— Morgunblaðið/Golli
Guðjón Pedersen tók við starfi borgarleikhússtjóra árið 2000 en hann lætur formlega af því starfi 1. ágúst næstkomandi.

Guðjón Pedersen tók við starfi borgarleikhússtjóra árið 2000 en hann lætur formlega af því starfi 1. ágúst næstkomandi. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum átta árum og bæði rekstrarform og listrænar áherslur Borgarleikhússins hafa breyst til mikilla muna. Guðjón fer yfir farinn veg, nú þegar hann á aðeins nokkra mánuði eftir í starfi.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

Það er tvennt sem þarf að vera í lagi í leikhúsi; kaffið og maturinn,“ segir Guðjón um leið og hann hellir upp á kaffi fyrir blaðamann. Við erum staddir baksviðs í Borgarleikhúsinu ásamt fjöldanum öllum af leikurum sem eru að æfa fyrir Tilsammans , leikrit byggt á samnefndri kvikmynd sem frumsýnt verður um miðjan febrúar.

Ég fylgi Guðjóni inn á skrifstofu hans sem er óvenjunett miðað við að þar hefur æðsti yfirmaður leikhússins aðstöðu. Guðjón segir þó ástæðu fyrir því. „Hin eiginlega skrifstofa leikhússtjórans er nefnilega uppi á næstu hæð fyrir ofan. Hún er miklu stærri, en þegar ég kom fyrst í húsið opnaði ég hana, lokaði henni strax aftur og færði mig hingað niður. Gjaldkerinn okkar er þarna uppi núna, hann er eina manneskjan okkar sem þarf og vill vera í friði. En hérna niðri er maður í tengslum við allt og ef ég er með opnar dyrnar veit ég alveg hvað er að gerast í húsinu.“

Samstiga Bush

Aðspurður segir Guðjón það blendna tilfinningu að eiga aðeins nokkra mánuði eftir í starfi leikhússtjóra. „Mér þykir nefnilega svo vænt um fólkið hérna. Persónulega kvíði ég því ekkert sérstaklega að skipta um starf, ég hef verið í lausamennsku meira og minna alla ævi. En mér líður eins og þetta sé fjölskylda mín,“ segir Guðjón, en um þessar mundir samanstendur þessi fjölskylda hans af um 170 manns.

Samkvæmt reglum Leikfélags Reykjavíkur má borgarleikhússtjóri ekki starfa lengur en í átta ár, eða tvö tímabil. „Ég og Bush höfum ekkert val, við megum bara sitja tvö kjörtímabil,“ segir Guðjón og hlær. Hann viðurkennir þó að hann hefði alveg verið til í að gegna starfinu örlítið lengur ef það hefði staðið til boða. „Ef ég á að segja alveg eins og er hefði ég kannski verið til í að vera svona tvö ár í viðbót. Þá hefði ég getað dregið nokkra öngla að landi. En þegar maður er ráðinn svona tímabundið veit maður alveg að það er byrjun og það er endir. Þannig að ég hef ekkert verið að leiða hugann að þessu.“

Framboð og eftirspurn

Töluverðar breytingar hafa orðið á rekstri Borgarleikhússins á þeim átta árum sem liðin eru frá því Guðjón tók við og þá sérstaklega hvað fjárhag leikhússins varðar. Guðjón segist hafa gert sér grein fyrir því strax í upphafi að taka yrði reksturinn föstum tökum. „Miðað við það fjármagn sem við fengum frá borginni gat þetta dæmi aldrei gengið upp eins og það var. Fyrstu tvö árin var tekið á þessu og síðan þá hefur reksturinn verið jákvæður. Í kjölfarið er allt samfélagið farið að treysta okkur betur, það er til dæmis orðið miklu auðveldara að eiga samskipti við fyrirtæki og aðrar stofnanir eftir að við komum fjárhagnum í lag.“

Meðal þess sem Guðjón gerði fyrstu tvö árin í starfi borgarleikhússtjóra var að breyta fyrirkomulagi á stjórn Leikfélags Reykjavíkur.

