Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is Það kvað við nýjan tón þegar hin glaðbeitta þungarokkshljómsveit Van Halen kom fram á sjónarsviðið vestur í Ameríku.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Það kvað við nýjan tón þegar hin glaðbeitta þungarokkshljómsveit Van Halen kom fram á sjónarsviðið vestur í Ameríku. Lagasmíðar voru metnaðarfullar og ferskar, takturinn þéttur og í forgrunni spriklaði spartversk söngspíran eins og hún ætti lífið að leysa. Það var samt öðru fremur gítarleikurinn sem fékk menn til að sperra eyrun. Annað eins hafði ekki heyrst – alltént ekki á þessu tilverustigi. Tæknin var ógurleg og skilningurinn næmur. Það er engin tilviljun að Eddie Van Halen lagði línuna fyrir heila kynslóð rokkgítarleikara. Hann er sannkallaður virtúós.

Ýmsar vörður eru á vegferð þungarokksins. Ein þeirra er án efa fyrsta breiðskífa Van Halen, sem bar nafn skapara síns, en um þessar mundir eru þrjátíu ár liðin frá útgáfu hennar. Er platan oft nefnd í sömu andrá og frumraunir goðsögulegra sveita á borð við Black Sabbath, Led Zeppelin og Guns N' Roses þegar horft er til best heppnuðu innkomu þungarokkshljómsveitar á plötumarkaðinn.

Alex og Eddie Van Halen, bræður af hollenskum uppruna, hófu ungir að spila og semja tónlist saman í Pasadena í Kaliforníu. Í upphafi lék Alex á gítar og Eddie á trommur en þegar þeir settu sína fyrstu hljómsveit, Mammoth, á laggirnar árið 1972 höfðu þeir skipt um hlutverk. Eddie sá jafnframt um sönginn. Mark Stone fullkomnaði tríóið á bassa en hann vék tveimur árum síðar fyrir Michael Anthony.

Sama ár ákvað Eddie að eftirláta öðrum sönginn og var efnt til áheyrnarprufu. Meðal umsækjenda um starfið var litríkur náungi, David Lee Roth að nafni. Hann stóðst í fyrstu atrennu ekki kröfur Van Halen-bræðra en stofnaði þó til viðskipta við þá. Roth átti nefnilega í fórum sínum forláta hljóðkerfi sem hann leigði sveitinni. Leigan tók í budduna og á endanum brutu bræðurnir odd af oflæti sínu – buðu Roth söngvarastarfið. Fyrst og fremst til að spara peninga.

David Lee Roth mun seint skipa sér á bekk með söngvurum á borð við Bruce Dickinson, Robert Plant og W. Axl Rose en bætir það upp með líflegri sviðsframkomu og hnyttni. Hann er ókrýndur frasakóngur þungarokksins.

Það fór líka svo að vegur Van Halen óx hratt í jaðarheimum rokksins á Sunset Strip á áttunda áratugnum. Tróð sveitin m.a. reglulega upp í hinum fræga klúbbi Whiskey a Go Go. Þar kom Gene Simmons úr Kiss auga á hana árið 1977 og bauðst til að fjármagna demó-upptöku í hljóðveri. Ekki reyndist sveitin þó eiga listræna samleið með Simmons, sem vildi m.a. breyta nafni hennar í Daddy Longlegs, og dró hann sig fljótlega í hlé.

En björninn var unninn og ekki leið á löngu uns Warner Bros tók Van Halen upp á sína arma. Fyrsta platan, sem hlaut einfaldlega nafnið Van Halen, var hljóðrituð á þremur vikum haustið 1977 og gefin út 10. febrúar 1978. Lítið var um eftirvinnslu enda lagði sveitin áherslu á að afraksturinn minnti sem mest á lifandi flutning.

Kennir þar margra grasa. Tveir gamlir slagarar prýða plötuna, You Really Got Me eftir Ray Davies og Ice Cream Man eftir John Brim, báðir í nýstárlegum útgáfum, en eigi að síður voru það smíðar sveitarinnar sjálfrar sem vöktu mesta athygli. Má þar nefna lögin Runnin' With the Devil , Ain't Talkin' 'Bout Love og Jamie's Crying sem öll komu út í smáskífuformi. Þá er ónefnt einleiksverk fyrir gítar, Eruption, sem hafði gríðarleg áhrif á rokkgítarleikara um allan heim, ekki síst kadensan undir lokin sem var nýjung í hálsslætti (e. fretboard tapping).

Platan hefur selst í meira en tíu milljón eintökum í Bandaríkjunum einum og sér og Van Halen er ein fimm rokksveita sem eiga tvær breiðskífur sem náð hafa platínusölu, Van Halen og 1984 . Hinar sveitirnar eru Bítlarnir, Led Zeppelin, Pink Floyd og Def Leppard.

Sigurganga Van Halen var sleitulaus í meira en áratug og kom ekki að sök þótt Roth gengi úr skaftinu 1985 og Sammy Hagar kæmi í staðinn. Síðan hefur gengið á ýmsu. Roth og Hagar hafa komið til skiptis inn um vængjahurðina og um tíma hélt Gary Cherone um hljóðnemann.

Þá hefur Eddie stigið æðisgenginn dans við Bakkus bróður og sigrast á tungukrabbameini, svo fátt eitt sé nefnt. Einn gjörningurinn var svo að víkja Michael Anthony bassaleikara úr sveitinni 2005. Ári síðar var fimmtán ára sonur Eddies, Wolfgang Van Halen, sem heitir í höfuðið á sjálfum Mozart, munstraður upp í áhöfnina enda þótt hann hefði aðeins leikið á bassa í þrjá mánuði. Hvað um það, hann er með músíkina í blóðinu.

Síðastliðið haust lagði Van Halen síðan upp í tónleikaferð um Bandaríkin sem standa mun fram á vor. Roth fer fyrir sínum mönnum og ekki verður betur séð en allt gangi að óskum. Nýrrar breiðskífu er meira að segja að vænta.