Hannes Segir búddisma eiga brýnt erindi við nútímann og ekki síst á Íslandi þar sem margir séu leitandi en komi að tómum kofanum hjá kirkjunni, finni ekki þá tilvistarlegu fótfestu sem þeir sækist eftir þar.
Hannes Segir búddisma eiga brýnt erindi við nútímann og ekki síst á Íslandi þar sem margir séu leitandi en komi að tómum kofanum hjá kirkjunni, finni ekki þá tilvistarlegu fótfestu sem þeir sækist eftir þar. — Árvakur/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Búdda er í Listasafninu á Akureyri. Hann kemur einnig við sögu á hverjum degi í vestrænu samfélagi, þó svo við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því. Blaðamaður ræddi við safn- og sýningarstjórann Hannes Sigurðsson, um sýninguna Búdda er á Akureyri .

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hannes er þekktur fyrir allt annað en að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur í sýningarhaldi og sýningin Búdda er á Akureyri, sem verður opnuð í dag, er þar engin undantekning. Hvernig býr maður til sýningu um jafnstórt fyrirbæri eða hugmyndakerfi og búddisma? Hannes fann svarið við því, púslaði saman þremur íslenskum myndlistarmönnum og leikara; þeim Halldóri Ásgeirssyni, Erlu Þórarinsdóttur, Finnboga Péturssyni og Sigurði Skúlasyni, og heimsfrægum, bandarískum vídeólistamanni, Bill Viola. Það ku vera afrek út af fyrir sig að fá verk eftir Viola til sýningar á Íslandi en það ætti ekki að koma mörgum á óvart að Hannesi hafi tekist það. Íslenski vídeólistamaðurinn Steina Vasulka kom honum í samband við eiginkonu Viola og þannig fékk hann verkið til Akureyrar.

Á sýningunni er lífsspeki búddismans höfð að leiðarljósi og í tilefni af henni kemur út 40 blaðsíðna blað um búddisma sem Hannes ritstýrði. Í því er að finna úttekt Sigurðar Skúlasonar á búddisma og grein eftir Hannes, þar sem hann fer um víðan völl og kemur sérstaklega inn á tantrískan búddisma. Þá er einnig að finna endursögn Hannesar á tveimur bókum „andlega töffarans“ og kennimeistarans Osho (umdeildur, indverskur lærimeistari sem var gerður brottrækur frá Bandaríkjunum á 9. áratug seinustu aldar) auk upplýsinga um myndlistarmennina.

Hannes vonast til þess að sýningin skapi umræðu um búddisma, henni er ætlað að vera fræðandi og þætti honum ekki verra ef safngestir hefðu sterkar skoðanir á því sem fyrir augu ber og fram kemur í blaðinu. Jafnvel munu augu einhverra ljúkast upp og þeir snúast til búddisma, hver veit? Á sýningunni geta gestir upplifað búddisma á eigin skinni því boðið verður upp á ókeypis Body-Balance-æfingar í safninu og í sérstöku hugleiðsluhorni verður hægt að tylla sér og hugleiða að hætti zen-búddista.

Hannes segist alltaf hafa litið á sig sem fremur náttúrulega sinnaðan, með ,,lappirnar á jörðinni og hausinn uppi í skýjunum“. Þegar hann hafi farið að kynna sér búddisma hafi hann komist að því að þar héngi heilmikið á spýtunni sem ætti brýnt erindi við nútímann. „Þetta slær mann reyndar á köflum sem ísköld skynsemishyggja,“ segir Hannes og bætir því við að hann sé ekki búddisti þótt þokkalega lesinn sé og áhugsamur um fyrirbærið. Hann vilji ekki láta ,,stimpla sig á rassinn sem eitt eða annað“. Búddistar verði að vera með meistara og stunda íhugun af kappi, ekkert hálfkák dugi í þeim efnum og hann sé ekki reiðubúinn að læsa sig inni í þeim helli enn sem komið er.

Vildi fá Dalai Lama

Sýningin hefur verið um tvö og hálft ár í bígerð og Hannes segist hafa leitað hófanna víða. Hann vildi fá alvöru meistara, engan ,,fals-gúrú“, til Akureyrar og þá helst Dalai Lama sjálfan. Hann fékk vilyrði frá tantrískum meistara í Tíbet en afréð að lokum að fara aðra leið. Hannes segist reyndar einu sinni hafa hitt raunverulegan meistara um ævina, súfista af ættmeiði Múhameðs spámanns sem blessaði hann við hátíðlega athöfn. Þá fékk Hannes staðfestingu á því að ekki er allt sem sýnist.

