VINNUEFTIRLITIÐ hefur upplýsingar um að persónuhlífar sem ekki eru CE-merktar séu á markaðnum og í notkun á vinnustöðum. Með orðinu persónuhlíf er átt við hverskonar búnað eða tæki sem einstaklingar klæðast eða halda á, sér til verndar við vinnu, t.d.

VINNUEFTIRLITIÐ hefur upplýsingar um að persónuhlífar sem ekki eru CE-merktar séu á markaðnum og í notkun á vinnustöðum. Með orðinu persónuhlíf er átt við hverskonar búnað eða tæki sem einstaklingar klæðast eða halda á, sér til verndar við vinnu, t.d. endurskins- og hlífðarfatnað öryggishjálma, heyrnarhlífar, öryggisskó, hlífðarhanska, fallvarnarbúnað og öndunarfærahlífar.

„Óheimilt er að setja á markað persónuhlífar og taka í notkun sem ekki eru CE-merktar, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga. nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 4. tölulið 4. gr. reglna nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa.

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er hægt að treysta því að persónuhlíf sem ekki er CE-merkt uppfylli þær lágmarkskröfur um gæði og öryggi sem til hennar eru gerðar í reglum um gerð persónuhlífa.

Atvinnurekendur og starfsmenn eru hvattir til að gæta að því að þær persónuhlífar sem eru í notkun á vinnustað séu CE-merktar. Þeim persónuhlífum sem eru ekki CE-merktar skal skila til þess fyrirtækis sem varan var keypt frá. Jafnframt skal hafa samband við Vinnueftirlitið og upplýsa málið,“ segir í frétt frá Vinnueftirlitinu.

Á heimasíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, er upplýsingasíða um persónuhlífar. Markmiðið með síðunni er að framleiðendur, seljendur og kaupendur geti greiðlega fengið upplýsingar um þær kröfur sem gilda um framleiðslu, merkingar og markaðssetningu persónuhlífa.