„Eftir tvö ár samþykkti félagið að utanaðkomandi aðilar yrðu fengnir í stjórn og að það mættu ekki vera nema einn eða tveir fulltrúar starfsfólks leikhússins. Áður var þetta bara starfsfólk sem sat þá báðum megin borðsins og leikhúsráðsfundir voru því mjög undarlegir; fyrir utan herbergið var ég yfirmaður, en svo þegar við vorum komin inn í herbergið var ég orðinn undirmaður. Þannig að öll ákvarðanataka var mjög erfið og leikhússtjórar voru bara reknir ef starfsfólk var ekki ánægt,“ segir Guðjón. Nú til dags er stjórn LR hins vegar skipuð á aðalfundi og er hún kosin með lýðræðislegri kosningu. Guðjón segir að þessi breyting hafi verið lykillinn að því að snúa rekstri leikhússins við, en undanfarin fimm ár hefur reksturinn skilað hagnaði. Þá eru opinberir styrkir auðvitað teknir með í reikninginn en Borgarleikhúsið fær um 300 milljónir frá Reykjavíkurborg á hverju ári auk þess sem leikhúsið hefur fengið fé á aukafjárlögum. En telur Guðjón opinbera styrki til leikhússins nógu háa?

„Nei, þetta er kannski ekki nógu mikið en maður getur líka verið raunsær og sagt að það sé ekki mikið fé í heilbrigðis- og menntakerfinu. En þetta er tæplega helmingur af því sem Þjóðleikhúsið hefur og það er alltaf verið að bera þessi tvö leikhús saman. Og hvort sem við viljum eða ekki þá erum við að keppa á þeim markaði.“

Guðjón segir að á síðasta ári hafi Borgarleikhúsið aflað 54% tekna sinna sjálft og 46% hafi því verið í formi opinberra styrkja. Hann segist hins vegar ekki sjá það fyrir sér að leikhús á borð við Borgarleikhúsið geti starfað án opinberra styrkja. „Ef fólk vill menningu eins og þessa verða allir að leggja í púkkið. Ef það verður hins vegar breyting á því í samfélaginu, og við viljum það ekki, verðum við bara að hætta þessu,“ segir leikhússtjórinn og því er ljóst að lögmálið um framboð og eftirspurn mun aldrei ráða í Borgarleikhúsinu. „Það er ekkert til sem heitir öruggt í leikhúsinu frekar en annars staðar. Ef einhver í leikhúsinu væri búinn að finna verkefnaval sem er öruggt væri bara einn leikhússtjóri í heiminum.“

Aðspurður segir Guðjón að borgarleikhússtjóri hafi mjög ákveðnum skyldum að gegna gagnvart almenningi, enda hafi hann almannafé til umráða. „Maður verður að vera víðsýnn, maður getur ekki bara hugsað um sjálfan sig og það sem manni sjálfum þykir skemmtilegt. Maður þarf að hugsa um alls konar fólk með alls konar áhugamál og reyna að þefa það sem er að gerast í samfélaginu. Stundum hefur okkur tekist það vel, eins og til dæmis núna þegar við settum upp Jesus Christ Superstar á sama tíma og þessi umræða um kristni og trúarbrögð er í gangi. Þannig að það er gaman að taka þátt í umræðunni á okkar forsendum.“

Sami leikarahópurinn

Þegar Guðjón er spurður að því hvort nauðsynlegt sé að hafa tvö stór leikhús á Íslandi segir hann það hafa sýnt sig að bæði sé pláss og þörf fyrir þau þótt landið sé lítið. Hann sér því ekki fyrir sér að í framtíðinni verði bara eitt stórt leikhús rekið fyrir almannafé á Íslandi.

„Það er svo mikilvægt fyrir gestina okkar að fá ólíkar skoðanir og ólíkan smekk. Þetta gæti orðið svolítið einsleitt annars, eins og við sáum í stórum borgum í Þýskalandi þar sem einn stjórnandi var yfir ballettinum, óperunni og leikhúsinu. Þetta var reynt á tímabili en það er búið að skipta þessu upp núna,“ segir Guðjón.

Hvað muninn á Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu varðar segir leikhússtjórinn hann kannski fyrst og fremst felast í skilgreiningum.

„Við skilgreinum okkur miklu víðar heldur en Þjóðleikhúsið gerir. Við viljum vera menningarmiðstöð enda erum við til dæmis með alls konar tónleika og fyrirlestra hérna, auk þess sem við erum með söng- og leiklistarskóla. Það var krafa frá borginni að við nýttum húsið eins vel og við gætum og við höfðum um tvennt að velja; annars vegar að fara inn á ráðstefnumarkaðinn og fara í samkeppni við Nordica og allt þetta og hins vegar að einblína á menninguna. Og við völdum þann kost þannig að hér er mikið af tónleikum og öðrum menningarviðburðum þótt leiklistin sé auðvitað hjartað í húsinu.“

Guðjón treystir sér hins vegar ekki til þess að benda á ákveðinn mun í verkefnavali og listrænni stefnu milli stóru leikhúsanna tveggja.

