Töfrandi „Myndin töfrar í senn fram heillandi sögu og magnaða stúdíu um samband skáldskapar og veruleika.“
Töfrandi „Myndin töfrar í senn fram heillandi sögu og magnaða stúdíu um samband skáldskapar og veruleika.“
Leikstjórn: Joe Wright. Aðalhlutverk: Keira Knightley, James McAvoy, Romola Garai, Saoirse Ronan, Vanessa Redgrave og Brenda Blethyn. Bretland / Frakkland, 2007. 130 mín.

AÐLÖGUN bókmenntaverks að kvikmyndaforminu er vandasamt verkefni sem glímt hefur verið við á mismunandi hátt frá upphafi kvikmyndagerðar. Best heppnuðu aðlaganirnar eru iðulega þær sem vinna með og nýta sér ólíka eiginleika miðlanna í stað þess að reyna að þröngva einu formi upp á annað. Kvikmyndin Friðþæging ( Atonement ) er dæmi um snjalla aðlögun á bókmenntaverki, þar sem þáttum á borð við tónlist og hljóðrás, sjónarhorni, klippingum og leikstíl er beitt á máta sem ekki aðeins fangar margbrotnar hliðar frásagnarinnar sem unnið er með, heldur skapar sjálfstæða og heillandi heild sem stendur á eigin forsendum.

Kvikmyndin sem um ræðir er byggð á skáldsögu breska rithöfundarins Ian McEwan en leikstjórinn Joe Wright heldur utan um aðlögunina í samvinnu við handritshöfundinn Christopher Hampton en báðir hafa þeir áður unnið að vel heppnuðum aðlögunum bókmenntaverka. Í Friðþægingu er sögð saga elskendanna Ceciliu Tallis (Keira Knightley) og Robbie Turner (James McAvoy). Robbie er sonur ráðskonunnar á ættaróðali auðugra foreldra Ceiliu og hafa börnin alist upp sem vinir og leikfélagar. Lykilpersóna í sögunni er jafnframt Briony (Saoirse Ronan), hin þrettán ára gamla systir Ceciliu sem hefur sterka skáldagáfu og ber í brjósti leynda ást til Robbie. Briony er sérstakt barn og hefur tilhneigingu til þess að reyna að beygja veruleikann að vilja sínum eða réttar sagt ímyndunarafli, líkt og leikpersónur í leikriti. En vald sögumannsins er hættulegt í höndum þrettán ára tilfinningaflæktrar stúlku sem er á mörkum bernsku og fullorðinsára. Hún missir sjónar á skilum veruleika og skáldaðs heims, og gerist sek um rangan vitnisburð í sakamáli sem veldur Robbie og Ceiliu óafturkræfum skaða. Þegar heimsstyrjöldin síðari brestur á að nokkrum árum liðnum reynir Briony að bæta fyrir brot sitt meðan persónurnar velkjast um í hildarleik stríðsins.

Kvikmyndin töfrar í senn fram heillandi ástarsögu og magnaða stúdíu um samband skáldskapar og veruleika, en Briony er þar í stöðu sögumanns skáldverks sem teygir anga sína utan um veruleika Robbie og Ceiliu. Þessum vangaveltum er miðlað á snjallan máta í kvikmyndafrásögninni, þar sem skrif Briony á ritvél verða að nokkurs konar upptakti sem síðan er sleginn áfram af agaðri hugvitssemi út í gegnum kvikmyndina. Aðrir þættir myndarinnar eru jafnframt óaðfinnanlegir, ekki síst túlkun leikara á tregafullum persónum sínum og kvikmyndataka sem nær stórbrotnum hæðum í atriðinu á ströndinni í Dunkirk þar sem bugaðir hermenn bíða björgunar í kjölfar skelfilegra stríðsátaka.

Heiða Jóhannsdóttir