<strong>Hef gaman af snjónum </strong>Hjörtur Guðmundsson að störfum.
Hef gaman af snjónum Hjörtur Guðmundsson að störfum. — Árvakur/Golli
Snjóþungt hefur verið víða undanfarna daga og því mæðir mikið á ökumönnum snjómokstursbíla. Hjörtur Traustason er einn þeirra sem ryðja snjó af götum Grafarvogs þessa dagana.

Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur

hilduredda@24stundir.is

„Við erum stanslaust að ryðja enda eru göturnar mjög fljótar að fyllast af snjó í svona veðri. En ég hef gaman af snjónum á meðan hann er til staðar þótt ég viðurkenni að ég verð alltaf jafnfeginn að losna við hann,“ segir Hjörtur Traustason, starfsmaður Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

12.30 Vaktin hófst uppi í malbikunarstöð, en ég er á kvöldvöktum þessa vikuna. Það fyrsta sem ég gerði var að yfirfara bílinn og laga snjótönnina sem er framan á honum, enda á hún til að bila þegar svona mikið er af snjó. Ég gerði bílinn kláran fyrir moksturinn.14.30 Bíllinn var klár og ég skutlaðist af stað. Ég vinn í Grafarvoginum og er með kort í bílnum þar sem svokallaðar stofnbrautir eru litaðar rauðar og við setjum þær í forgang. Aðrar götur koma svo í restina um leið og tími gefst til.

17.00 Fór aftur á malbikunarstöðina og sótti meira salt á bílinn. Notaði tækifærið og fékk mér tíu dropa í leiðinni og teygði aðeins úr mér áður en ég fór aftur út að ryðja.

19.00 Aftur þurfti ég að sækja meira salt og að þessu sinni var kominn tími á kvöldmat líka sem ég skellti í mig í fljótheitum. Maður freistast ekki til þess að taka sér langar pásur á meðan samviskan segir manni að halda öllum götum opnum, enda getur maður annars setið uppi með tómt vesen. Þegar mikil snjóþyngsli eru upplifir fólk stundum að við séum fyrir því í umferðinni á meðan við erum að ryðja göturnar. Ég tek þó fram að mér finnst Grafarvogsbúar almennt vera mjög kurteisir og skilningsríkir í okkar garð.

21.45 Var búinn að ryðja og keyrði aftur upp á malbikunarstöð þar sem ég gekk frá bílnum, skolaði hann, setti olíu og pækil á hann og fleira slíkt.

23.00 Vaktinni var lokið og ég hélt aftur heim á leið.

Í hnotskurn
Malbikunarstöðin Höfði hf. er í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og Aflvaka hf. Á veturna þegar snjóar hefur eftirlitsmaður á vegum borgarinnar samband við vaktformann sem skipuleggur starf vaktmannanna á snjómokstursbílunum. Vaktformaðurinn heitir Pétur Guðmundsson og er kallaður Pétur mikli.