Ritstjóri Tuttugu og fjögurra stunda sendi undirrituðum tóninn í blaði sínu um daginn vegna skrifa minna sem urðu til í jólafríi suður á Kanarí.

Ritstjóri Tuttugu og fjögurra stunda sendi undirrituðum tóninn í blaði sínu um daginn vegna skrifa minna sem urðu til í jólafríi suður á Kanarí. Þau voru um utanríkisráðherra og jólaferð hennar til Egypta þar sem hún skrifaði undir samning, – sem ég sagði þá og segi að hafi verið ágætt hjá Ingibjörgu. En ég leyfði mér það guðlast að nefna að ef Ísland gengi í ESB væru sérstakir og sjálfstæðir samningar ónýtir og það þykir Ólafi Stephensen vont að sagt sé.

„Bjarni hefði átt að gúgla aðeins, fyrst hann var staddur á netkaffi...,“ segir ritstjórinn og bendir í framhaldi á að ESB hafi víst fríverslunarsamning við Egypta sem ég sagðist í mínu bloggi ekki vita fyrir víst. Hafði þann fyrirvara á og þurfti því ekki á neinu galdratæki gúglsins að halda. En það er gott að vita að ritstjóri blaðsins hefur trú á umræddri leitarvél veraldarvefsins, sem þó ku amerísk.

Mest er þó trú ritstjórans á Evrópusambandinu, – svo mjög að í leiðara blaðs síns síðastliðinn fimmtudag er lof borið á hina evrópusinnuðu Samfylkingu fyrir að vera ein stjórnmálaflokka sem aðhyllist frjáls viðskipti! Það er í anda þeirra trúarbragða að í hugtakinu frjáls viðskipti felist einkanlega að opna fyrir frelsi innan Evrópu og mætti nú ritstjórinn sjálfur nota sér umrætt gúgl til að komast yfir þá miðaldaspeki að endimörk hins siðmenntaða heims nútímaviðskipta séu Evrópa.

Viðskiptatækifæri framtíðarinnar eru vitaskuld ekki mest þar sem hagvöxtur er með minnsta móti og þröngt setinn bekkurinn í þeim viðskiptum sem fyrir eru. Nú um stundir eru mest tækifærin í austrinu og um það er margt skrifað og skrafað í hinum stóra heimi utan Evrópu. En ritstjórinn er trúr sinni ESB-köllun, eða hvernig ber að skilja eftirfarandi fullyrðingu sem er í skeytasendingunni til mín þar sem talað er um fríverslunarsamninga EFTA-ríkja:

„Þannig hefur EFTA gert flesta sína fríverslunarsamninga undanfarin ár, siglt í kjölfarið og samið við ríki, sem ESB hefur þegar gert fríverslunarsamninga við.“

Í framhaldinu fylgir svo almennur skætingur um hugarástand undirritaðs og landbúnaðarstefnu Framsóknarflokksins. Hvorugt svaravert en það má halda því til haga að í síðustu stjórnartíð okkar í landbúnaðarmálum var fríverslun í þeim efnum aukin meira en gert hafði verið til áratuga og tollar víða aflagðir.

Það hefur auðvitað ekki spurst inn á ritstjórnina að EFTA-lönd hafa unnið sjálfstætt að fríverslunarsamningum við þjóðir sem ESB hefur ekki samið við og stærst í þeim efnum samningaviðræður Íslands við Kínverja og tilraunir til samninga EFTA-landa við Japani. Það er reyndar ekki heiglum hent að ná samningum við þessa risa í austrinu en þó miklum mun líklegra að EFTA-löndin nái þeim árangri heldur en ESB. En náist þeir, sem líklegt verður að telja um að minnsta kosti Kína-samninginn, þá er það gríðarlega mikils virði. Svo verðmætt að líklega verður þá ekki talað oftar um ESB-aðild, – því með henni myndu allir slíkir samningar falla dauðir og ómerkir.

Það er þetta sem margir af færustu viðskiptamönnum þjóðarinnar hafa séð og vita sem er að möguleikar Íslands til að vera opin og gróandi fjármálamiðstöð í heiminum eru litlir innan reglugerðar-

múra ESB. Það yrði okkur jafn erfitt og Lúxemborg. Eða halda menn að það sé af tómri sérvisku sem hin sterkríka bankamiðstöð í Ölpunum, Sviss, heldur sig fjarri Brusselvaldinu.

En ritstjórinn getur kannski látið blaðamenn sína gúgla eitthvað upp um þetta allt ef það er þá heimilt að skrifa slíkar fréttir á 24 stundum, – algerlega andstæðar hinum martraðarkennda draumi um að Ísland gangist ESB á hönd.

Höfundur er alþingismaður