Á FUNDI Íbúasamtaka um lágreista byggð í Bygggörðum, austan Gróttu, fimmtudaginn 17.

Á FUNDI Íbúasamtaka um lágreista byggð í Bygggörðum, austan Gróttu, fimmtudaginn 17. janúar 2008 var eftirfarandi ályktun samþykkt:

„Íbúasamtökin telja að skipulagsmál Seltjarnarness hafi þróast í rétta átt með ákvörðun bæjarstjórnar í gær um að auglýsa ekki fram komna deiliskipulagstillögu Þyrpingar hf. fyrir Bygggarða og óbyggt landsvæði austan við Gróttu. Tillagan gerir ráð fyrir tíu þriggja til fjögurra hæða blokkum og einni tveggja hæða blokk, samtals yfir 180 íbúðum, sem myndi fjölga íbúum sveitarfélagsins um meira en 10% með tilheyrandi aukningu á umferð. Bygggarðasvæðið og það viðbótarlandsvæði sem fyrirhugað er að leggja undir byggð í tillögunni er mikilvægur hluti af vestursvæði Seltjarnarness sem er ómetanleg náttúru- og útivistaperla og því eru miklir framtíðarhagsmunir í húfi.

Íbúasamtökin telja mikilvægt að lagðar verði fram tvær eða fleiri tillögur um svæðið og þær kynntar fyrir íbúum. Skoðaður verði sá möguleiki að efna til íbúakosningar um tillögurnar á síðari stigum eins og áður hefur verið gert í bæjarfélaginu með góðum árangri. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í gær að samráð yrði haft við íbúa á mótunarstigi tillagna. Til þess að tryggja sem best að nýjar skipulagstillögur taki í hvívetna mið af aðalskipulagi Seltjarnarness og vilja íbúa þá óska Íbúasamtökin eftir því að fá virka aðild að þeirri skipulags- og þróunarvinnu sem framundan er um framangreint svæði og eru reiðubúin að tilnefna fulltrúa í þá vinnu nú þegar.“