„Ég held að sú skilgreining myndi bara ná yfir eitt tiltekið leikár en ekki yfir lengri tíma. En það sem mér finnst ég merkja núna, miðað við það sem áður hefur verið, er að hér hefur nánast sami leikarahópurinn verið frá því ég byrjaði. Róteringin í Þjóðleikhúsinu hefur verið miklu meiri í tíð Tinnu Gunnlaugsdóttur en var til dæmis í tíð Stefáns Baldurssonar. Án þess að ég viti það finnst mér hennar stefna vera að rótera leikurum, meðan ég hef reynt að halda þessum hóp saman. Mér finnst það mjög mikilvægt.“

Fyrstu skrefin

Í stjórnartíð Guðjóns hefur verið bryddað upp á ýmsum nýjungum, og tilraunagleðin verið allsráðandi. Hann segir þetta hafa verið meðvitaða stefnu frá upphafi.

„Þegar við opnuðum Nýja sviðið vorum við komin með þrjú svið, auk þess sem við erum með lítið svið uppi á þriðju hæð. Þannig að við fórum að reyna að skilgreina okkur. Á Stóra sviðinu vildum við höfða til eins breiðs áhorfendahóps og hægt væri, þar erum við með stóru söngleikina og stóru gamanleikina, auk barnaleikritanna. Svo ákváðum við að taka Nýja sviðið fyrir og að það yrði tilraunasviðið okkar. Þar setjum við upp ný erlend og íslensk verk og ef verkin eru eldri eru þau tekin með nýjum gleraugum. Á Litla sviðinu erum við svo með samstarfsverkefni, leikhópa sem okkur ber skylda til að vera með. Fyrsta árið var það einn leikstjóri, Benedikt Erlingsson, sem stýrði því og fékk hóp til að vinna með. Í samráði við mig bjuggu þau til verkefnaval. Svo þróaðist það yfir í að Stefán Jónsson tók við sviðinu, og síðan þá höfum við haldið sama karakter á sviðinu en það er hvorki sami hópur né leikstjóri. Þegar maður er búinn að prófa eitt vill maður komast í eitthvað annað svo þetta verði ekki of þægilegt.“

Áðurnefndir Benedikt og Stefán stigu einmitt sín fyrstu skref sem leikstjórar á Litla sviði Borgarleikhússins, en þeim hefur báðum vegnað mjög vel síðan. „Enda eiga þeir það alveg skilið og hafa algjörlega unnið fyrir því,“ segir Guðjón og bætir því við að vissulega sé hann stoltur af því að þeir félagar hafi byrjað á Litla sviði Borgarleikhússins. „Auðvitað er ég stoltur af því enda eru þetta frábærir listamenn. En það hefur alltaf verið stefnan hjá mér að þefa uppi unga leikstjóra og gefa þeim tækifæri.“

Þannig á Guðjón ekki aðeins hlut í þeim Benedikt og Stefáni, heldur steig Vesturports-hópurinn einnig sín fyrstu skref undir hans stjórn. „Þegar ég byrjaði hérna fann ég fyrir óþreyju hjá vissum einstaklingum, sú óþreyja fólst í því að þeir fengu ekki að gera það sem þeim lá á hjarta. Vesturport var einmitt þannig, Gísli Örn og þau, Jóhanna Vigdís líka, sömuleiðis Bergur Þór og Halldóra Geirharðs með trúðana sína, og Þór Tulinius með einleikinn sinn. Við höfum alltaf reynt að finna svona verkefnum farveg hér innanhúss,“ segir Guðjón, en fyrsta verkefni Vesturports var eftirminnileg uppfærsla á Rómeó og Júlíu , auk þess sem Vesturport hefur bæði sett upp Woyzeck og Ást í leikhúsinu. Þá setur hópurinn einnig upp áðurnefnt Tilsammans sem frumsýnt verður eftir mánuð.

Kolbrúnn frá Kína

Guðjón hefur alltaf lagt mikið upp úr því að hafa alla umgjörð fyrir listamenn eins og best verður á kosið, til dæmis tæknideild leikhússins. Heimsþekkt leikhúsfólk hefur meira að segja haft orð á þessu, til dæmis Pina Bausch og danshópur hennar sem kom fram í Borgarleikhúsinu árið 2006. „Þegar þau fóru héðan sögðu þau „the infrastructure in your theatre is perfect“. Montnari getur maður varla orðið af starfsfólki sínu því þetta er manneskja sem þarf ekki að segja eitt eða neitt við einn eða neinn. Hún ferðast örugglega svona 60% af árinu um allan heim, hún velur sér sjálf þá staði sem hún fer á og getur valið úr. Þannig að það var alveg frábært að heyra þetta enda gekk þessi vinna ljómandi vel,“ segir Guðjón sem er greinilega ákaflega þakklátur starfsfólki sínu.

