Í kvöld verður á Nasa árlegt árslistakvöld útvarpsþáttarins Party Zone sem er á dagskrá Rásar 2. Tilefnið er sem endranær sjálfur árslisti Party Zone en hann er á dagskrá Rásar 2 fyrr um kvöldið frá 19:30 til miðnættis.

Í kvöld verður á Nasa árlegt árslistakvöld útvarpsþáttarins Party Zone sem er á dagskrá Rásar 2. Tilefnið er sem endranær sjálfur árslisti Party Zone en hann er á dagskrá Rásar 2 fyrr um kvöldið frá 19:30 til miðnættis. Þar verða kynnt 50 bestu lög ársins 2007 sem valin eru af ríflega 30 plötusnúðum, frumkvöðlum í íslenskri danssenu og hlustendum þáttarins.

Árslistakvöldið er haldið í þrettánda sinn en sjálfur er þátturinn og árslistinn sem slíkur átján ára. Það eru herramennirnir Helgi Már Bjarnason og Kristján Helgi Stefánsson sem sjá um þennan lífseigasta danstónlistarþátt Íslands, sem hefur hlotið viðurnefnið Dansþáttur íslensku þjóðarinnar.

Piltarnir hafa gjarnan boðið upp á alþjóðlega plötusnúða á viðburðum sem þeir standa fyrir og engin undantekning verður á því á Nasa í kvöld. Marc Romboy kemur frá Þýskalandi og Tomas Andersson og hljómsveitin Super Diskant koma frá Svíþjóð, en DJ Casanova frá Hafnarfirði og DJ Lazer frá Hvolfsvelli halda einnig uppi stuðinu.

heida@24stundir.is