Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is KNATTSPYRNUKONAN Hólmfríður Magnúsdóttir hefur hafnað tilboðum frá sænska liðinu LdB Malmö og Hamburger SV í Þýskalandi og ætlar að halda kyrru fyrir hjá KR og leika með liðinu í sumar.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

KNATTSPYRNUKONAN Hólmfríður Magnúsdóttir hefur hafnað tilboðum frá sænska liðinu LdB Malmö og Hamburger SV í Þýskalandi og ætlar að halda kyrru fyrir hjá KR og leika með liðinu í sumar.

,,Heima er best,“ sagði Hólmfríður við Morgunblaðið í gær. ,,Ég tók mér góðan umhugsunarfrest en komst að þeirri niðurstöðu að ég vildi vera áfram í KR. Tilboðin voru spennandi og mér leist miklu betur á Malmö en það eru spennandi tímar framundan hjá KR og ég vil ekki fara frá liðinu á þessum tímapunkti. Við stefnum á að hirða alla bikara sem verða í boði í sumar. Ég á eftir að fá tækifæri síðar meir til að spila erlendis og þá er aldrei að vita nema ég slái til,“ sagði Hólmfríður.

Hólmfríður er 23 ára gömul og var kjörin knattspyrnukona ársins í lokahófi KSÍ síðastliðið haust. Hún var í lykilhlutverki hjá KR á síðustu leiktíð, skoraði 15 mörk í 13 leikjum í Landsbankadeildinni og þá hefur hún spilað stórt hlutverk með íslenska landsliðinu. Hún hefur skorað 83 mörk í 92 leikjum með KR í úrvalsdeildinni og 5 mörk í 28 landsleikjum.