Yfirlega „Flest þessi verk hafa verið lengi á vinnustofunni og ég hef verið að taka þau fram og vinna í þau aftur og aftur,“ segir Daði Guðbjörnsson.
Yfirlega „Flest þessi verk hafa verið lengi á vinnustofunni og ég hef verið að taka þau fram og vinna í þau aftur og aftur,“ segir Daði Guðbjörnsson. — Árvakur/Ómar
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is „ÞETTA er eiginlega aldarspegill,“ segir Daði Guðbjörnsson listmálari, en í dag klukkan 15 opnar hann sýninguna Dans elementanna í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

„ÞETTA er eiginlega aldarspegill,“ segir Daði Guðbjörnsson listmálari, en í dag klukkan 15 opnar hann sýninguna Dans elementanna í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum.

„Ég segi aldarspegill, því þetta er í raun yfirlit yfir það sem ég hef verið að mála það sem af er öldinni,“ segir hann og brosir. Salur Listasafnins í Duushúsum er með stærstu sýningarsölum landsins og Daði segir hann henta sér vel, því hann sýni nú mest stór verk, fleka sem eru margir um eða yfir tveir metrar á kant, þeir taki sig vel út í salnum. Og hann er spenntur fyrir sýningunni, þótt hann hafi fyrir nokkrum árum íhugað að hætta að standa í svona sýningastússi, þar sem hann var orðinn þreyttur á því.

„Flest þessi verk hafa verið lengi á vinnustofunni og ég hef verið að taka þau fram og vinna í þau aftur og aftur. Myndirnar eru því talsvert massaðar, ég hef legið yfir þeim.

Fyrir tveimur og hálfu ári byrjaði ég að stunda sahaja-jóga, fór þá að taka til í sálarlífinu og hef verið að huga að andlegum hlutum. Hvernig lífið og sálarlífið virka. Þegar maður er leitandi þá koma ýmis tákn inn í verkin, eiginlega ósjálfrátt. Ætli það sé ekki áberandi á sýningunni. Ég hengi mig samt ekki í þá heimspeki heldur byggi á eigin reynslu. Nota til að mynda litla fugla sem táknmynd sakleysis. Það eru margar vísanir úr ólíkum áttum á sýningunni.“

Sem dæmi um verkin nefnir hann Ljóð á ís , mynd af gralinum helga, sem fyrirhugað er að leita að á Kili, en Daði færir upp í jökul. Segist hafa sína kenningu um hann þar. „Ég veit meira um þetta en þeir sem ætla að grafa eftir honum,“ segir Daði og skellir uppúr. „Í verkinu Vistaskipti er djöfullinn svo öðru megin og guðinn hinumegin. Og eldur á milli.“

Svarar ekki lífsgátunni

Daði segist alls ekki reyna að svara lífsgátunni í þessum verkum heldur beri þær frekar merki um leitina. „Aðalmálið er að mála myndir sem standa fyrir sínu. Þegar maður er kominn á þennan aldur er maður að vinna sömu hluti upp aftur, velta þeim betur fyrir sér, og taka svo eitthvað nýtt inn með.“