Þjálfarinn Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, mun leggja fastar línur fyrir sína menn fyrir leikinn gegn Slóvökum.
Þjálfarinn Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari, mun leggja fastar línur fyrir sína menn fyrir leikinn gegn Slóvökum.
ÞAÐ var nokkuð létt yfir æfingu íslenska landsliðsins í Spektrum-íþróttahöllinni rétt fyrir hádegið í gær.

ÞAÐ var nokkuð létt yfir æfingu íslenska landsliðsins í Spektrum-íþróttahöllinni rétt fyrir hádegið í gær. Hún stóð yfir í hálfan annan tíma og var farið yfir ýmis þau atriði sem Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari segir að verði að bæta fyrir viðureignina við Slóvaka. Alfreð sagðist hafa farið vandlega yfir leikinn við Svía í fyrrinótt og í gærmorgun. Hann hafi ekki séð nýjar skýringar á slökum leik.

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„Því miður þá vorum við í sömu vandræðunum í Danmerkurmótinu fyrir skömmu og að hluta til gegn Tékkum heima. Hraðaupphlaupin voru mjög slök, menn stungu mikið niður boltanum og gerðu ekki það sem fyrir þá var lagt. Þá lékum við einstaklega illa þegar við vorum einum og tveimur leikmönnum fleiri.

Léku ekki leikkerfin til enda

Einnig léku menn ekki leikkerfin til enda og til marks um það þá kom aðeins eitt skot úr hornunum í leiknum ef frá er talið eitt hraðaupphlaup sem endaði úti horni. Þessi æfing sem er nýlokið fór í að skerpa á þessum atriðum,“ sagði Alfreð í samtali við Morgunblaðið.

„Ef okkur tekst að bæta þessi atriði þá á liðið mikla möguleika á að bæta sig verulega og það er það sem við verðum að gera gegn Slóvökum á morgun. Menn verða að vera tilbúnir með þeim hætti sem við fórum í gegnum á æfingunni í dag þegar á hólminn er komið.“

Spurður hvernig honum litist á það verkefni að vinda ofan af leikmönnum vonbrigðum með leikinn við Svía sagði Alfreð. „Ég verð í því í dag. En fyrst og fremst verða menn að halda sig við vinnureglurnar. Mér finnst eins og menn séu bara ekki með þær á hreinu og geti því ekki unnið eftir þeim.

Gerðu ekki sem fyrir þá var lagt

Um leið og eitthvað fer að bjáta á í leikjum þá er eins og hver einasti leikmaður dragi sig inn í skel og þeir geri ekki það sem fyrir þá er lagt. Það gerðist einmitt í síðari hálfleik. Þá gleymdu menn vinnureglunum og fóru ekki í blokkeringar, léku ekki leikkerfin til enda. Landsliðið hefur leikið svipuð leikkerfi í hraðaupphlaupum og þegar það er einum leikmanni fleiri í um 20 ár. Þetta hefur verið í nokkuð föstum skorðum þar til nú að menn hafa breytt þessum vinnureglum í tóma steypu,“ segir Alfreð sem á ærið verk fyrir höndum áður en flautað verður til leiks gegn Slóvökum klukkan 17.15 í dag.

Íslendingar hafa aldrei leikið gegn Slóvökum á stórmóti, en þeir tóku í fyrsta skipti þátt í EM í Sviss – léku þá þrjá leiki og töpuðu þeim öllum.