Mótmælasöngvar í tísku Í I'm Not There leikur Cate Blanchett Dylan meðal annarra og þar er gefið í skyn að hann hafi einungis samið mótmælasöngva vegna þess að það var í tísku þá.
Mótmælasöngvar í tísku Í I'm Not There leikur Cate Blanchett Dylan meðal annarra og þar er gefið í skyn að hann hafi einungis samið mótmælasöngva vegna þess að það var í tísku þá.
Hver var afstaða Dylans í Víetnamstríðinu? Hver er afstaða hans til hins svokallaða stríðs gegn hryðjuverkum og Íraksstríðsins? Hér er leitast við að svara þessum spurningum og skyggnst eftir nýjum Dylan.

Eftir Val Gunnarsson

valurgunnars@gmail.com

Kvikmyndin I'm Not There hefst á því að svertingjastrákur að nafni Woody Guthrie stelst um borð í lestir við Mississippifljót einhvern tímann á 4. áratugnum. Á hann að tákna Bob Dylan, sem var einmitt mikill aðdáandi þjóðlagasöngvarans Guthrie. Á upphafsárum tónlistarferils síns laug Dylan því gjarnan að hann hefði átt svipaða æsku og þjóðlagasöngvarinn, og myndin fylgir hér þeirri góðu reglu að birta frekar goðsögnina en sannleikann þegar þetta tvennt fer ekki saman. Myndin virðist um tíma alveg við það að tína sér í útlagarómantík kreppuáranna þegar kona ein hrifsar okkur út úr þeim, skammar Guthrie/Dylan fyrir að týna sér í fortíðinni og segir að hann eigi frekar að semja lög um eigin samtíma.

Byltingarblús

Í upphafi 7. áratugarins birtist hver þjóðlagasöngvarinn á fætur öðrum úr Greenwich Village í New York-borg. Þó að vísnasöngvararnir krefðust þjóðfélagsbreytinga, jafnréttis svartra og hvítra og að bundinn yrði endi á afskipti Bandaríkjamanna af Víetnamstríðinu, var tónlist þeirra að forminu til afturhaldssöm. Þeir sóttu fyrirmyndir sínar og stundum umfjöllunarefni til 4. áratugarins og jafnvel enn aftar í sögunni. Á fyrstu plötu sinni, sem hét einfaldlega Bob Dylan og kom út árið 1962, söng Dylan misgömul þjóðlög eftir aðra. En ári síðar gaf hann út plötuna Freewheelin , með lögum eins og Blowin in the Wind, Masters of War og A Hard Rain's a-Gonna Fall. Dylan var nú ekki aðeins orðinn kirfilega staðsettur í sínum samtíma heldur var hann einnig farinn að hafa áhrif á hann.

Dylan gefst upp á pólitík

Næsta plata, The Times They Are a-Changing , hélt áfram á sömu nótum. En það er undarlegt að einmitt þegar Dylan var orðinn leiðandi afl í tónlistarheimum og var jafnvel farinn að geta haft áhrif á stjórnmálaþróun, var eins og hann gæfist upp á boðskapnum. Eins og kemur fram í myndinni trúði hann því ekki lengur að tónlist gæti breytt heiminum, svo hann réð sér rokkhljómsveit og fer að yrkja súrrealísk ljóð um tötraklæddan Napóleon og Shakespeare í húsasundi. Hann var enn um sinn gríðarlega áhrifamikill tónlistarmaður, en pólitíkin hvarf úr textum hans og átti ekki afturkvæmt þangað, að minnsta kosti ekki með jafnbeinum hætti. Eftir mótorhjólaslysið 1966 hætti hann að vera í fararbroddi rokktónlistarinnar. Og undir lok áratugarins, þegar andúð á stríðinu var orðið að fjöldahreyfingu, lokaði Dylan sig af á setri sínu í Woodstock og samdi sveitatónlist sem lítið hafði að segja við samtímann.

Engin stefna, markmið eða heimspeki

Í I'm Not There er Víetnamstríðið látið ramma inn líf Dylans og meðal annars bent á að hjónaband hans tekur enda árið 1975, sama ár og stríðinu lauk. En ekki er reynt að svara því hvað gerði það að verkum að þessi straumhvörf urðu í lífi hans og list, í gegnum Cate Blanchett er það jafnvel gefið í skyn að hann hafi einungis samið mótmælasöngva vegna þess að það var í tísku þá. Ljóst er þó að enginn getur samið lag eins og „The Lonesome Death of Hattie Carroll“ án þess að meina eitthvað með því. En líklega samsamaði Dylan sig frekar við hinar gömlu vinstrihreyfingar 4. áratugarins heldur þær nýju á 7. áratugnum og hippana. Í viðtali við Robert Shelton árið 1971 segir hann: „Hin nýja vinstrihreyfing hefur enga stefnu, engin markmið, enga heimspeki. Gamla vinstrihreyfingin hafði markmið og stefnu og stað, og einhverja ástæðu fyrir að vera til. Í raun er engin ungmennamenning til og engin ný vinstri hreyfing.“

