— Árvakur/ÞÖK
Eftir Ægi Þór Eysteinsson aegir@24stundir.is „Það er ákveðin reglugerð í gildi um hvernig verktakar mega haga sér við sprengingar og á meðan verktakinn gætir þess að halda sprengingum innan ákveðinna marka ber hann enga sök ef tjón verður.

Eftir Ægi Þór Eysteinsson

aegir@24stundir.is

„Það er ákveðin reglugerð í gildi um hvernig verktakar mega haga sér við sprengingar og á meðan verktakinn gætir þess að halda sprengingum innan ákveðinna marka ber hann enga sök ef tjón verður.“ Þetta segir Ólafur Haukur Ólafsson, deildarstjóri eignatjóna hjá Tryggingamiðstöðinni.

Verktakafyrirtækið Þórtak boðaði íbúa við Þverholt á kynningarfund á dögunum vegna sprengivinnu á svæðinu, en fyrirtækið byggir 319 íbúðir á lóð á milli Einholts og Þverholts. Íbúar hafa gagnrýnt að sprengivinnan hafi verið illa kynnt fyrir íbúum og að hús þeirra hafi ekki verið ástandsskoðuð áður en sprengivinnan hófst eins og verktakinn hafi boðað. Sprengingarnar hófust 3. janúar.

„Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að þessi svokallaða ástandsskoðun var svona flaustursleg, því tryggingafélagið veit að það kemur aldrei til með að þurfa að borga neitt,“ segir Anna B. Saari, íbúi við Þverholt.

Íbúum brugðið

Eftirlit með sprengivinnu er í höndum eftirlitsaðila verkkaupa. Gæti verktaki þess að sprengingar fari ekki yfir áttatíu mý, sem er mælieining á bylgjuhraða sprenginga, er hann ekki skaðabótaskyldur vegna skemmda sem hugsanlega tengjast sprengivinnunni.

„Það var mikill hiti í íbúum á fundinum en það sem var mest sjokkerandi var þegar okkur var sagt að við værum ótryggð. Fulltrúi frá Tryggingamiðstöðinni sagði að þó að það kæmi glufa í húsið hjá mér eftir sprengingu, þannig að ég gæti séð út, beri verktakinn ekki ábyrgð reynist sprengingin innan marka,“ segir Anna.

„Mörkin eru höfð það há að það er ekki séns að þeir fari upp fyrir þau. Samkvæmt mælingum hafa sprengingarnar hérna verið á bilinu tuttugu til þrjátíu mý fram að þessu og við höfum fundið heilmikið fyrir þeim.“

Hverfandi líkur á tjóni

„Það eru hverfandi líkur á að sprenging geti orsakað skemmdir í húsum í nágrenninu,“ segir Ólafur Haukur Ólafsson hjá Tryggingamiðstöðinni.

Ólafur Haukur segir íbúa koma til með að sitja uppi með skemmdir sem kunna að hafa hlotist vegna sprenginganna gæti verktakinn þess að halda sig innan marka. „Orsökin fyrir tjóninu er ekkert frekar sprengingin en lélegur byggingarmáti.

Í hnotskurn
Sprengivinna í Þverholti hófst 3. janúar, sama dag og íbúar voru boðaðir á fund þar sem kynna átti þeim vinnuna. Til þessa hefur verið sprengt þrisvar til fimm sinnum á dag. Stærð sprenginganna til þessa hefur verið á bilinu tuttugu til þrjátíu mý. Reiknað er með að sprengivinnan standi í hálft ár.