar sambærilegar, verða Vestfirðingar að grípa til annarra og beittari ráða. Fari svo að stjórnvöld horfi áfram aðgerðalaus upp á hnignun byggða á Vestfjörðum verða íbúarnir sjálfir að taka sér þann rétt sem þeim ber: Frumbyggjaréttur Vestfirðinga er bundinn nýtingu fiskimiðanna umhverfis fjórðunginn. Ef íslensk stjórnvöld neita Vestfirðingum um að nýta sína helstu auðlind og sinna ekki skyldu sinni við landshlutann, þá er ekki um annað að ræða en að taka upp önnur ráð, annað hvort eða bæði:

1) Vestfirðingar neiti að lúta ranglátum og ósanngjörnum lögum um stjórn fiskveiða. Þess í stað setji Vestfirðingar upp sína eigin fiskveiðistjórnun og stýri sókn á sínum heimamiðum.

2) Vestfirðir verði sérstakt heimastjórnarsvæði þar sem Vestfirðingar sjálfir fái yfirráð fiskimiðanna á grundvelli þúsund ára hefðar.

Auðlindir Vestfjarða munu auðveldlega standa undir frjóu og skapandi samfélagi. Í samstarfi við Íslendinga búsetta í öðrum landshlutum gætum við byggt betra Ísland. Nú er spurningin hvort aðrir Íslendingar vilja telja Vestfirðinga með eða ekki.

Höfundur er bæjarfulltrúi Í-listans í Ísafjarðarbæ