„Leikhús skiptist í rauninni í tvennt og ég segi þetta alveg í góðu. Við erum með það sem ég kalla rúðustrikaða fólkið og svo krúsidúllu fólkið. Rúðustrikaða fólkið er fólkið sem vinnur í öllum tæknideildum, fólkið sem heldur vélinni svolítið gangandi. Krúsidúllu fólkið er svo listafólkið. En það er það sem er svo skemmtilegt við að vera leikhússtjóri, að fá að kynnast þessum ólíka hugsunarhætti, skipulagi og svo þessu óskipulagi sem verður að vera hjá listamönnum.“

Hvað stjórnarhætti varðar segir Guðjón að hann hafi alltaf lagt áherslu á að reyna að hafa eins lítið valdakerfi og hægt sé innan leikhússins.

„Það er nokkuð sem var kannski að hluta til til staðar þegar ég kom hingað inn. En þetta virkar þannig að hver deild er ábyrg fyrir sínu og hún sér um sig. Og þær jafna sjálfar út vinnuálagið, þannig að stundum kem ég til vinnu og þá kemur einhver kolbrúnn hljóðmaður og segist hafa verið í Kína í hálfan mánuð án þess að ég hafi hugmynd um það. Þá er hann búinn að vera að vinna svo mikið að hinir gæjarnir hafa sent hann í burtu,“ segir Guðjón sem forðast það eins og heitan eldinn að virka sem einhvers konar einvaldur. „Ég trúi ekki á það, ég trúi á samvinnu.“

Aukin samkeppni

Íslenski dansflokkurinn hefur haft aðsetur í Borgarleikhúsinu um árabil, og segist Guðjón mjög ánægður með samstarfið við flokkinn síðustu átta ár. Hann viðurkennir þó að dansflokkurinn eigi undir nokkurt högg að sækja hér heima. „Þau hafa markað sér stefnu sem virðist vera að ganga betur í útlendinga heldur en Íslendinga. Kannski kemur að því að þau verði að sýna miklu meira erlendis heldur en hér heima. En það er kannski hluti af því sem við finnum líka fyrir í leikhúsinu. Fyrir svona tíu árum gátum við tekið eitthvert nýtt erlent verk, kannski í þyngri kantinum, en verið viss um að 2.000 manns kæmu að sjá það. Í kringum leikhúsið var til svona 2.000 manna kjarni sem hafði virkilegan áhuga á svona verkum og fékk sína útrás á þeim. En þessi hópur er ekki til í dag, eða þá að hann er farinn eitthvað annað,“ segir Guðjón. En er þá aðsókn á „þyngri“ verk sífellt að minnka? „Nei, en við getum ekki verið eins viss um að fá aðsókn á þau. Þegar ég var nýbyrjaður hérna settum við til dæmis upp verk sem heitir Maðurinn sem og fjallar um sjúkdóma. Við fengum fína aðsókn en ég er ekki viss um að við fengjum hana á svona sýningu í dag. Samkeppnin hefur náttúrlega aukist alveg gríðarlega því í dag er verið að flytja inn alls konar menningarstarfsemi. Áður fyrr var þetta bara Listahátíð í maí en núna er hægt að fara á viðburði með stórstjörnum í Egilshöll allan ársins hring. Það hefur áhrif ef það kemur einhver stórsöngvari sem fyllir Egilshöllina með 8.000 manns, og hver borgar 10.000 kall fyrir miðann.“

Rútur fyrir utan

Til þess að bregðast við þessari þróun segir Guðjón vissulega nauðsynlegt að vera með léttar sýningar til þess að „hafa efni á“ þeim þyngri. Til dæmis hafi sýning Ladda, sem gengið hefur fyrir fullu húsi lengur en elstu menn muna, hjálpað mikið til. „Við þurfum alltaf að vera með þannig sýningar en auðvitað gerum við það af ánægju. En við erum alltaf með eitthvað sem er í léttari kantinum, enda er almennt séð betri aðsókn á þær sýningar. En svo setjum við í gang þungt íslenskt leikrit eins og Dag vonar , sem er langt í þokkabót, en fyllum samt húsið 50 sinnum. Þannig að áhorfendur okkar eru alltaf að koma okkur á óvart.“

Hvað áhorfendur varðar segir Guðjón það einnig mjög ánægjulega þróun hversu stór hluti leikhúsgesta kemur nú utan að landi, en það hafi aukist mikið síðustu fimm til tíu ár.