Byltingin hjaðnar út

Eftir að einn helsti spámaðurinn hafði snúið baki við ungmennahreyfingunum urðu þær að meira eða minna leyti höfuðlaus her, ekki varð af byltingu árið 1968 meðan Dylan samdi sveitasöngva í Woodstock. Ekki bætti það ástandið að Bítlarnir lögðu upp laupana árið 1970, og margir litu á það sem svik þegar Mick Jagger gifti sig með miklu húllumhæi á St. Tropez árið 1971. Að minnsta kosti hættu Rolling Stones að vera sama tónlistaraflið eftir að hafa náð hápunkti með Exile On Main St. ári síðar. Rokkið var ekki lengur byltingarafl. Pönkbylgjan 1976-77 var tímabundinn vítamínsprauta, en eftir að hún hjaðnaði hefur formið ekki gert neinar álíka tilraunir til að endurnýja sig. Nostalgían ræður nú ríkjum, sem dæmi má nefna að á forsíðu tónlistartímaritsins Uncut þennan mánuðinn má sjá mynd af John Lennon, á forsíðu Q er Led Zeppelin. Fátt nýtt hefur komið frá þessum aðilum síðan 1980, ef einhver skyldi þurfa áminningu um að rokkið sé dautt.

Hið nýja Víetnamstríð

Í síðasta hluta I'm Not There er Dylan, nú leikinn af Richard Gere, aftur kominn á „æskuslóðirnar“. Hann ferðast á hestbaki í gegnum landslag sem er að hálfu leyti úr villta vestrinu og að hálfu leyti byggt á lögum hans. Fjörutíu árum eftir fyrstu plötuna og árið sem hann varð sextugur gaf hann út plötuna Love and Theft sem sótti mjög í tónlist 4. áratugarins. Kom platan út hinn 11. september 2001. Dagsetningin er þó flestum minnisstæð vegna annars viðburðar, og þegar næsta plata, Modern Times , kom út árið 2006 bjuggust margir við pólitísku verki þar sem fjallað yrði um hið „nýja“ Víetnamstríð. Þeir hinir sömu urðu fyrir vonbrigðum. Mögulega er hugarfari hans best lýst í laginu Things Have Changed, frá árinu 2000: „I used to care, but things have changed.“ Svo virtist sem stríðið gegn hryðjuverkum myndi ekki setja mark sitt á tónlist Dylans. Aðrir yrðu að taka upp kyndilinn.

Neil Young snýst hugur

Þeir fyrstu til að bregðast við atburðunum 11. september voru af gamla skólanum. Neil Young (fæddur 1945) studdi í fyrstu Patriot Act-lögin, sem voru til þess gerð að afnema ýmis grundvallarmannréttindi í Bandaríkjunum. Hann samdi einnig hið þjóðernissinnaða lag Let's Roll, til heiðurs farþegunum sem réðust gegn hryðjuverkamönnum í fluginu United 93. Nokkrum árum síðar var komið annað hljóð í strokkinn hjá gamla manninum, og Young gaf út plötuna Living With War þar sem var að finna lög eins og Let's Impeach the President.

Leonard Cohen (fæddur 1934) gaf 2004 út lagið „On That Day“, þar sem svo virðist sem hann mæli með því að menn gangi í herinn til að hefna fyrir árásirnar, en hann hafði áður stutt stríðsrekstur Ísraela. Annað hljóð var í laginu „Road to Peace“ með Tom Waits (fæddur 1949), sem kom út árið 2006 og er eins og blaðapistill í lagaformi. Fjallar það um ofbeldishringrásina fyrir botni Miðjarðarhafs og hvað Bandaríkin hafa þar fremur verið að gæta eigin hagsmuna heldur en vera boðberi friðar.

Hinn nýi Dylan lætur heyra í sér

Bruce Springsteen (fæddur 1949) gaf árið 2002 út plötuna The Rising , þar sem öll lögin fjalla á einn eða annan hátt um hryðjuverkin 11. september. Það fer þó lítið fyrir hefnigirni hér, á laginu „Paradise“ er jafnvel fjallað á samúðarfullan hátt um konu sem fremur sjálfsmorðsárás. Árið 2005 kom platan Devils and Dust , þar sem titillagið fjallar um hvernig óttinn verður hugsjónunum yfirsterkari, 2006 kom platan Seeger Sessions , þar sem hann flytur meðal annars Víetnamlag Seegers, „Bring ‘em Home“, og í fyrra kom út platan Magic . Er titillinn vísun í utanríkisstefnu Bush sem galdrar fram sýn sem hefur lítið með raunveruleikann að gera. Á tónleikaferðinni spilar Springsteen lagið „The Rising“, sem fjallar um slökkviliðsmann sem lætur lífið í tvíburaturnunum, beint á undan „Last to Die“, sem er beitt ádeila á stríðsreksturinn í Írak, og segir hann útkomu tónleikanna velta á þeim 30 sekúndum sem tengja þau saman.

