Hafnarstemmning Frá Þórshöfn í Færeyjum. Efnahagurinn stendur nú með blóma og atvinnuleysi mælist aðeins liðlega einn af hundraði.
Hafnarstemmning Frá Þórshöfn í Færeyjum. Efnahagurinn stendur nú með blóma og atvinnuleysi mælist aðeins liðlega einn af hundraði. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Randi Mohr í Þórshöfn FÁDÆMA lágt hlutfall kvenna í færeyskum stjórnmálum og svonefnd „mjúk“ gildi – lífeyrismál, fjölskyldumál og þess háttar – eru helstu málin sem deilt hefur verið um fyrir lögþingskosningarnar í dag.

Eftir Randi Mohr í Þórshöfn

FÁDÆMA lágt hlutfall kvenna í færeyskum stjórnmálum og svonefnd „mjúk“ gildi – lífeyrismál, fjölskyldumál og þess háttar – eru helstu málin sem deilt hefur verið um fyrir lögþingskosningarnar í dag. En jafnframt gerist það í fyrsta sinn um langa hríð að Færeyingar kjósa án þess að spurningin um það hvort Færeyjar eigi að vera fullvalda ríki eða í nánu sambandi við Danmörku er ekki ofarlega á baugi.

„Umræðurnar um aukna sjálfsstjórn hafa ekki verið miklar að þessu sinni gagnstætt því sem var við síðustu kosningar. Þeim stjórnmálamönnum sem leggja mesta áherslu á fullveldið hefur ekki tekist að fá sjálfsstjórn setta á dagskrá og þar að auki hafa sjónarmið flestra flokka nálgast í þessu máli,“ segir Jógvan Mørkøre félagsfræðingur.

Allir vilja efnahagslegt sjálfstæði

Allir flokkarnir, þ. á m. Sambandsflokkurinn, sem vill halda í sambandið við Danmörku og Grænland, segja að Færeyingar eigi að stefna að því að efnahagurinn verði sjálfbær. Til langs tíma litið geta því allir flokkarnir verið sammála um að Færeyingar eigi ekki að reiða sig á stuðninginn frá Dönum sem nemur nú rösklega 600 milljónum danskra króna, um 7,7 þúsund milljón ísl. kr., á ári.

En lágt hlutfall kvenna í stjórnmálum landsins er efni sem hefur mjög verið rætt í aðdraganda kosninganna. Lögþingið er nú skipað 29 körlum en aðeins þrem konum. Í öðrum norrænum löndum, sem Færeyingar bera sig helst saman við, er hlutfall kvenna á þingi um 41%.

„Þetta er alvarleg ógn við lýðræðið,“ segir Eyðgunn Samulsen, formaður samtakanna Demokratia sem berjast fyrir jafnrétti á vettvangi stjórnmálanna. „Og þetta er ein af ástæðum þess að færeyskar konur sem sækja sér menntun til útlanda flytja ekki aftur heim. Samfélag okkar er ekki aðlaðandi fyrir velmenntaðar konur. Það er ekki nóg með að það hafi áhrif á fjölgun þjóðarinnar að konur á barneignaraldri fari. Það mun einnig hafa áhrif á þróun samfélagsins, öflun þekkingar og efnahaginn. Við horfumst í augu við mikið lýðræðislegt vandamál.“

Demokratia hefur sent fjölda áskorana til kjósenda um að sjá til þess að fleiri konur fari á þing. En þótt flokkarnir hafi jafnframt sýnt vilja til að stilla upp konum á listunum hafa flokksfélögin stundum átt erfitt með að fá konur til að bjóða sig fram. Eyðgunn Samulsen segir að skýringa sé að leita í hugarfari almennings í landinu og þess sem skapi það – þ. á m. trúnni – og kosningakerfinu. Hún segir einnig að í Færeyjum sé skortur á kvenfyrirmyndum í atvinnulífinu og annars staðar í opinberu lífi. Auk þess sé erfitt fyrir konur að laga þátttöku í stjórnmálum að skyldum við fjölskylduna.

„Við viljum þess vegna stefnu sem er fjölskylduvænni,“ segir Eyðgunn. „Ég tel að við í Demokratiu höfum verið ákaflega athafnasöm í kosningabaráttunni og ég verð vonsvikin ef okkur tekst ekki að fá 6-7 konur kjörnar á þing í þetta sinn.“

Mjúku málin, aðbúnaður þeirra sem standa höllum fæti, heilbrigðisþjónustan, lífeyrismál og þess háttar, hafa verið mikið rædd fyrir kosningarnar. Jógvan Mørkøre segir að það geri erfitt fyrir færeyska kjósendur að gera upp á milli flokkanna sex sem nú eiga fulltrúa á Lögþinginu að allir flokkar segist ætla að taka á umræddum málaflokkum.

Færeyjar nú eitt kjördæmi

Færeyjar voru fyrir nokkrum mánuðum gerðar að einu kjördæmi en þau voru áður sjö. Afleiðingin er að við þessar kosningar beinist athyglin mun meira en áður að einstaklingum af því að kjósendur geta nú valið á milli allra frambjóðendanna. En síðustu skoðanakannanir benda til þess að litlar breytingar verði á þingmannatölu flokkanna.

Undanfarin fjögur ár hefur verið við völd samsteypustjórn Jafnaðarmanna og tveggja borgaralegra flokka, Sambandsflokksins og Þjóðarflokksins, jafnaðarmaðurinn Joannes Eidesgaard er lögmaður, þ. e. forsætisráðherra. Gallup spáir jafnaðarmönnum sjö þingsætum og hinum flokkunum tveim átta og sex. Gangi þetta eftir verða þeir því samanlagt með jafnmörg sæti og núna.

Í stjórnarandstöðu er stærsti flokkurinn Þjóðveldisflokkurinn, sem spáð er átta sætum og hinum tveim, Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum, er báðum spáð tveim sætum. Sætum á þingi verður fjölgað um eitt í 33 og talið að Sjálfstæðisflokkurinn hreppi það.

Venjulega tekur langan tíma að koma saman nýrri ríkisstjórn eftir kosningar í Færeyjum. Mørkøre álítur þó að það muni ekki gerast í þetta sinn. Og einnig getur það gerst að breiða samsteypan, sem verið hefur við völd, haldi áfram eftir kosningar.