[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Sveinsson hætti að leika handbolta 2002, 43 ára gamall, og starfar nú hjá Tryggingamiðstöðinni. Hann var í langan tíma stórstjarna í íslenskum handknattleik og atvinnumaður í Þýskalandi og Spáni í tíu ár við góðan orðstír.

Sigurður Sveinsson hætti að leika handbolta 2002, 43 ára gamall, og starfar nú hjá Tryggingamiðstöðinni. Hann var í langan tíma stórstjarna í íslenskum handknattleik og atvinnumaður í Þýskalandi og Spáni í tíu ár við góðan orðstír. Hann fylgist af miklum áhuga með Evrópumótinu í handknattleik sem nú stendur yfir í Noregi en Íslendingar töpuðu sínum fyrsta leik með fimm marka mun.

„Leikurinn við Svía einkenndist af taugaspennu. Úrslitin eru mikil vonbrigði bæði fyrir aðdáendur liðsins og strákana. Þeir náðu sóknarleiknum ekki í gang og voru ráðlausir. En það verður að horfa fram á veginn. Það þýðir ekkert að væla. Staðan er langt frá því að vera vonlaus. Við erum þekktir fyrir að fara erfiðu leiðina fremur en þá auðveldu. Þannig hefur þetta verið í gegnum árin og ætlar ekkert að breytast,“ segir Sigurður. „Það að Ólafur Stefánsson er meiddur og verður ekki með í næstu leikjum þýðir að nú er komið að skuldadögum hjá drengjunum sem hann hefur leitt í gegnum árin. Þeir verða að sýna og sanna að þeir geti þetta án hans og þeir verða bara að gera það og ég held að þeir geri það. Ég held að það þjappi hópnum meira saman að kapteinninn verður ekki með í þeim tveimur leikjum sem eftir eru í riðlinum og strákarnir vita að þeir verða helst að vinna báða leikina til að eiga möguleika. Nú verða þeir að sýna hvort þeir eru menn eða mýs.“

En er þetta nokkuð skemmtileg keppni lengur ef við töpum okkar leikjum?

„Það skiptir eiginlega ekki máli hvort við stöndum okkur mjög vel, vel eða bara þokkalega, handboltinn sameinar þjóðina og það er gríðarlega gaman þessa tíu daga sem keppnin stendur. Þá tæmast göturnar. Því miður fyrir hinar íþróttagreinarnar þá er handboltinn okkar íþrótt og hefur verið gegnum árin og þar höfum við náð árangri alveg frá 1964. Þeir Íslendingar sem aðhyllast aðrar íþróttagreinar en handbolta verða bara að bíta í það súra epli að við erum góðir í þessari íþrótt og það liggur í harðfisksgeninu. Það er alltaf verið að tala um að handbolti sé ekki nógu vinsæl íþrótt í heiminum, komi á eftir rottuhlaupinu í vinsældum í Kína, en það er ekki málið. Við erum fámenn þjóð sem hefur náð langt í handbolta og sú þjóð sem á flesta atvinnumenn í þýska boltanum, fyrir utan Þjóðverjana sjálfa.“

Var keyrður um á kassabíl

Þú ert ein þekktasta handboltahetja sem þjóðin hefur átt en mér er sagt að þú hafir barist við veikindi sem barn og varla getað gengið.

„Ég fékk pertes tveggja eða þriggja ára gamall. Þetta er þekktur barnasjúkdómur þar sem mjaðma-kúlan harðnar ekki. Afleiðingarnar eru mismunandi. Sumir þurfa að fara beint í mjaðmaskiptingu, hjá öðrum styttist löppin og sumir eru á hækjum, þetta er allavega. Sem krakki var ég keyrður mikið um á kassabíl sem systkini og hinir og þessir drógu. Þetta þjakaði mig ekkert í æsku, alls ekki. Mér leið ekkert illa út af sjúkdómnum og það hvarflaði ekki að mér að hann yrði varanlegur. Ég mátti lítið ganga en stalst mikið til þess og þegar ég kom í skóla hafði þetta lagast nokkuð en ég haltraði og haltra enn í dag og hef sérkennilegan hlaupstíl. Ég fór um tíma á Reykjalund og synti þar eins og skepna þótt ég mætti ekki stíga of mikið í fæturna. Það hjálpaði mér mikið. Ég var það heppinn að mjaðmakúlan harðnaði þegar ég var tólf ára. Ég er með hana nokkuð skemmda en hún hefur staðið sig með prýði hingað til. Rúmlega tólf ára fór ég að leggja stund á allar íþróttir sem hugsast gat, handbolta, fótbolta, körfubolta. Handboltinn komst svo í forgang þegar uppgötvaðist að ég gat hent bolta nokkuð fast“.

