Brunarústir Húsið Aðalgata 16 er stórskemmt af eldi. Svona leit húsið út í gærmorgun. Ekki liggur fyrir hvort hægt er að endurbyggja húsið.
Brunarústir Húsið Aðalgata 16 er stórskemmt af eldi. Svona leit húsið út í gærmorgun. Ekki liggur fyrir hvort hægt er að endurbyggja húsið. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Björn Björnsson Sauðárkrókur | Ekki liggur fyrir hvort hægt verður að endurbyggja húsið við Aðalgötu 16 á Sauðárkróki en það stórskemmdist í eldi í fyrrinótt. Húsið er tæplega 120 ára gamalt og eitt af merkustu húsum Sauðárkróks.

Eftir Björn Björnsson

Sauðárkrókur | Ekki liggur fyrir hvort hægt verður að endurbyggja húsið við Aðalgötu 16 á Sauðárkróki en það stórskemmdist í eldi í fyrrinótt. Húsið er tæplega 120 ára gamalt og eitt af merkustu húsum Sauðárkróks. Þar var lengi rekin verslun en veitingastaðurinn Kaffi Krókur síðustu árin.

Rétt eftir klukkan hálf eitt aðfaranótt föstudags barst til Neyðarlínunnar tilkynning frá vegfaranda um að reyk legði frá suðurgafli hússins á Aðalgötu 16 á Sauðárkróki. Þegar var kallað út allt lið Brunavarna Skagafjarðar á Sauðárkróki, og síðar var kallað út viðbótarlið frá Hofsósi og Varmahlíð. Að sögn Vernharðs Guðnasonar slökkviliðsstjóra reyndist erfitt að komast að eldinum, en eftir að það tókst, náðist fljótlega að slökkva eldinn og var lögreglu afhentur vettvangur á fimmta tímanum.

Vernharð sagði að ljóst hefði verið að eldur var laus á efri hæð hússins en illa hefði gengið að komast að honum með þeim tækjum sem liðið hafði yfir að ráða. Þá var brugðið á það ráð að fá kranabíl með krabba og með honum tókst að rjúfa þekjuna og eftir það var eftirleikurinn auðveldari, og var slökkvistarfi að mestu lokið rétt um klukkan þrjú. Vernharð sagðist mjög ánægður með störf sinna manna, allt hefði gengið eins vel og mögulegt hafi verið, utan það að einn liðsmaður á vettvangi varð fyrir því óhappi að járnstoð féll á öxl hans og bak og var sá fluttur á Heilbrigðisstofnunina, en meiðsl hans voru óveruleg og var hann útskrifaður að morgni.

Sögufrægt hús

Húsið Aðalgata 16 er talið eitt af merkari húsum á Sauðárkróki, en það var byggt af Vigfúsi Guðmundssyni á árunum 1887 til 1890 og þjónaði á byggingartíma sínum ýmsum hlutverkum, meðal annars sem geymsluhús, en auk þess voru í því hálfbyggðu haldnar ýmsar samkomur og settir upp sjónleikir.

Fullbyggt var húsið selt Jóhannesi Ólafssyni sýslumanni, föður dr. Alexanders Jóhannessonar síðar háskólarektors, sem fluttist til Sauðárkróks frá Gili í Borgarsveit. Um alllangt skeið varð húsið aðsetur sýslumanna Skagafjarðar, skrifstofa embættisins og fangelsi. Auk Jóhannesar bjuggu á Aðalgötu 16 sýslumennirnir Eggert Ólafur Briem, þá Páll Vídalín Bjarnason og loks Guðmundur Björnsson.

Síðla árs 1912 var húsið selt fyrir átta þúsund krónur, og var kaupandinn Jörgen Frank Michelsen úrsmiður og bjó hann í því ásamt fjölskyldu sinni en rak auk þess úrsmíðaverkstæði og verslun.

Þá voru ýmsar verslanir auk úrsmíðaverslunarinnar reknar í húsinu um lengri eða skemmri tíma og má þar nefna Sápuhúsið og verslun Jóhönnu Blöndal.

Þegar fjölskylda Franks Michelsen flutti frá Sauðárkróki 1945 keypti húsið Gunnþórunn Sveinsdóttir frá Mælifellsá og stundaði þar verslunarstörf. Gunnþórunn réðst í að byggja við húsið til norðurs og jók þar með verslunarrýmið.

Síðar komst Aðalgata 16 í eigu Kaupfélags Skagfirðinga sem enn byggði við húsið til austurs og rak þar byggingavöru- og raftækjaverslun.

Á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar flutti Kaupfélag Skagfirðinga alla starfsemi úr húsinu og í um áratug var húsið ónotað og lenti í nokkurri niðurníðslu en þá keyptu hjónin María Björk Ingvadóttir og Ómar Bragi Stefánsson það, endurgerðu verulega og opnuðu veitingastaðinn Kaffi Krók hinn 24. maí 1994.

Núverandi eigendur eru Alda Kristinsdóttir og Jón Daníel Jónsson veitingamaður og eignuðust þau húsið í nóvember 2001.

Hvatt til uppbyggingar

Ljóst er að tjón eigenda Aðalgötu 16 er mjög mikið og tilfinnanlegt, en auk þess að hafa skapað veitingahúsinu enn betra orðspor, hafði Jón Daníel nýverið gert samning við sveitarfélagið Skagafjörð um framleiðslu á skólamáltíðum fyrir Árskóla á Sauðárkróki, sem átti að hefjast nú fyrsta febrúar. Gert var ráð fyrir að hefja uppsetningu á nýjum tækjum í eldhúsi veitingastaðarins í byrjun næstu viku svo unnt yrði að uppfylla samninginn, en nú eru öll áform þar um í verulegu uppnámi.

Jón Daníel sagði í samtali við fréttavefinn mbl.is í gær að hann ætti eftir að átta sig á framhaldinu. Hann sagðist hafa skyldum að gegna við viðskiptavini og þyrfti að keyra reksturinn áfram.

Enginn sem haft var samband við taldi unnt að segja fyrir um hvort unnt væri að endurbyggja þetta hús, enda unnu lögreglumenn enn að rannsókn á upptökum eldsins síðdegis í gær og þá hafði tryggingafélag eigenda ekki átt þess kost að vinna tjónamat.

Unnar Ingvarsson skjalavörður segir á heimasíðu sinni: „Aðalgata 16 er með sögufrægustu húsum Sauðárkróks. Það er von þess er þetta skrifar að húsið verði endurbyggt á upprunalegum stað. Væri vel við hæfi að Blöndalshús sem stóð við hlið Aðalgötu 16 fengi aftur þegnrétt sinn á lóðinni norðan við. Þau hús endurbyggð yrðu sannkölluð staðarprýði.“