Ingibjörg Árnadóttir fæddist í Reykjavík 2. desember 1951. Hún lést 8. janúar sl. á Landspítalanum við Hringbraut. Hún var dóttir hjónanna Hallfríðar Bjarnadóttur, f. 20. apríl 1922 og Árna Valdemarssonar, f. 27. júní 1923, d. 1969. Seinni maður Hallfríðar er Bárður Óli Pálsson, f. 27. október 1910, d. 1986. Systkini Ingibjargar eru: Þorgeir Logi, f. 17. apríl 1946, d. 1997, kvæntur Ingunni Ernu Stefánsdóttur, f. 5. ágúst 1947, seinni maður Ingunnar er Erlendur Guðmundsson, f. 12. júlí 1943. Haraldur, f. 18. apríl 1948, kvæntur Guðríði Kristjánsdóttur, f. 17. nóvember 1951. Ingibjörg giftist Guðmundi F. Baldurssyni, f. 22. janúar 1952, 27. júní 1971. Foreldrar hans eru Margrét Friðriksdóttir, f. 14. mars 1920 og Baldur Guðmundsson, f. 26. apríl 1924, d. 19. mars 1994. Börn Ingibjargar og Guðmundar eru: 1) Rósant, f. 11. júní 1973, kvæntur Eddu Rúnu Kristjánsdóttur, f. 8. október 1972. Dætur þeirra eru Enea, f. 6. júní 2000 og Mía, f. 17. febrúar 2007. 2) Heiða Margrét, f. 7. október 1978. 3) Valdemar Árni, f. 11. ágúst 1991.

Ingibjörg ólst upp á Ljósvallagötunni í Reykjavík. Hún stundaði barnaskólanám í Melaskólanum, gagnfræðanám í Hagaskólanum og hárgreiðslu- og hárskeraiðn í Iðnskólanum í Reykjavík. Árið 1970 var Ingibjörg í námi við Norræna lýðháskólann í Kungälv, Svíþjóð, þar sem hún kynntist Guðmundi, eftirlifandi eiginmanni sínum. Ingibjörg lauk námi í stjórnsýslu og stjórnun í Endurmenntun Háskóla Íslands. Ingibjörg og Guðmundur bjuggu saman í Reykjavík frá 1971-1978, á Eskifirði frá 1978-1981 og í Hveragerði frá árinu 1981. Ingibjörg starfaði í víxladeild Landsbankans í Austurstræti frá 1970-1977, sem hárskeri frá 1977-1978, sem skrifstofustjóri í Prentsmiðju Árna Valdemarssonar frá 1981-1994 og sem skrifstofustjóri hjá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga frá árinu 1994 til dánardags.

Ingibjörg verður jarðsungin frá Hveragerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Enea og Mía.

Ingibjörg mágkona mín er látin eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein.

Hún var 14 ára þegar ég kynntist þessari góðu fjölskyldu á Ljósvallagötu 8, þá sem unnusta Þorgeirs Loga, eldri bróður hennar, sem lést í flugslysi 1997.

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég fór að venja komur mínar á heimilið var hversu kærleiksríkt samband var á milli foreldranna, Höllu og Árna. Skilaði það sér ríkulega til barnanna og búum við öll að því.

Ingibjörg var á þessum árum glæsilegur unglingur, há og grönn með þykkt fallegt hár. Hún var hlédræg og fremur alvörugefin, hafði ekki mörg orð um hlutina, en vissi alltaf hvað hún vildi. Ingibjörg var 18 ára þegar faðir hennar lést úr sama sjúkdómi og nú leggur hana að velli og var öllum harmdauði því skjótt bar það einnig að.

Ingibjörg byrjaði í hárgreiðslunámi en þoldi efnin illa en það leiddi til þess að hún fór á lýðháskóla í Svíþjóð. Þessi dvöl varð henni örlagarík því þar kynntist hún Guðmundi. Svo stóð hann á stofugólfinu hann Gvendur hennar úr Bítlabænum. Það leyndi sér ekki að þar fór efnilegur mannkostamaður. Síðar brostum við Þorgeir oft að minningunni um þau parið, þegar við horfðum á eftir þeim út Ljósvallagötuna á leið í bíó, hönd í hönd, klædd í „unisex“ rifflaðan flauelsalklæðnað, bæði með ljóst liðað hár niður á herðar, í hælaskóm svo vart var hægt að greina hvort var hvað! En þessi gamla minning er einkennandi fyrir alla þeirra samveru: samhent, samstiga og samhuga í því sem þau tóku sér fyrir hendur.