,,Það var eitthvað meira en lítið í gangi þarna og ég vildi helst fá svona náunga á svæðið, helst bara hafa hann hugleiðandi í safninu þannig að fólk gæti spurt hann einfaldra spurninga eins og hver sé tilgangur lífsins,“ segir Hannes og bætir því hlæjandi við að auðveldara sé að búa til konsept en fylgja því eftir.

En af hverju búddismi? Hannes segir landslagið í trúmálum gjörbreytt á Íslandi miðað við það sem áður var, margir séu leitandi en komi að tómum kofanum hjá kirkjunni, finni ekki þá tilvistarlegu fótfestu sem þeir séu að sækjast eftir. Kirkjan bjóði upp á sömu gömlu tugguna, enda búin að drottna í skjóli andlegrar einokunar síðastliðin þúsund ár. Allt sé breytingum háð, ekki aðeins hugmyndafræði og tungumál heldur einnig trúarbrögðin. Búddismi hafi aftur á móti farið að síast inn í íslenskt samfélag með hippunum fyrir 30-40 árum og nú megi greina áhrif hans víða. Fólk stundi t.a.m. innhverfa íhugun, bardagalistir sem eru upprunnar í búddaklaustrum, jóga, innrétti heimili sín eftir feng shui, fari á sjálfshjálparnámskeið sem sæki grunn sinn að stóru leyti í búddisma, o.s.frv. ,,Svo er talað um nirvana eins og það sé svaka stuð, bara djamm og djús,“ segir Hannes og skellihlær. Búddisminn hafi ekki síst haft gríðarleg áhrif í myndlist og þar komum við aftur að sýningunni á Akureyri eftir að hafa farið um víðan völl, ekki aðeins rætt um búddisma.

Búddisminn djassaður upp

,,Vinnutitill sýningarinnar var Fönkí Búdda,“ segir Hannes. Hann hafi viljað djassa þetta svolítið upp og fara tantrísku leiðina. Menn fái almennilega, hressilega predikun í textum hins umdeilda Osho, eftir allar ,,andlausu hugvekjurnar sem þeir hafi þurft að sitja undir um jólin“. ,,Þess vegna er þetta með ráðum gert að koma með sýninguna, Búdda er á Akureyri — oft var zen en nú er nauðzen — í framhaldi af jólunum,“ segir Hannes. Hún færi birtu, yl og vonandi andlegan styrk. Drungalega strenginn í búddismann hafi þó vantað í sýninguna og þar komi Bill Viola sterkt inn. Búddismi horfist í augu við dauðann sem nú sé búið að uppræta á Vesturlöndum, hann sé eiginlega bara að finna í kvikmyndum í sinni blóðugu mynd. Japönsku samúræjarnir hafi einmitt hrifist af því hvað zen-búddistar væru algjörlega óhræddir við dauðann.

Fyrir sýninguna leitaði Hannes til þriggja íslenskra myndlistarmanna, sem getið var í upphafi, og blandað er saman gömlum og nýjum verkum. Verk Halldórs segir Hannes hafa „steinlegið“, enda Halldór búddisti; Erla þekki vel til búddismans, hafi kynnt sér hann, verið mikið í Kína og vísi oft til búddisma í verkum sínum. Finnbogi hafi einnig passað vel inn í hugmyndina, þar sem yfir verkum hans hvíli ,,einhvers konar frumspekileg helgi“, eins og það er orðað í sýningarblaði. Bill Viola er heimsþekktur af vídeóverkum sínum en verk hans á sýningunni heitir Lostalotning (Observance, frá árinu 2002), með tilvísun í tantríkina. Í því sést stöðugur straumur fólks af öllum kynþáttum hreyfast hægt og rólega í átt að áhorfandanum, staðnæmast í forgrunni að horfa á eitthvað fyrir neðan myndrammann sem ekki sést hvað er, yfirbugað af sorg. Allir sameinast í sorginni, yfir einhverju sem ekki er í myndinni.

Án minningargreinar

Hannes segist hafa hrifist af verki Viola þegar hann sá það í fyrra, á sýningunni Schmerz, Sársauka, í Hamburger Banhof í Berlín. Upplausnin hafi minnt hann á niðurlenskt miðaldamálverk, sýnt á stærðar plasmaskjá. ,,Ég var verulega snortinn af þessu verki, þetta er eins og að fá að vera viðstaddur eigin jarðarför, án minningargreinar í Mogganum,“ segir Hannes um verkið. Með því að hafa það á sýningunni sé farið inn á þátt dauðans í búddismanum. ,,Ef þú vilt lifa lífinu lifandi verðurðu að vera í lifandi sambandi við dauðann, samkvæmt búddismanum,“ segir Hannes til útskýringar. Alltaf tilbúinn að mæta honum óhræddur, hvar og hvenær sem er.

