[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þröst Helgason vitinn.blog.is Það leikur enginn vafi á því að íslensk kvikmyndagerð er í mikilli sókn. Fagmennska hefur orðið meiri við vinnslu myndanna og íslenskir handritshöfundar og leikstjórar hafa fundið leið til þess að vekja áhuga...

Eftir Þröst Helgason

vitinn.blog.is

Það leikur enginn vafi á því að íslensk kvikmyndagerð er í mikilli sókn. Fagmennska hefur orðið meiri við vinnslu myndanna og íslenskir handritshöfundar og leikstjórar hafa fundið leið til þess að vekja áhuga bíógesta. Segja má að þeir hafi farið að fordæmi krimmans. Lykillinn að vinsældum hans er sá að umfjöllunarefnin eru samfélagsleg og sprottin úr samtímanum. Hið sama á við um vinsælustu íslensku kvikmyndirnar á síðustu árum. Mýrin eftir Baltasar Kormák sló auðvitað í gegn en hún byggist reyndar á samnefndri glæpasögu Arnaldar Indriðasonar. Blóðbönd eftir Árna Ólaf Ásgeirsson gerist í reykvískum samtíma og fjallar um upplausn fjölskyldu. Kvikmyndin Börn eftir Ragnar Bragason gerir slíkt hið sama og systurmynd hennar, Foreldrar , eftir sama höfund. Þetta á einnig við um Astrópíu þó að þar sé nálgunin ekki jafn raunsæisleg og fleiri mætti telja. Allt eru þetta frábærar bíómyndir sem vakið hafa mikla athygli.

Nýjasta kvikmynd Baltasars Kormáks, Brúðguminn , sprettur úr íslenskum samtíma þótt handritið sé byggt á leikritinu Ívanov eftir Tsjekov. Hið sama á reyndar við um uppfærslu Baltasars á Ívanov í Þjóðleikhúsinu en verkin vann leikstjórinn samhliða með sama hópi leikara. Þó er ekki sama sagan sögð. Brúðguminn bregður á leik með frumtextann, snýr upp á hann þannig að hinn vonlausi, týndi, óþarfi maður Tsjekovs fær jafnvel uppreisn æru. Hér hefur í raun tekist að breyta þunglamalegu rússnesku drama í ljúfsára gamanmynd sem sækir kraft í skopstælingu á mörgum þeim hugmyndum sem frumverkið varpar fram og á íslenskum samtíma.

Myndin er frábær skemmtun sem er ekki síst þéttum leikhópi að þakka. Lengi háði allt of stílfærður og stór leikur íslenskum kvikmyndum. Þetta er í raun og veru enn þá einn af helstu göllum íslensks leikhúss en kvikmyndaleikur hefur snarbatnað á undanförnum árum einhverra hluta vegna. Leikstjórar og leikarar virðast hafa betri tilfinningu fyrir þessum grimmilega raunsæja miðli.

Í hausthefti kvikmyndatímaritsins Filmmaker fjallar Howard Feinstein gagnrýnandi um Mýrina og segir að Baltasar Kormákur hafi ein „bestu augun“ í kvikmyndagerð nú um stundir. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það þýðir en af Brúðgumanum að dæma er Baltasar alveg örugglega ekki að missa sjón.