Ingibjörg vann í mörg ár í Prentsmiðju Árna Valdemarssonar sem foreldrarnir höfðu stofnað og þau ráku nú saman systkinin með Höllu. Þorgeir hafði oft á orði að það væri enginn eins og Ingibjörg litla systir í vinnu, svo rösk og áreiðanleg var hún.

Við eigum margar minningar um ánægjulegar stundir með börnin lítil, skíðaferðir og gönguferðir, sem oft enduðu með veislumat hjá Ingibjörgu.

Mest vega þó öll árin, sem við áttum sumarbústaðinn saman á Grímsstöðum á Mýrum. Á flugi yfir staðnum vorum við Þorgeir sammála um að eina fólkið sem við vildum eiga bústað með væri Guðmundur og Ingibjörg. Bróðir minn byggði þar líka og samvinna var á milli fjölskyldnanna við byggingu húsanna sem Guðmundur teiknaði. Aldrei kom upp ósætti um Logalund og bar ekki skugga á. Þessu lauk þegar Ingibjörg lét æskudrauminn sinn rætast að eignast hesta og hús í Hveragerði. Þeirra er saknað úr sameigninni en samglaðst með þeim að hafa látið drauminn rætast. Hestamennska var hennar yndi og gaf þeim báðum mikið. Ingibjörg fór í nám í Myndlistarskóla Kópavogs og þar nutu listrænir hæfileikar hennar sín vel.

Eftir standa góðar minningar og þakklæti fyrir að hafa átt með henni samleið.

Halla mín, þín byrði er þung en saman eigum við leið um dalinn dimma í átt að ljósinu, við höfum farið hana áður.

Elsku Guðmundur, Valdemar, Heiða, Rósant, Edda, ömmubörnin tvö og Haraldur. Við Erlendur, Stefán Árni, Halla Sólveig og Auður Rán og fjölskyldur sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum allar góðar vættir að fylgja ykkur.

Ingunn Erna Stefánsdóttir.

mbl.is/minningar

Þær sorgarfréttir bárust að mágkona mín, Ingibjörg Árnadóttir, væri látin eftir stutta baráttu við hörmulegan og grimman sjúkdóm. Þessi fallega, tígulega kona, sem aldrei haggaðist í neinu sem hún tók að sér er tekin frá okkur í blóma lífsins sem segir manni að það ræður enginn sinni för í þessum heimi. Hún barðist eins og hetja og kvartaði aldrei.

Guðmundur bróðir hitti þessa yndislegu stúlku í Svíþjóð á skóla sem þau bæði sóttu í einn vetur og þar byrjaði ástarævintýri þeirra sem entist í gegnum allt þeirra hjónaband. Guðmundur sá ekki sólina fyrir Ingibjörgu sinni. Þau voru samtaka í öllum ákvörðunum sínum, bæði í uppeldi barnanna og við rekstur heimilisins. Hún var framkvæmdastjórinn í öllum viðskiptum þeirra, og mikil smekkmanneskja. Heimili þeirra ber merki hennar um allt, með fallegum stíl og myndarskap.

Ég, dóttir mín og hennar fjölskylda komu til Íslands sumarið 2006 og fengum að njóta gestrisni og innilegrar móttöku Ingibjargar og Guðmundar. Það var aldrei skortur á neinu. Ingibjörg var listakokkur og alltaf spennandi að koma til hennar og fá að prófa nýja rétti sem hún hafði fullkomnað. Hún var líka boðin og búin til að keyra okkur um allar jarðir, sýna okkur helstu staðina til að skoða á Suðurlandinu og stoppa svo á huggulegum stað og fá okkur kaffi og gott með því svo við gætum öll notið okkar.

Ég kom svo aftur í heimsókn á síðasta ári og var tekið jafnrausnarlega á móti mér og áður og fundnar nýjar leiðir til að skoða.

Ég og fjölskylda mín í Bandríkjunum erum harmi slegin að hafa misst okkar yndislegu Ingibjörgu. Ég bið góðan Guð að styrkja bróður minn, Guðmund, börn þeirra, Rósant, Heiðu og Valdemar, Höllu móður Ingibjargar, Eddu tengdadóttur og barnabörnin Eneu og Míu, sem öll eru harmi lostin.

