Dómkirkjan í Reykjavík.
Dómkirkjan í Reykjavík. — Árvakur/Ómar
Messa í Grafarvogskirkju Messa kl. 11. Prestar eru séra Bjarni Þór Bjarnason og séra Vigfús Þór Árnason, Kór Grafarvogskirkju syngur, organisti Aðalheiður Þorsteinsdóttir.

Messa í Grafarvogskirkju

Messa kl. 11. Prestar eru séra Bjarni Þór Bjarnason og séra Vigfús Þór Árnason, Kór Grafarvogskirkju syngur, organisti Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Í messunni er fermingarbörnum boðið að ganga til altaris í fylgd með foreldrum sínum. Fundur með foreldrum fermingarbarna í Húsa- og Rimaskóla að lokinni messu, þar sem fjallað er um fermingardaginn og atriði er lúta að fermingunni. Sunnudagaskóli á sama tíma kl. 11 í Grafarvogskirkju og í Borgarholtsskóla.

Listaverk helgað í Vídalínskirkju

Messa kl. 11. Þar verður helgað verk eftir listamanninn Magnús Kjartansson sem sett hefur verið upp fyrir ofan altarið og mun verða í kirkjuskipinu út föstuna. Þetta listaverk er annað í röð fjögurra listaverka sem verða sett upp í Vídalínskirkju á einu ári. Það er nýjung í safnaðarstarfi á Íslandi að hafa breytilega altaristöflu eftir íslenska listamenn. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir mun predika út frá verkinu en myndin sýnir gamla konu í hljóðri bæn.

Í upphafi messunnar verður þeim börnum sem verða fimm ára á árinu afhent bókin Kata og Óli fara í kirkju og síðan er þeim boðið yfir í safnaðarheimili kirkjunnar til að taka þátt í sunnudagaskóla Vídalínskirkju undir stjórn æskulýðsfulltrúa safnaðarins.

Þennan sama dag mun æskulýðsfulltrúi Garðasóknar, Ármann Hákon Gunnarsson, verða vígður til djáknaþjónustu við söfnuðinn til að sinna áfram æskulýðs- og forvarnastarfi. Vígslan fer fram í Dómkirkjunni kl. 14 og eru allir velkomnir.

Æðruleysismessa í Dómkirkjunni

Æðruleysismessa verður kl. 20. Bræðrabandið verður á sínum stað, Birgir og Hörður Bragasynir ásamt þeim Hjörleifi Valssyni og Önnu Sigríði Helgadóttur en þau hafa lengst af flutt tónlistina og leitt almennan söng. Prestar verða sr. Anna Sigríður Pálsdóttir, sr. Þorvaldur Víðisson og Bryndís Valbjarnardóttir, guðfræðingur.

Í febrúar verða 10 ár síðan æðruleysismessurnar hófust í Dómkirkjunni. Þær hafa t.a.m. fengið hljómgrunn hjá mörgum sem ganga 12 spora slóð AA-samtakanna og hafa mótast af því fólki sem saman kemur. Einkenni þeirra er einlægni og almenn þátttaka kirkjugesta.

Vöfflukaffi í Fríkirkjunni Reykjavík

Messa og barnastarf kl.14. Ferminarbörn vorsins taka virkan þátt í messunni með lestrum, móttöku og fleiru, barn verður borið til skírnar. Sr Ása Björk þjónar fyrir altari og prédikar. Gengið verður til altaris. Barnastarfið hefst í kirkjunni og síðan fara börnin með Nöndu Maríu upp í safnaðarheimili. Boðið verður upp á vöfflukaffi í safnaðarheimilinu eftir messuna.

Rímnasöngur á samveru eldri borgara í Laugarneskirkju

Á samveru eldri borgara sem haldin verður 24. janúar kl. 14 mun kvæðamaðurinn Steindór Andersen kynna íslenskan rímnakveðskap og flytja fornar stemmur. Er það tilefni fyrir allt eldra fólk í Laugarneshverfi til að njóta fróðleiks og skemmtunar. Sr. Bjarni Karlsson sóknarprestur stýrir samverunni en þjónustuhópur kirkjunnar og kirkjuvörður eiga veg og vanda að öllum viðurgjörningi.