Sláttur Christian Þorkelsson, kylfingur í 1. flokki hjá GR, stendur hér í stórslætti á 11. brautinni í Grafarholtinu.
Sláttur Christian Þorkelsson, kylfingur í 1. flokki hjá GR, stendur hér í stórslætti á 11. brautinni í Grafarholtinu. — Ljósmynd/Frosti Eiðsson
KYLFINGAR landsins héldu áfram að leika gott golf í meistaramótum sínum í gær og í nokkrum klúbbum eru menn talsvert undir pari eftir tvo hringi.

KYLFINGAR landsins héldu áfram að leika gott golf í meistaramótum sínum í gær og í nokkrum klúbbum eru menn talsvert undir pari eftir tvo hringi. Þannig er Sigurpáll Geir Sveinsson á 9 undir pari í Mosfellsbænum og í Keili náði Björgvin Sigurbergsson forystu á meðan Íslandsmeistarinn í GKG, Sigmundur Einar Másson, jók forystu sína þar.

Sigurpáll Geir heldur sínu striki á Meistaramóti Kjalar og jók forystu sína um eitt högg í gær. Hann lék á 69 höggum, þremur höggum undir pari og er því samtals á 135 höggum eftir tvo hringi, eða á 9 höggum undir pari. Davíð Már Vilhjálmsson og Magnús Lárusson koma næstir á 140 höggum en Davíð Már lék á 69 í gær á meðan Magnús lauk leik á 70 höggum. Hjá konunum er Nína Björk Geirsdóttir með fjögurra högga forystu á Helgu Rut Svanbergsdóttur.

Björgvin finnur rétta taktinn hjá Keili

Hjá Keili urðu þau tíðindi í gær að Björgvin Sigurbergsson lék manna best, kom inn á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari og er samtals á 133 höggum eða 9 höggum undir pari. Auðunn Einarsson, sem lék á sex undir pari á fyrsta hring, varð að láta sér parið nægja í gær og er þremur höggum á eftir Björgvini í öðru sæti. Tinna Jóhannsdóttir er komin með tíu högga forystu í meistaraflokki kvenna, lék á 76 höggum í gær á meðan Signý Arnórsdóttir, sem var í öðru sæti, lék á 84 höggum og við það komst Ásta Birna Magnúsdóttir í annað sætið en hún lék best allra í kvennaflokki í gær, á 74 höggum.

Meistarinn með sex högga forystu hjá GKG

Íslandsmeistarinn í höggleik, Sigmundur Einar Másson, hélt uppteknum hætti á öðrum hring hjá GKG. Fyrsta hring lék hann á 65 höggum en í gær urðu þau 69, eða tvö högg undir pari, og er hann því samtals á 8 höggum undir pari og með sex högga forystu. Kjartan Dór Kjartansson er á tveimur höggum undir pari og Ottó Sigurðsson er á parinu í þriðja sæti.

Björn Þór og Helena sterkust hjá GR

Hjá GR er Björn Þór Hilmarsson með forystu eftir tvo hringi, lék hvorn um sig á 73 höggum og er því á 146 höggum eða tveimur höggum yfir pari. Haraldur Hilmar Heimisson er annar, höggi á eftir, en hann lék á 72 höggum í gær. Íslandsmeistari kvenna, Helena Árnadóttir, er með þriggja högga forystu í kvennaflokki, lék á 77-78 höggum og er 11 yfir pari. Næst er Berglind Björnsdóttir, sem lék best fyrsta daginn á 76 höggum en í gær urðu þau 83.

Nökkvi Gunnarsson náði ekki að halda út á öðrum degi á Nesinu en hann var jafn Ólafi Birni Loftssyni eftir fyrsta dag. Þá léku þeir á 68 höggum, fjórum undir pari, en í gær var Nökkvi á 82 höggum og er nú á sex höggum yfir pari í fimmta sæti en Ólafur Björn lék á 69 höggum og er samtals á 7 höggum undir pari og með tólf högga forystu.