Leikstjóri: Laurent Achard. Aðalleikendur: Julien Cochelin, Pascal Cervo, Annie Cordy, Fettouma Bouamari, Jean–Yves Chatelais. 100 mín. Frakkland 2006.

AÐALPERSÓNA átakanlegrar myndar um hrun franskrar sveitafjölskyldu, er Martin (Cochelin), yngsti meðlimurinn, 10 ára gamall snáði. Hann má horfa upp á stóra bróður sinn drabbast niður í bældri samkynhneigð og óraunsæjum draumum um skáldskaparhæfileika; föður sinn missa fjárhagsleg tök á býlinu, en erfiðust er eilíf og viðvarandi kvöl skuggans af geðsjúkri móður hans sem myrkvar umhverfið þó hún fari sjaldnast út úr herbergi.

Myndir á borð við Síðasta geðsjúklinginn eiga fyrst og fremst erindi við kvikmyndahátíðargesti sem eru komnir til að upplifa verk sem lýsa aðstæðum sem menn forðast er þeir leita að stundarafþreyingu og upplyftingu. Geðveiki er vandmeðfarið umfjöllunarefni, myndin forvitnileg þeim sem þekkja sjúkdóminn af afspurn jafnt sem þeim sem hafa komist í persónuleg kynni við þennan illskeytta og hræðilega vágest, sem fær skilningsríka meðhöndlun sem hlýtur að byggjast á reynslu höfundanna að umtalsverðu leyti. Síðasti geðsjúklingurinn er gerð eftir smásögu sem leikararnir, ásamt kunnáttusömum leikstjóra og handritshöfundi, gera að hræðilegri innsýn í veröld sem er því miður til staðar allt í kringum okkur. Síðasti geðsjúklingurinn er sláandi upplifun en fræðandi og minnir okkur eftirminnilega á stóran og grafalvarlegan þjóðfélagsvanda sem íslenska heilbrigðiskerfið á ekki í síðri vanda við að leysa en það franska: Umönnun geðsjúkra, sem verða í allt of miklum mæli að dveljast í heimahúsum án nægilegrar, faglegrar umönnunar.

Sæbjörn Valdimarsson