„Það líður ekki sú helgi að það sé ekki rúta hérna fyrir utan húsið,“ útskýrir Guðjón.

Kýlum á hlutina

Líkt og annars staðar skiptast á skin og skúrir í leikhúsinu og Guðjón reynist fús til að nefna hvað hann telji helst að í íslensku leikhúslífi. „Ætli það sé ekki hvað við erum fámenn og langt í burtu frá öðrum. Þótt við ferðumst mikið erum við svolítið langt frá öðrum og það tekur alltaf nokkur ár að komast hingað, það er að segja umræða um hitt og þetta.“

Hvað kosti íslensks leikhúslífs varðar segir Guðjón þá fyrst og fremst felast í miklum áhuga almennings. „Íslendingar eru ennþá forvitnir og við höfum gaman af því að fara í leikhús, enda er það hluti af lífinu. Það er líka jákvætt að okkur tekst að hafa miðaverð fyrir almenning en ekki eins og það er sums staðar í Bretlandi eða Ameríku þar sem þetta er í rauninni bara fyrir efri millistétt. Þetta eru miklir kostir enda finnum við til dæmis mikla þörf hjá foreldrum að fara á barnasýningar með börnum sínum. En við erum mjög lánsöm með það hér á Íslandi hvað áhorfendur sýna okkur mikinn áhuga.“

En hvað með leikhúsið sjálft og starfsfólkið sem þar vinnur - hverjir eru helstu kostir þess? „Ég held að við séum ófeimin og óhrædd við að takast á við hin ýmsu verkefni. Ég held að við Íslendingar hegðum okkur eins í leikhúsinu og annars staðar; við hendum okkur út í hlutina. Við höfum fundið það í samskiptum við erlend leikhús hvað hlutir geta tekið langan tíma þar. En það er okkar eðli að kýla á hlutina.“

Enginn þröskuldur

Þegar leikhússtjórinn er spurður að því af hverju hann sé stoltastur þegar hann lítur til baka þarf hann að hugsa sig vel um. Hann svarar þó að lokum. „Ég held að ég sé stoltastur af því að fá tækifæri til þess að vinna með öllu þessa frábæra fólki. Ég hef örugglega alveg milljón galla en ég er hvað stoltastur af því að hafa náð að halda utan um allt þetta fólk án mikilla mannabreytinga. Þannig að fólkið hér virðist vera ánægt og ef það er óánægt fæ ég að heyra það og mér finnst það gott. Ég lagði strax áherslu á að það er enginn þröskuldur hingað inn til mín,“ segir Guðjón. Það reynist hins vegar ómögulegt að fá hann til þess að nefna einstök verk sem honum finnst standa upp úr eftir þessi átta ár, þau séu svo mörg.

Útilokar ekkert

Guðjón er á leiðinni til Svíþjóðar en þar mun hann leikstýra Ofviðrinu eftir Shakespeare í Borgarleikhúsinu í Malmö. Verkið verður frumsýnt um miðjan mars en Guðjón kemur fljótlega aftur því hann þarf að koma nýjum borgarleikhússtjóra inn í starfið. Síðasti formlegi vinnudagur Guðjóns er 1. ágúst, hvað þá tekur við er honum hins vegar hulin ráðgáta. „Konan mín er miklu stressaðari yfir þessu heldur en ég, ég er voðalega rólegur,“ segir hann og hlær. Hann gefur það þó upp að hann geti vel hugsað sér að fara að leikstýra meira en hann hefur gert. „En svo hef ég verið að hugsa hvort maður ætti ekki bara að gera eitthvað allt annað, til dæmis að fara að kokka.“

Blaðamaður rifjar það upp að lokum að tveir leikhússtjórar LR, þeir Sveinn Einarsson og Stefán Baldursson, hafa síðar sest í stól þjóðleikhússtjóra. Er það eitthvað sem Guðjón gæti hugsað sér? „Ég ætla ekki að útiloka neitt. Ég held nefnilega að þegar einar dyr lokast, þá opnist aðrar.“

Leikhússtjórar Leikfélags Reykjavíkur

Sveinn Einarsson 1963-1972


Vigdís Finnbogadóttir 1972-1980

Stefán Baldursson og Þorsteinn Gunnarsson 1980-1983

Stefán Baldursson 1983-1987

Hallmar Sigurðsson 1987-1991

Sigurður Hróarsson 1991-1996

Viðar Eggertsson 1996

Þórhildur Þorleifsdóttir 1996-2000

Guðjón Pedersen 2000-2008