Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun á þriðjudag flytja þingsályktunartillögu um aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun á þriðjudag flytja þingsályktunartillögu um aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera. 24 stundir sögðu frá því á fimmtudag að frágangur og merkingar vegna framkvæmda við Reykjanesbraut væri með slakasta móti og skapaði slysahættu. Ármann segir Vegagerðina verða að koma með mun ákveðnari hætti að þessum málum. „Annaðhvort með því að settar verði reglur eða framkvæmdaraðilum verði gert skylt að sýna fram á með hvaða hætti þeir ætla að huga að öryggismálum við framkvæmdina. Þá þarf einnig að fá samþykkt Vegagerðarinnar fyrir því að nægilega vel sé staðið að merkingunum. Vegagerðin þarf að gera þessar kröfur til verktaka og fylgja því eftir að hann verði við þeim. Þetta er gríðarlega brýnt mál því slys af völdum þess að ekki er nægilega vel staðið að framkvæmdum getum við ekki sætt okkur við.“ þsj