Mér er sagt að þú hafir ekki getað spilað vörn. Er það rétt?

„Ég var misskilinn varnarmaður! Ég taldi mig alltaf góðan varnarmann en öðrum þótti ég ekki sérlega öflugur í vörn. Svo er auðvitað miklu skemmtilegra að skora mörkin en að berja á mönnum.

Ég var mjög tapsár leikmaður. Í mínum huga var númer eitt, tvö og þrjú að vinna. Það viðhorf á ekki bara við um landsliðið heldur alla þjóðina. Ef landsliðið tapar leik þá eru leikmennirnir skúrkar en þegar landsliðið vinnur þá eru leikmennirnir „strákarnir okkar“. Þetta hefur verið svona í gegnum árin og verður alltaf. Það er ekkert við því að segja. Sú gagnrýni sem íslenskir leikmenn fá í fjölmiðlum er ljúf miðað við það hvernig útreið leikmenn fá erlendis þegar illa gengur.“

Harðstjórinn Bogdan

Er það rétt að þú hafi reykt á þeim árum sem þú lékst með íslenska landsliðinu?

„Á sínum tíma vorum við nokkuð margir sem reyktum í landsliðinu. Það er til mynd af okkur þar sem við auglýsum slagorðið Reyklaust Ísland árið 2000. Við erum sextán á myndinni og þar af voru átta reykingamenn. Háskóli Íslands tók okkur einstaka sinnum í úthaldspróf og það virtist engu skipta fyrir niðurstöðuna hverjir reyktu og hverjir ekki. Ég reyki ennþá og skammast mín fyrir það. Ég hef hætt að reykja hundrað tuttugu og einu sinni.

Eftir hvert mót höfðum við landsliðsmennirnir gaman af að fagna góðum sigrum og komum líka saman eftir tap. Svo mætti vinur okkar Bogdan Kowalcyk, eða Bóbó Konráðs, á svæðið og tók við þjálfun landsliðsins. Við vorum villtir áður en hann mætti á sviðið, sem betur fer, því það er ekkert gaman að vera alltaf prúður og stilltur. Bogdan var mjög góður þjálfari og breytti miklu fyrir íslenskan handknattleik. Hann lét okkur æfa stíft og það var meiri agi í kringum okkur en áður og við áttum honum mikið að þakka. Inn á milli var hann alveg hundleiðinlegur en við bárum alltaf virðingu fyrir karlinum, hann var það fær þjálfari. Hann var harðstjóri, lét okkur sjaldan æfa of lítið, yfirleitt alltaf of mikið og hafði strangan aga. Þegar við kepptum erlendis þurftum við alltaf að fara að sofa klukkan ellefu. Þetta var ekkert sældarlíf, get ég sagt þér. Samt held ég að þetta hafi hjálpað mörgum okkar þegar fram liðu stundir.“

Er það ekki rétt að samskipti þín og Bodgan hafi verið stormasöm?

„Honum fannst ég ekki spila góða vörn og það er auðveldara að vera með leikmann sem er bæði frábær varnarmaður og sóknarmaður, eins og Kristján Arason var. Hann notaði Kristján meira en mig. Ég var stundum hundsvekktur að fá ekki að spila meira. Það kom fyrir að okkur Bogdan lenti saman en það var alltaf stutt í sættir. En við urðum aldrei perluvinir.“

Fannst þér þú standa í skugga Kristjáns Arasonar í landsliðinu?

