Sveifla Kammerkór Langholtskirkju og nokkrir af helstu djasstónlistarmönnum landsins leika létta tónlist með djassívafi á sunnudagskvöld.
Sveifla Kammerkór Langholtskirkju og nokkrir af helstu djasstónlistarmönnum landsins leika létta tónlist með djassívafi á sunnudagskvöld. — Árvakur/Brynjar Gauti
KAMMERKÓR Langholtskirkju fær til liðs við sig suma af þekktustu djasstónlistarmönnum landsins á tónleikum annað kvöld.

KAMMERKÓR Langholtskirkju fær til liðs við sig suma af þekktustu djasstónlistarmönnum landsins á tónleikum annað kvöld. Þekkt sönglög eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni, vinsælir erlendir djassslagarar á borð við „Route 66“ og Bítlalög eru meðal þess sem kórinn hefur verið að æfa að undarförnu. Píanóleikarinn Davíð Þór Jónsson, trommuleikarinn Einar Valur Jónsson, saxófónleikarinn Sigurður Flosason og kontrabassaleikarinn Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson spila bæði undir hjá kórnum og leika tónlist án söngs.

Jón Stefánsson stjórnandi kórsins segir tónleikana verða þrískipta, fyrsti hluti þeirra verði helgaður íslensku efni en síðan taka við verk eftir sænska tónskáldið Nils Lindberg. „Í síðasta hlutanum syngur kórinn svo flóknar útsendingar á vinsælum lögum sem voru gerðar fyrir sænsku hljómsveitina Real Group. Það sem er mest spennandi er verk sem heitir Chili Con Carne sem er algjör sprengja. Við höfum verið að berjast við þetta, þetta er mjög krefjandi og spennandi,“ segir Jón.

Listafélag Langholtskirkju stendur fyrir tónleikunum, en það var stofnað í haust til þess að halda utan um menningarstarfið í kirkjunni. Björn Jónsson, talsmaður félagsins, segir starfið hafa farið vel af stað og að um tvö hundruð manns séu skráð í félagið. „Við erum með fimmtán tónleika á starfsárinu og þeir sem hafa verið haldnir hingað til hafa heppnast mjög vel. Það hefur verið bryddað upp á nýjungum í hvert sinn og nú er komið að Kammerkórnum og kirkjudjassinum.“

Tónleikarnir hefjast klukkan átta í Langholtskirkju. Almennt miðaverð er 2.500 krónur, en kórfélagar og félagar í Listafélagi Langholtskirkju njóta afsláttarkjara.