Listasafn Reykjavíkur efnir til listasmiðju fyrir fjölskylduna í Hafnarhúsinu á morgun, sunnudaginn 20. janúar klukkan 14.
Listasafn Reykjavíkur efnir til listasmiðju fyrir fjölskylduna í Hafnarhúsinu á morgun, sunnudaginn 20. janúar klukkan 14. Gestir á öllum aldri fá þar tækifæri til þess að glíma við tilraunir, textasmíði, leik og leiðsögn, en hugmyndir og viðfangsefni í listasmiðjunni eru sótt í sýningu Hreins Friðfinnssonar sem nú stendur yfir í tveimur sölum Hafnarhússins. Klukkan 15 verður svo boðið upp á leiðsögn um sýningu Hreins með listamönnunum Ingólfi Arnarsyni og Birtu Guðjónsdóttur. Þau eru fulltrúar ólíkra kynslóða í myndlist og miðar leiðsögn þeirra að því að skoða verk Hreins út frá þeim áhrifum sem hann hefur haft á listsköpun þeirra sjálfra sem og annarra samstarfsmanna. Á sýningu Hreins í Hafnarhúsinu eru ljósmyndir, teikningar og þrívíð verk sem spanna feril listamannsins frá upphafi.