„Nei, það fannst mér aldrei. Stundum hugsaði ég með mér þar sem ég sat á bekknum og horfði á Kristján spila með landsliðinu: Vonandi klikkar hann núna svo ég fái tækifæri. Ég vildi fá að spila og þegar ég var kominn inn á völlinn hugsaði ég ekki um annað en að þruma á markið.“

Var enginn rígur milli ykkar Kristjáns eins og er oft á milli tveggja stjarna?

„Jú, það var rígur á milli okkar og við vorum alltaf í samkeppni en það var alltaf í góðu. Við lærðum mikið hvor af öðrum, nema hann gleymdi að kenna mér varnarleikinn.“

Stemning og svekkelsi

Geturðu sagt hver er eftirminnilegasti leikur sem þú hefur leikið?

„Þegar kemur að stemningu er það örugglega úrslitaleikurinn í Frakklandi 1989 þegar við unnum B-mót heimsmeistarakeppninnar. Þar small allt saman og um leið og fór að ganga vel kom hver vélin af annarri frá Íslandi full af stuðningsmönnum. Það var gríðarleg stemning. Þetta var með skemmtilegri mótum sem ég hef tekið þátt í. Sigurgleðin var yfirþyrmandi enda var þetta í fyrsta skipti sem íslenska handknattleiksliðið vann stórmót og tími til kominn. Við höfum verið nálægt því að endurtaka þetta á undanförnum árum og bíðum bara eftir því að það takist einn daginn. Og þá verður allt vitlaust!“

Hver var erfiðasti leikurinn?

„Það erfiðasta sem við strákarnir gengum í gegnum var heimsmeistaramótið 1995. Það var haldið hér á landi sem lýsti mikilli bjartsýni, og reyndar er ótrúlegt að við skyldum fá að halda það. Væntingarnar voru miklar, það var mikið æft og svo gátum við ekkert. Það var sorglegt hvað við vorum lélegir, svekkjandi fyrir þjóðina og okkur sjálfa. Eftir mótið fór maður bara upp í bústað og var þar í viku. Ég veit ekki af hverju við vorum svona lélegir, kannski þoldum við ekki pressuna eða héldum kannski að árangurinn kæmi af sjálfu sér.“

Þú varst atvinnumaður erlendis í tíu ár. Hvernig var sá tími?

„Ég fór árið 1982 til Þýskalands og spilaði þar í átta ár. Þjóðverjum líkar mjög vel við Íslendinga og líta upp til þeirra. Það tekur tíma að ná til Þjóðverja en um leið og maður fer að þekkja þá eru þeir mikið ágætisfólk þótt margir haldi því fram að þeir séu stífir og leiðinlegir. Ég bjó í Madrid frá 1990-1991 og hún er ein skemmtilegasta borg Evrópu. Það var frábært að vera þar og ég hefði viljað vera þar lengur. Í dag eru atvinnumenn erlendis með topplaun en í gamla daga fékk maður einhverjar krónur fyrir þetta, þúsundkalla yfir borðið og þúsundkalla undir borðið. Ég hefði ekkert á móti því að vera að byrja handboltaferil í dag, þegar tekið er mið af launum.“

Handboltinn tók mikinn tíma í þínu lífi. Var hann alltaf leikur?

„Handboltinn er alltaf leikur. Aðalatriðið er að hafa gaman af því að taka þátt í leiknum. Svo er hitt hvort hann fer á þann veg sem maður vill og það er alltaf skemmtilegra þegar allt gengur upp. Að spila handbolta er það skemmtilegasta sem ég hef gert um ævina. Ég hef verið mjög heppinn, gat spilað mjög lengi, lék í mörgum liðum og kynntist alls kyns fólki og ólíkri menningu. Ég er fullkomlega sáttur við ferilinn. Í dag tengist ég handboltanum á annan hátt, sem eldheitur stuðningsmaður íslenska landsliðsins og verð það örugglega um aldur og ævi.“