ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sendi í gær frá sér rökstuðning vegna skipunar Ólafar Ýrar Atladóttur í embætti ferðamálastjóra en síðustu daga hefur skipunin verið gagnrýnd af ýmsum.

ÖSSUR Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sendi í gær frá sér rökstuðning vegna skipunar Ólafar Ýrar Atladóttur í embætti ferðamálastjóra en síðustu daga hefur skipunin verið gagnrýnd af ýmsum.

Er í rökstuðningnum lögð áhersla á að breytt staða ferðamála í stjórnkerfinu og endurskipulagning kalli á nýja hugsun og mikinn samstarfsvilja. Af því tilefni hafi sérstaklega verið tekið fram í auglýsingu að umsækjendur þyrftu að vera tilbúnir að vera leiðandi í breytingaferli. „Ég tel að miðað við reynslu og þekkingaröflun Ólafar Ýrar sé hún vel til þess fallin að takast á við framangreint. Hún lýsti í viðtölum skýrri framtíðarsýn fyrir Ferðamálastofu og íslenska ferðaþjónustu og tel ég hana líklegri en aðra umsækjendur til að hleypa nýju blóði í starfsemi stofnunarinnar þannig að Ferðamálastofa geti verið burðarás í því breytingaferli sem framundan er, m.a. við flutning á málaflokknum til iðnaðarráðuneytis,“ segir meðal annars í rökstuðningi iðnaðarráðherra.

Varðandi þær almennu kröfur sem gerðar verði til ferðmálastjóra bendir ráðherra á að í lögunum séu ekki gerðar neinar menntunar- eða hæfniskröfur til þeirra sem gegna stöðu ferðamálastjóra og gilda því almenn hæfisskilyrði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í auglýsingu hafi aftur á móti verið gerðar ákveðnar menntunar- og hæfniskröfur. Eru síðan færð fyrir því rök að Ólöf Ýrr hafi bakgrunn sem falli vel að þeim kröfum. Tekið hafi verið mið af lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Fjölbreytt menntun Ólafar

Síðan segir í rökstuðningnum:

„Ólöf Ýrr hefur að baki mikinn og fjölbreyttan menntunarferil sem nýtast mun vel í yfirgripsmiklu starfi ferðamálastjóra. Hún er íslenskufræðingur BA og líffræðingur BSc frá Háskóla Íslands. Hún er með meistarapróf, MSc í líffræði frá University of East Anglia. Þá hefur Ólöf lokið MPA-námi í opinberri stjórnsýslu og diplómaprófi í þróunarfræðum frá HÍ. Ólöf hefur ennfremur birt vísindagreinar á sviði líffræði. Ekki leikur nokkur vafi á því að hún hefur skarpan og greinandi hug sem er agaður af vísindalegum vinnubrögðum og nákvæmni.

Ólöf hefur fimm ára reynslu af stjórnun í opinberum rekstri þar sem hún bar ábyrgð á starfsmannahaldi, hafði fjármálalega ábyrgð og annaðist skjalastjórn. Fékk hún bestu meðmæli fyrir frammistöðu í því starfi. Í sínu fyrra starfi stóð hún m.a. fyrir breytingum á verkferlum sem mæltust vel fyrir.

Auk menntunar á sviði bókmennta- og náttúrufræði hefur Ólöf reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, hún var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn sem m.a. stóð fyrir nýjungum á sviði þekkingartengdrar ferðaþjónustu. Ólöf hefur einnig kennt við ferðamáladeild Hólaskóla og verið fengin til að kynna náttúrufar og ferðamennsku á Íslandi hér heima og erlendis.

Ólöf er með háskólapróf í íslensku en auk þess talar hún ensku, sænsku og þýsku og hefur flutt erindi á öllum þessum tungumálum á málþingum og ráðstefnum víða um lönd.

Ólöf hefur tekið þátt í erlendu samstarfi með margvíslegum hætti. Hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á fundum sérfræðinefndar Evrópuráðsins um lífsiðfræði, flutt fyrirlestra á ráðstefnum og tekið þátt í rannsóknarverkefnum.

Í námi jafnt sem störfum hefur Ólöf Ýrr vakið athygli fyrir frumkvæði og ákveðni og sýnt að hún er óhrædd við að fara ótroðnar slóðir og standa að nýjungum,“ segir í rökstuðningi iðnaðarráðherra.