Síldveiðar Unnið við löndun úr Guðmundi VE en síldveiðar hafa gengið ágætlega að undanförnu.
Síldveiðar Unnið við löndun úr Guðmundi VE en síldveiðar hafa gengið ágætlega að undanförnu. — Morgunblaðið/Kristján
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is MIKILL makríll hefur verið innan um norsk-íslensku síldina að undanförnu og hefur fiskurinn verið allt að 50% aflans.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

MIKILL makríll hefur verið innan um norsk-íslensku síldina að undanförnu og hefur fiskurinn verið allt að 50% aflans. Síldin hefur færst austur úr íslensku landhelginni og í gær voru 9 íslensk skip að síldveiðum í færeysku lögsögunni.

"Hún hefur verið að flakka inn og út úr íslensku lögsögunni," segir Haukur Björnsson, framkvæmdastjóri Eskju hf. á Eskifirði, en þar eru komin um 6.000 tonn á land og þar af hafa um 4.000 tonn verið unnin um borð í Aðalsteini Jónssyni SU.

Síldin fer annars að mestu leyti í bræðslu og hefur Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. verið afkastamest til þessa. Þar er búið að bræða um 9 þúsund tonn af síld og um 6 þúsund tonn af kolmunna. "Síldaraflinn hefur verið töluvert mikið makrílblandaður að undanförnu," segir Elva Benediktsdóttir, launa- og birgðafulltrúi HÞ.

Í vikunni hafa þrjú skip landað síld á Þórshöfn. Júpiter ÞH og Álfsey VE hófu síldveiðarnar í byrjun mánaðar, fóru út 2. júlí og komu inn viku síðar. Þau eru á partrolli og lönduðu samtals rúmlega 1.850 tonnum, þar af rúmlega 900 tonnum af makríl. Guðmundur VE landaði um 600 tonnum í bræðslu í fyrradag, um 490 tonnum af síld og um 130 tonnum af makríl, en að öðru leyti er síldin fryst um borð og henni landað hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, tekur undir með Elvu í sambandi við makrílinn og segir hann hafa verið um 30 til 40% aflans að undanförnu og stundum meira. Gunnþór segir jákvætt að makríllinn hafi fengist innan íslensku lögsögunnar, því þar sé hann utan kvóta, og vonandi verði framhald á, en hann hafi allur farið í bræðslu.

Ríflega 7.000 tonnum af síld hefur verið landað hjá Síldarvinnslunni og þar af hafa um 4.000 til 4.500 tonn farið í vinnslu. Gunnþór segir að þó ekki hafi verið mikill kraftur í veiðinni hafi ekki gengið illa og vel hafi gengið að vinna síldina í landi. Hins vegar sé hún farin að fitna mikið og vinnslan komin í sumarfrí.