Landsbanki CS segir yfirtöku bankans á Close Brothers hættulitla.
Landsbanki CS segir yfirtöku bankans á Close Brothers hættulitla. — Árvakur/Brynjar Gauti
SKUDATRYGGINGARÁLAG íslensku bankanna er of hátt miðað við aðra evrópska banka. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningarfyrirtækisins Credit Sights.

SKUDATRYGGINGARÁLAG íslensku bankanna er of hátt miðað við aðra evrópska banka. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu greiningarfyrirtækisins Credit Sights. Þar segir að þrátt fyrir að álagið á bréf íslensku bankanna eigi að þeirra mati að vera hærra en evrópsku bankanna en álagið sé nú í röngu hlutfalli við það sem eðlilegt sé miðað við þá áhættu sem bréfunum fylgi.

Eins og fram hefur komið á undanförnum vikum hafa hremmingar fjárfestingarfélagsins Gnúps orðið til þess að hækka tryggingarálag bankanna en að sögn Credit Sights ætti fall Gnúps ekki að hafa „veigamikil fjárhagsleg áhrif á bankana.“ Það myndi hins vegar ekki koma á óvart þótt fleiri fjárfestingarfélög myndu lenda í vandræðum enda væri veðköllum frá bönkunum að fjölga. „Það væri barnalegt að halda að Gnúpur væri eina fjárfestingarfélagið sem lendir í vandræðum, sérstaklega í ljósi krosseignatengsla meðal íslenskra fjárfesta, en bankarnir segja okkur allir að þeir séu í þægilegri stöðu hvað lán til fjárfestingarfélaga og tryggingar varðar og að flest fjárfestingarfélög standi skil á frekari tryggingum,“ segir í skýrslunni.

Sókn bankanna í frekari ytri vöxt er áhyggjuefni að mati Credit Sights en í ljósi markaðsaðstæðna er lítil von um að innri vöxtur muni eiga sér stað á árinu 2008. Það sé rétt af fjárfestum að vera varkárir varðandi yfirtöku Kaupþings á NIBC en hugsanlegri yfirtöku Landsbankans á Close Brothers fylgi hins vegar lítil áhætta.

Í niðurlagi skýrslunnar segir að framtíðarhorfur íslenska hagkerfisins séu ekki bjartar. Spáð sé hægari hagvexti en áður en á næstu árum gætu umfangsmikil ál- og orkuverkefni örvað hagvöxt á ný. Stýrivextir séu einstaklega háir og verðbólga sömuleiðis þótt lækkandi fasteignaverð gæti dregið úr henni.