Grindavík | „Við stefnum að því að þetta verði fimm stjörnu tjaldsvæði. Þau gerast ekki betri,“ segir Óskar Sævarsson, markaðs- og ferðamálafulltrúi Grindavíkurbæjar.

Grindavík | „Við stefnum að því að þetta verði fimm stjörnu tjaldsvæði. Þau gerast ekki betri,“ segir Óskar Sævarsson, markaðs- og ferðamálafulltrúi Grindavíkurbæjar. Bærinn er að láta gera nýtt tjaldsvæði á Hópstúni við Austurveg í stað eldra tjaldsvæðis sem fer undir aðkomu og bílastæði knattspyrnuhallar sem er verið að byggja.

Nýja tjaldsvæðið tekur um tvö hundruð manns, samkvæmt drögum að skipulagi sem Forma – landslagsarkitektar hafa gert og eru til umfjöllunar hjá Grindavíkurbæ. Svæðið er um tíu sinnum stærra en eldra tjaldsvæðið. Þar verður öll sú aðstaða sem krafist er á bestu tjaldsvæðum í dag. Sérstök áhersla verður lögð á að þjóna þeim stóra og vaxandi hópi fólks sem ferðast um landið á húsbílum.

Byggt verður þjónustuhús við tjaldsvæðið. Auk hefðbundinnar snyrtiaðstöðu eru uppi áætlanir um að gera þar svefnloft og eldhúsaðstöðu þannig að hægt verði að taka á móti gestum í gistingu. Ekki er síst verið að hugsa um íþróttahópa enda er tjaldsvæðið stutt frá íþróttamannvirkjum bæjarins. Þá gerir skipulagið ráð fyrir að hægt verði að reisa nokkur smáhýsi á svæðinu.

Unnið er að jarðvegsskiptum og öðrum undirbúningi um þessar mundir. Stefnt er að því að opna svæðið ekki síðar en 1. júní í vor. Rætt hefur verið um að bjóða reksturinn út.

Óskar segir stefnt að því að hafa svæðið opið lengur en sambærileg svæði, eða frá því snemma á vorin og fram á vetur. Komið hafi í ljós síðustu árin að húsbílafólk sé á ferðinni á þessum tíma og því ætti að vera grundvöllur fyrir lengri opnunartíma.