Harðvítugar deilur innan Öryrkjabandalagsins eru það allra versta af mörgu slæmu sem getur komið fyrir þann stóra hóp fólks sem býr við örorku vegna sjúkdóma eða fötlunar.

Harðvítugar deilur innan Öryrkjabandalagsins eru það allra versta af mörgu slæmu sem getur komið fyrir þann stóra hóp fólks sem býr við örorku vegna sjúkdóma eða fötlunar. Hátt í fjórtán þúsund Íslendingar eru þannig staddir og þeirra helsta hagsmunamál er að í þjóðfélaginu ríki réttlæti, samstaða og samkennd.

Gengið á undan með slæmu fordæmi

Það er algjört lífsspursmál fyrir öryrkja að allir sem valdir hafa verið til að gæta hagsmuna hóps sem býr við erfiðari aðstæður en allur þorri almennings, sinni því hlutverki sínu en skelli sér ekki í valdabaráttu fyrir eigin hagsmunum.

Í nokkur ár hefur valdatogstreita innan Öryrkjabandalagsins síst aukið hróður sambandsins. Flestir muna eftir skyndilegum brottrekstri Arnþórs Helgasonar úr framkvæmdastjórastóli hjá bandalaginu og tárvotu sjónvarpsviðtali í kjölfarið. Brottreksturinn minnti mest á skyndileg starfslok toppanna í einverju Group-fyrirtækinu. Þetta finnst mörgum að eigi ekki við í öryrkjabandalagi. Svo virðist hins vegar sem viðskiptasjónarmið, valdablokkir, launaleynd og ýmislegt fleira sem almenningur tengir frekar við fyrirtæki í harðvítugum samkeppnisrekstri en stuðningssamtök öryrkja hafi einkennt umræðu tengda öryrkjum síðustu misserin. Það eiga þeir ekki skilið, segja talsmenn þeirra, sem þó kenna hverjir öðrum um ástandið.

Núverandi framkvæmdastjóri er ekki við og í gær var verið að ganga frá starfslokasamningum bæði við Hafdísi Gísladóttur framkvæmdastjóra og Sigurstein Másson, fráfarandi formann. Þetta þýðir væntanlega að skútan er stjórnlaus þar til nýir menn komast til valda.

Klofið í herðar niður

Félög innan Öryrkjabandalagsins eru 32. Þau skiptast í tvær nærri jafnstórar fylkingar í baráttunni um völd og stefnu. Félögin hafa sama vægi í atkvæðagreiðslum innan bandalagsins hvort sem þau eru stór eða smá. Þetta þykir í anda jafnræðis til þess að tryggja rétt hinna litlu félaga sem minna mega sín.

Samtök fólks með geðraskanir, félagið Geðhjálp, er risi innan bandalagsins. Í því er um þriðjungur félagsmanna í Öryrkjabandalaginu og baráttan um hagsmuni geðfatlaðra í öryrkjahúsunum við Hátún var helsta ástæða þess að Sigursteinn Másson bauð sig fram til formennsku, þegar Garðar Sverrisson hætti. Milli þeirra var sátt þá, en nú eru þeir hvor í sinni fylkingunni og rætt um að Geðhjálp og félög sem fylgja þeirri fylkingu að málum íhugi að kjúfa sig út úr bandalaginu.

Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, vísar því á bug að félagið hyggi á úrsögn, en neitar því þó ekki að til úrsagnar geti komið ef ekki rætist úr illindunum. „Menn verða að reyna að komast að þolanlegri niðurstöðu áður en slík ákvörðun er tekin. En ef menn ætla til fortíðar með óbreyttu ástandi í búsetumálum er ekki víst að úrsögn verði umflúin,“ segir Sveinn. Hann segir fráleitt að hagsmunafélag standi í rekstri og þurfi að verja óboðlega þjónustu við skjólstæðinga. Þar vísar Sveinn til íbúða öryrkja í Hátúni sem allra harðasta deilan stendur um.

Stórpólitísk markmið í hættu

Hagmsunir öryrkja tengjast baráttu launþega, breytingum á almannatryggingakerfinu, heilbrigðiskerfinu og yfirleitt flestu því sem tekist er á um í velferðarþjóðfélagi. Nýtt örorkumat er í vinnslu í nefnd á vegum forsætisráðherra og tveggja milljarða króna framlag rennur til öryrkja, komi þeir sér saman um að taka við þeim. Fyrir nokkrum árum voru átök öryrkja og stjórnvalda fyrir dómstólum, nú standa yfir samningar um stór hagsmunamál. Talsmenn öryrkja eru sammála um að þeir séu allir í hættu.. Ástandið í Öryrkjabandalaginu sé því ekkert minna en skelfilegt fyrir þúsundir Íslendinga.

beva@24stundir.is