„Hann var góður drengur hann Fischer, ég var einmitt að setja hérna til hliðar bók sem ég veit að hann hefði viljað fá,“ segir Bragi Kristjónsson fornbókasali en Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, lést á fimmtudag.

„Hann var góður drengur hann Fischer, ég var einmitt að setja hérna til hliðar bók sem ég veit að hann hefði viljað fá,“ segir Bragi Kristjónsson fornbókasali en Bobby Fischer, fyrrverandi heimsmeistari í skák, lést á fimmtudag. Fischer var fæddur í Bandaríkjunum þann 9. mars 1943 en hann vann heimsmeistaratitilinn í frægu einvígi við Boris Spasskí í Reykjavík árið 1972. Fischer fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2005 og flutti hingað til lands.

„Það er ekkert nema gott um þennan mann að segja og skrýtið sumt,“ segir Bragi en Fischer vandi komur sínar í bókabúðina hans við Hverfisgötu í Reykjavík. „Hann var að spá í alls konar útlagabókmenntir, hann taldi sig náttúrlega vera útlaga frá Bandaríkjunum og var það að sumu leyti,“ segir Bragi. „Hann var náttúrlega fórnarlamb mannvonsku heimsvaldastefnunnar,“ bætir hann við.

„Hann var að sumu leyti óþarflega tilfinningasamur gagnvart sjálfum sér, hann var með það á heilanum að hann væri ofsóttur,“ segir Bragi, og bætir við að Bobby hafi verið mjög einstrengingslegur í skoðunum að mörgu leyti, „en hann var líka alveg brilliant og flottur,“ segir hann. fifa@24stundir.is