Hjaltalín Sveitin fer til Belgíu, Hollands og Danmerkur í næsta mánuði.
Hjaltalín Sveitin fer til Belgíu, Hollands og Danmerkur í næsta mánuði. — Árvakur/Eggert
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is FYRSTA plata hljómsveitarinnar Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons , var áberandi í ársuppgjörum fjölmiðlanna og var hún plata vikunnar á Rás 2 í þessari viku.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

FYRSTA plata hljómsveitarinnar Hjaltalín, Sleepdrunk Seasons , var áberandi í ársuppgjörum fjölmiðlanna og var hún plata vikunnar á Rás 2 í þessari viku. Sveitin hyggst nú fagna útgáfunni með opinberum útgáfutónleikum og verða þeir fyrstu á Græna hattinum á Akureyri, í höfuðstöðvum útgáfufyrirtækis sveitarinnar, Kimi Records eða Afkimi. Fara þeir fram föstudaginn 26. janúar. Útgáfutónleikar fyrir höfuðborgarbúa verða síðan haldnir 14. febrúar. Öllu verður til tjaldað á tónleikunum, blásarasveit, gestasöngvarar og þvíumlíkt kallað til.

Syngja ljóð eftir Nýhilskáld

Þann 21. febrúar verður svo haldið í víking til Evrópu. Sveitin mun sjá um einslags tónlistargjörning við opnun sýningarinnar Iceland on the Edge, sem haldin verður í Belgíu. Að sögn Högna Egilssonar, söngvara, lagasmiðs og gítarleikara, verður um ansi skrautlega efnisskrá að ræða.

„Við byrjum á að spila lög af plötunni en svo skiptum við sveitinni niður. Klarínettin og slagverkið fara á kreik um sýningarrýmið og flytja íslensk samtímaverk á meðan einn hópurinn syngur nýja íslenska ljóðlist eftir Nýhilhópinn. Aftur munum við svo skipta hópnum upp, annar anginn flytur þá rímur og þjóðlög en hinn ýmis sönglög. Sveitin sameinast svo í lokin og þá rennum við í gegnum nokkur gömul og hressileg íslensk dægurlög.“

Eftir þetta Belgíuævintýri fer sveitin til Árósa til að leika með múm og Borko. Eftir það verður farið til Kaupmannahafnar og spilað á Nordatlantens Brygge ásamt Sprengjuhöllinni. Þá verða fleiri en minni tónleikar í Amsterdam og Brussel. Sleepdrunk Seasons er þá væntanleg á vínylformi.