— Árvakur/RAX
Söngvarinn ástsæli Einar Ágúst Víðisson hefur nú hafið leik með nýrri hljómsveit sem heitir Taktík.

Söngvarinn ástsæli Einar Ágúst Víðisson hefur nú hafið leik með nýrri hljómsveit sem heitir Taktík. Meðlimir eru reynsluboltar úr öllum áttum, en auk Einars Ágústs eru í bandinu Eysteinn Eysteinsson trommari úr Pöpunum, Ingi Valur sem hefur verið í Sixties undanfarin misseri og Ingimundur Óskarsson sem bæði hefur spilað með Sixties og súpergrúppunni Dúndurfréttum.

„Bandið á hvorki að kljúfa atóm né finna upp hjólið. Þetta er árshátíðarband, og stofnað til að anna eftirspurn hjá Prime-umboðsskrifstofunni. Við höfum allir spilað allan andskotann, og það er það góða við Ísland: Maður getur unnið við svo margt í músíkinni“ sagði Einar Ágúst; um það bil að stíga upp í vél á leið til Akureyrar.

Einar Ágúst þvertók fyrir að bandið stefndi á landvinninga næsta sumar og ekki er heldur breiðskífa á leiðinni. „Ég er bara á fullu að kynna mína plötu og svo að trúbadorast, þannig að þetta band er bara ætlað á árshátíðarnar. Þetta er svona dægrastytting hjá okkur gömlu mönnunum.“ En hvar er hægt að sjá Taktík spila? „Jaaa, London er bókuð og einhver fyrirtæki. Ég veit nú minnst um þetta, það er Palli hjá Prime sem heldur utan um þetta. Hljómsveitin var stofnuð að hans undirlagi og því látum við hann bara segja okkur hvar við eigum að mæta næst.“

heida@24stundir.is