[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töfrar og fantasíuheimar gegna ennþá sérstaklega mikilvægu hlutverki í útgáfum unglinga- og barnabókmennta á Íslandi. Fyrir jólin mætti galdradrengurinn hennar J.K.

Töfrar og fantasíuheimar gegna ennþá sérstaklega mikilvægu hlutverki í útgáfum unglinga- og barnabókmennta á Íslandi. Fyrir jólin mætti galdradrengurinn hennar J.K. Rowlings til leiks í sjöunda og síðasta sinn í bókinni Harry Potter og dauðadjásnin og svo varð galdrastelpan að seiðkonu í framhaldsbókinni Seiðkonan eftir Celiu Rees. Sú fyrrnefnda er útgefin af Bjarti í þýðingu Helgu Haraldsdóttur og sú síðarnefnda kemur út hjá Uppheimum í þýðingu Kristínar R. Thorlacius.

Eftir Þormóð Dagsson

thorri@mbl.is

Örlög Harry Potters og félaga urðu endanlega ljós hinn tuttugasta og fyrsta júlí á síðasta ári þegar sjöunda og síðasta bókin í einni vinsælustu bókaseríu allra tíma kom út samtímis í níutíu og þremur löndum. Sú dagsetning markar vafalaust tímamót hjá ófáum sem hafa lesið sig inn í heim Rowlings en þá höfðu jafnframt liðið rúm tíu ár frá því að fyrsta bókin í umræddri seríu leit dagsins ljós, Harry Potter og viskusteinninn . Síðan þá höfðu aðdáendur galdradrengsins beðið með stöðugt vaxandi eftirvæntingu eftir lokaátökunum á milli Harry Potters og erkióvinarins Voldemorts. Það kom því fáum á óvart að sjöunda bókin í seríunni og sú síðasta, Harry Potter og dauðadjásnin , skyldi brjóta alls konar sölumet þegar hún loksins kom út. Hún varð t.d. sú bók sem selst hefur í flestum eintökum á skemmstum tíma en hún seldist í yfir ellefu milljónum eintaka rétt þegar sólarhringur hafði liðið frá útgáfu hennar. Fyrra metið átti einmitt næstsíðasta bókin í seríunni, Harry Potter og blendingsprinsinn , en hún seldist í rúmum níu milljónum eintaka fyrsta sólarhringinn. Það er því óhætt að segja að bækur Rowlings hafa skilið eftir sig djúp og varanleg spor í heimi bókmenntanna.

Dauðans alvara

Það voru heldur ekki ófáir Íslendingar sem biðu í eftirvæntingu og í svefnpokum fyrir utan bókabúðir Eymundsson og Máls og menningar skömmu eftir að Helga Haraldsdóttir hafði lokið við þýðinguna á síðustu metsölubók Rowlings. Helgu hlotnuðust vel að merkja verðlaun fyrir þýðingu sína. Niðurlagið nefnist sem fyrr segir Harry Potter og dauðadjásnin og geymir bókin allan sannleikann um endalok sögunnar um hinn göldrótta Harry Potter og ekki síst, um örlög vina hans og óvina. Og hvernig endaði þetta allt saman? Það er engan veginn ætlunin með þessum pistli að skemma fyrir þeim sem enn eiga bókina eftir með of miklum afhjúpunum og því verður farið sérstaklega varlega með eftirfarandi útdrátt: Harry Potter og vinir glíma við heljarinnar verkefni sem felur í sér að finna og eyða helkrossum hins alræmda Voldemorts. Sagan gerist að mestu leyti utan Hogwartskóla en galdrasamfélagið er nú undir stjórn drápara og Fönixreglan gerir sitt besta til að veita þeim andspyrnu. Harry og félagar heyja bardaga upp á líf og dauða. Og eins og mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum og spjallsíðum víða um heim þá týna nokkrar af ástsælu persónum Rowlings lífi en einhverjir af allra dyggustu aðdáendum bókanna eru ábyggilega ennþá í sorgarfötunum vegna dauðsfallanna.

Galdrastelpur

Af einhverjum ástæðum vekja sögur um göldrótta krakka sérlega mikla lukku hjá yngri lesendum (og eldri) og þetta vita bókaútgefendur manna best. Rithöfundurinn Celia Rees hefur hlotið miklar vinsældir fyrir bókina Galdrastelpan sem kom út í íslenskri þýðingu Kristínar R. Thorlacius í fyrra. Þó svo hún muni líklega aldrei ná sömu hæðum í vinsældum og bækurnar um Harry Potter þá fjölgar aðdáendum hennar jafnt og þétt og fyrir síðustu jól kom út hjá Uppheimum sjálfstætt framhald bókarinnar og nefnist hún Seiðkonan . Í þessum bókum eru aðalhetjurnar kvenkyns og notast höfundur talsvert við sagnfræðilegar heimildir frá fyrstu kynslóðum evrópskra landnema í Norður-Ameríku á seinni hluta átjándu aldar. Celia Rees nam sagnfræði í háskóla ásamt stjórnmálafræði en hún fékk snemma sérlegan áhuga á umræddu sögutímabil og einkum þeim þætti sem sneri að hinum alræmdu nornaveiðum.

Í fyrri bókinni, Galdrastelpan , er sagt frá stúlkunni Mary, en amma hennar hafði var ásökuð um villitrú og fjölkynngi og því tekin af lífi. Frásögninni er miðlað í gegnum dagbók Mary og lýsir hún sinni óttablöndnu tilveru þar sem yfirvöld sjá djöfulinn í hverju horni og er einkum sótt að heiðingjum eins og henni. Seiðkonan er sem fyrr segir sjálfstætt framhald Galdrastelpunnar en þar nær Mary sambandi við stúlku úr nútímanum. Og stúlkan er gædd yfirnáttúrulegum hæfileikum eins og Mary.