Stríðið gegn hryðjuverkum hefur því vissulega sett mark sitt á feril Springsteen, sem framan af hafði lítið um stjórnmál að segja, þrátt fyrir að vera af sumum kallaður

„hinn nýi Dylan“ þegar hann gaf út sína fyrstu plötu árið 1973. En hvar eru hinir nýju Dylanar dagsins í dag?

Lítið ris á heimsins stærstu hljómsveit

U2 (fæddir 1960-61) ber enn titilinn stærsta hljómsveit í heimi, og á tónleikaferð sinni haustið 2001 sýndu þeir nöfn þeirra sem létu lífið í árásunum 11. september á skjá. Ekki er þó að sjá að hryðjuverkin hafi haft bein áhrif á tónlist þeirra.

Radiohead virtist um tíma ætla að skáka U2 hvað vinsældir og áhrif varðar. Árið 2004 gaf sveitin út plötuna Hail to the Thief , sem var þó ekki jafnbeitt og nafnið gaf til kynna, textahöfundurinn Thom Yorke (fæddur 1968) sagðist ekki vera að reyna að koma með neinar yfirlýsingar, en gæti ekki komist hjá því að láta málefni líðandi stundar hafa áhrif á sig.

Hljómsveitin Green Day (fæddir 1972) sem var áður helst þekkt fyrir plötuna Dookie og ku titillinn vera heimasmíðað orð um ræpu, gaf árið 2004 út American Idiot . Var hún svar við ellefta september og trúarofstæki, þemaplata sem fjallar um úthverfa-Jesú og söfnuð hans.

Arftaki Dylans?

Líklega er það þó Conor Oberst (fæddur 1980) í hljómsveitinni Bright Eyes sem kemst næst því að vera verðugur arftaki Dylans. Árið 2004 gaf hljómsveitin út plötuna I'm Wide Awake It's Morning og fóru lögin „Lua“ og „Take It Easy (Love Nothing)“ samtímis í fyrsta og annað sæti Billboard-listans. Það er þó ekki það sem gerir hana áhugaverða heldur það að Oberst semur lög sem eru kirfilega staðsett í samtímanum. Í „Old Soul Song (For the New World Order)“ er fjallað um götuóeirðir eins og þær sem áttu sér stað í Seattle, en þau átök hafa einnig verið ýmsum pönkhljómsveitum efniviður, svo sem Anti-Flag og Pennywise. En þar sem pönkararnir reiða sig nær eingöngu á reiði tekst Oberst á stundum að kreista fram myndlíkingar og lýrík.

Hápunktur plötunnar er Landlocked Blues, eitt besta lag sem hefur verið samið síðan á 7. áratugnum. „Greed is a bottomless pit. /And our freedom's a joke we're just taking the piss/ And the whole world must watch the sad comic display, if you're still free start running away/ Because we're coming for you.“

Þetta er næstum eins og að hlusta á ungan Dylan, nema hér er verið að syngja um heiminn í dag. Og eins og hlýtur að vera hjá manni sem ólst upp á 10. áratugnum er kaldhæðnin allsráðandi, jafnvel þegar mönnum liggur mikið á hjarta: „So when you're asked to fight a war that's over nothing/ It's best to join the side that's going to win/ And no one knows how all of this got started./ But we're going to make goddamn certain how it's going to end.“

Hin langa ganga heim

Springsteen, Bright Eyes og REM tóku höndum saman haustið 2004 og fóru í tónleikaferð til stuðnings Kerry, en ekki tókst að bjarga heiminum með rokktónlist í það skiptið. Nýjasta plata Bright Eyes, Cassadaga , kom út vorið 2007, og var útnefnd 12. besta plata ársins af Rolling Stone . Í áramótablaði sínu valdi tímaritið bestu lögin 2007, og þó að í efstu sætunum væru meinlaus danslög með tónlistarmönnum eins og Jay-Z, Rihanna og Justice er þó eitthvað um pólitík inni á milli. Randy Newman (fæddur 1943) er í öðru sæti með lagið „A Few Words in Defense of Our Country“, þar sem hann segir að þó að núverandi leiðtogar Bandaríkjanna sé þeir verstu í sögu landsins séu þeir varla þeir verstu í sögu heimsins. Bright Eyes er í fjórða sæti með Four Winds , þar sem hann leggur til að Biblían, Kóraninn og Toran verði brenndar saman. Og í áttunda sæti er Springsteen með Long Walk Home , sem fjallar um þá löngu göngu sem Bandaríkin eiga fyrir höndum ef þau ætla aftur að verða það sem þau eitt sinn ætluðu sér að vera. Ef til vill hefst sú ganga með forsetakosningunum í haust. Ef ekki, þá er vonandi að fleiri stríð geti að minnsta kost af sér betri tónlist en þau örfáu góðu lög sem komu út úr Íraksstríðinu.

Höfundur er rithöfundur.