Ástráður Eysteinsson
Ástráður Eysteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is Út er komið greinasafnið Modernism: A Comparative History of Literatures in European Languages hjá John Benjamins Publishing Company í Amsterdam og Philadelphiu.

Eftir Þröst Helgason

throstur@mbl.is

Út er komið greinasafnið Modernism: A Comparative History of Literatures in European Languages hjá John Benjamins Publishing Company í Amsterdam og Philadelphiu. Ritstjórar eru Ástráður Eysteinsson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Vivian Liska prófessor í þýskum bókmenntum við Háskólann í Antverpen.

Ritið kemur út í tveimur bindum og spannar meir en þúsund blaðsíður. Í það rita 65 fræðimenn víðsvegar úr heiminum um notagildi hugtaksins „módernisma“. Megináherslan er á bókmenntir en þær eru skoðaðar í víðu menningarlegu og samfélagslegu samhengi. Ritinu er skipt upp í ellefu hluta sem heita á ensku De-limiting Modernism, Reassessments, Tradition, Avant-Garde, Postmodernism, Time and Space, Mind and Body, Technology and Science, Literature and the Other Arts, Social and Political Parameters, Cultural Conjunctions, Routs and Encounters og Locations: Case Studies en í síðasta hlutanum er fjallað um módernisma í ýmsum löndum og á svæðum. Þar er meðal annars fjallað um módernisma á Norðurlöndunum hverju og einu. Ástráður ritar um íslenskan módernisma. Auk Ástráðs ritar Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur grein í ritið sem nefnist „Myths of Rupture: The Manifesto and the Concept og Avant-Garde.“ Þriðji Íslendingurinn sem kemur að bókinni er Björn Þór Vilhjálmsson en hann var í hópi aðstoðarmanna ritstjóranna.

Undir yfirborðinu heitir bók eftir Noru Roberts sem komin er út í íslenskri þýðingu Þórdísar Bachmann og Þórdísar Þorvaldsdóttur hjá Tara forlag (2007).

Barni er rænt úr barnavagni. Mörgum árum síðar finnast mannabein frá steinöld í smábænum Woodsboro. Fornleifafræðingurinn Callie Dunbrook er kölluð úr fríi til þess að stjórna uppgreftinum. Vissu fólki í bænum er í óhag að stöðva þurfi byggingaframkvæmdir á svæðinu þar sem beinin fundust og fljótlega hrannast óveðursský upp í kringum uppgröftinn. Þar að auki þarf Callie að takast á við návist fyrrverandi eiginmanns síns og þegar ókunnug kona kveðst vita sitthvað um barnæsku hennar neyðist Callie til þess að takast á við fortíð sína. Hugsanlega dúkkar týnda barnið síðan upp þar sem fornleifafræðingarnir grafa.

Nora Roberts er óvenjulega afkastamikill höfundur en hún hefur skrifað rúmlega 150 rómantískar spennusögur. Bækur hennar hafa verið þaulsætnar á metsölulistum enda selst í 300 milljónum eintaka.

Út er komin bókin The Book of Other People (2008, Bókin um hitt fólkið) en það er safn 22 smásagna í ritstjórn bresku skáldkonunnar Zadie Smith. Hún fór fram á það við höfundana, sem allir eru ungir og þekktari fyrir skáldsagnaskrif en smásögur, að þeir skrifuðu sögu um það hvernig skálduð persóna verður til. „Fyrirmælin voru einföld,“ segir hún í inngangi bókarinnar, „diktið einhvern upp.“