Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason
EHF, Handknattleikssamband Evrópu, hefur úrskurðað að franska landsliðsmanninum Daniel Narcisse sé heimilt að yfirgefa þýska Íslendingafélagið Gummersbach og ganga til liðs við Chambéry í heimalandi sínu.

EHF, Handknattleikssamband Evrópu, hefur úrskurðað að franska landsliðsmanninum Daniel Narcisse sé heimilt að yfirgefa þýska Íslendingafélagið Gummersbach og ganga til liðs við Chambéry í heimalandi sínu. Gummersbach var gefinn frestur til næsta þriðjudags til að áfrýja úrskurðinum.

Narcisse er örvhent skytta og einn lykilmanna Gummersbach og franska landsliðsins, og mikið áfall fyrir Alfreð Gíslason og hans menn að missa hann úr sínum leikmannahópi.

Forráðamenn Gummersbach töldu að Narcisse væri bundinn félaginu í eitt ár í viðbót vegna ákvæðis í samningi hans og neituðu að skrifa undir félagaskiptin nema gegn 350 þúsund evra greiðslu, sem eru tæpar 30 milljónir króna. Narcisse skrifaði hinsvegar undir samning við Chambéry í vor og taldi sig lausan allra mála frá Gummersbach.

Talsmaður EHF, Markus Glaser, sagði við sjónvarpsstöð í Köln að málið hefði verið mjög erfitt úrlausnar. Ákvæði um möguleika á framlengingu á samningi væru alltaf tvíbent og báðir aðilar hefðu ýmislegt til síns máls. "Að sjálfsögðu geta bæði félög lagt fram sínar athugasemdir í kjölfarið á þessum úrskurði," sagði Glaser.

Samkvæmt netmiðlinum Handball-World hefur lögfræðistofa Andreas Thiel, fyrrum landsliðsmarkvarðar Þjóðverja, tekið að sér málið fyrir hönd Gummersbach og mun freista þess að fá úrskurðinum hnekkt.