Ekki má gleyma Sigurði Skúlasyni leikara, sem á stóran þátt í sýningunni. Hann er búddisti og skrifar ítarlegan og vandaðan texta í sýningarblaðið en auk þess fræddi hann myndlistarmennina um búddisma og átt þannig þátt í mótun sýningarinnar og hugmyndafræðilegum undirbúningi. Hannes segir fólk upp til hópa vita lítið um búddisma og því hafi þekking Sigurðar komið sér vel. ,,Ég vildi prósessera þessum upplýsingum í gegnum íslenskan heila, einhvern sem þekkir íslenskar aðstæður og veit því hvernig best er að leggja þetta fram. Segja má að við séum í ákveðnu trúboði hérna líka,“ segir Hannes. Sem fyrr reyni hann á þanþol safnsins sem stofnunar og spegils á umheiminn. Það sé áhugavert að sjá meinlætalifnað að hætti búddista mæta efnishyggju Vesturlanda. Úr þessu ætti því að verða hin fullkomna blanda, jíng og jang.

Sýningin verður opnuð í dag kl. 15 og stendur til 9. mars. Sýningarblaðið má sækja í pdf-formi á netið. Slóðin er www.mbl.is/itarefni.

Um myndlistarmennina

Bill Viola

Viola er einn áhrifamesti vídeólistamaður samtímans og alþjóðlega viðurkenndur sem einn fremsti myndlistarmaður heims. Viola hefur átt stóran þátt í því að festa myndbandið í sessi sem nauðsynlegan miðil samtímalistar og um leið víkkað umfang þess í tæknilegum, inntakslegum og sagnfræðilegum skilningi. Í verkum hans er áherslan lögð á mannlegar tilfinningar. Sjálfskoðun og íhugun er Viola hugleikin, m.a. zen-búddismi og íslamskur súfismi.

Halldór Ásgeirsson

Halldór vinnur mikið með myndtákn ólíkra samfélaga í verkum sínum sem birtast oft á fánum sem stungið er í jörðina ogminna um margt á bænafána búddista se, tákna góðvilja, samkennd, frið og mikilvægi þess að allir fái notið hamingju. Í verki sínu á sýningunni vísar Halldór til þess að hver og einn verði að öðlast uppljómun upp á eigin spýtur.

Finnbogi Pétursson

Finnbogi er fyrsti og eini íslenski myndlistarmaðurinn sem vinnur gagngert með hljóð, að því er segir í sýningarhefti listasafnsins, og margvíslegar speglanir þess, t.d. með samspili hljóðs, ljóss og vatns. List Finnboga er línudans milli augna og eyrna.

Erla Þórarinsdóttir

Á sýningunni í Listasafninu á Akureyri sýnir Erla unnar ljósmyndir af mismunandi handastellingum hins uppljómaða Búdda, táknrænar stellingar sem eiga sér langa hefð í myndmáli búddisma og hindúisma og kallast mudra. Mudra eru oft notaðar í sitjandi kyrrstöðuhugleiðslu og hefur hver þeirra tiltekin áhrif á þann sem beitir henni.

Um búddisma

Valin brot úr texta Sigurðar Skúlasonar í sýningarblaði.

,,Orðið Búdda þýðir sá sem er vaknaður. Í hinni búddísku hefð er einmitt boðið upp á þá reynslu að vakna til lífsins, að vakna til sannleikans um lífið. Í u.þ.b. 2.500 ár hefur manninum staðið til boða kerfisbundin leið til að sjá skýrt og lifa viturlegu lífi með hinum ýmsu iðkunaraðferðum búddismans og boðskap – með vakandi athygli, með góðri breytni, með virðingu fyrir öllu lífi, með hugleiðslu. Þetta eru meginþættir búddismans.“

,,En búddismi er samt órafjarri okkar venjubundnu hugmyndum um trúarbrögð í ýmsum veigamiklum atriðum. Þar er t.d. engan Guð að finna sem okkur ber að hlýða. Búddisminn býður ekki upp á neina kennisetningu sem við verðum að trúa á. Hann hvetur okkur til þess að standa reist og taka ábyrgð á okkar eigin sýn á því hvað það merkir að vera manneskja.“