Ég, Lára, Darrick, Payton og Dylan erum svo þakklát fyrir að hafa fengið að njóta samvista með ykkur um árið og lifum ennþá á endurminningum um þær yndislegu stundir.

Elínborg Baldursdóttir.

Kær mágkona er fallin frá. Á einu andartaki er allt orðið breytt, eitt andartak sem skilur á milli lífs og dauða. Ingibjörg greindist með illvígan sjúkdóm, ljóst var að baráttan yrði erfið en vonir voru þó bundnar við að meðferð myndi að minnsta kosti halda sjúkdómnum í skefjum. En allt kom fyrir ekki, baráttan varð stutt, allt of stutt.

Ingibjörg kom inn í fjölskylduna þegar hún giftist Guðmundi bróður mínum. Þau voru afar samrýnd hjónin og samheldin fjölskylda eftir að börnin komu til sögunnar. Ingibjörg var mikil fjölskyldukona og nú leitar hugurinn til þeirra sem syrgja og hafa misst svo mikið. Hún reyndist börnunum hlý og góð, fyrirmyndarhúsmóðir, fljót að töfra fram veitingar sem voru í senn ríkulegar og vel fram bornar. Þannig var gestrisni hennar í fyrirrúmi og hún sýndi fólki áhuga og hlýju. Ingibjörg var ávallt boðin og búin að veita stuðning og aðstoð ef á þurfti að halda, hrein og bein í samskiptum, í eðli sínu orðvör en lét verkin tala. Ingibjörg átti mörg áhugamál er hún sinnti af kappi, ekki síst hestamennskunni nú síðustu árin.

Nú, þegar komið er að leiðarlokum, kveð ég Ingibjörgu með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir ljúfar minningar, góða samfylgd og allt það sem hún var mér og mínum.

Af eilífðarljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson.)

Megi Guð vaka yfir fjölskyldunni allri, veita henni styrk og leiða í gegnum þessa erfiðu tíma.

Hannes.

Elsku Ingibjörg frænka og vinkona. Þú varst alltaf eins og systir mín, ég man þegar við vorum litlar og sögðum vegfarendum á Ljósvallagötunni að við værum systradætur og þá fannst okkur við vera systur. Mér þykir svo sárt að hugsa til þess að fá ekki að sjá þig meir eða að ég geti ekki talað við þig í símann eins og við gerðum oft í viku. Þið Guðmundur voruð einstaklega samhent hjón og höfðuð t.d. mjög gaman af því að ferðast til Amsderdam og ætluðum við Bjössi að fara með ykkur næst, en nú er allt breytt og ég bið góðan Guð að hjálpa okkur til að takast á við það.

Elsku Halla, þér hlýtur að vera ætlað stórt hlutverk í næsta lífi með alla þessa reynslu í sorg og missi ástvina, ég hef alltaf litið upp til þín fyrir dugnað þinn og lífsstíl sem ég hef reynt að taka mér til fyrirmyndar.

Elsku Guðmundur, Halla, Valdi, Heiða, Rósi og fjölskylda, ég bið Guð að blessa ykkur á þessari sorgarstund. Ingibjörg var tekin frá okkur allt of fljótt en einhver tilgangur hlýtur að vera með því, hennar bíður annað hlutverk annars staðar þar sem hún er án veikinda og henni líður vel.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Guð varðveiti þig, elsku Ingibjörg.

Alma.

Hinn 22. október sl. fórum við vinkonurnar til Ingibjargar í saumaklúbb. Þau hjón tóku á móti okkur opnum örmum brosandi og hlý að vanda. Ingibjörg dró fram afmælisbók Melaskóla og við skemmtum okkur við að skoða myndir og rifja upp gamlar minningar. Ekki grunaði okkur að þetta yrði seinasti saumaklúbburinn hjá Ingibjörgu. Nokkrum dögum seinna fengum við þær hörmulegu fréttir að hún hefði greinst með ólæknandi sjúkdóm.

Þegar við setjumst niður til að skrifa minningarorð um vinkonu okkar streyma fram minningar, um stelpur, unglinga, mömmur og ömmur, enda höfum við gengið saman í gegnum öll þroskaskeiðin og aldrei borið skugga á vináttuna. Ýmislegt hefur verið brallað í gegnum tíðina og má þar nefna frábæra sumarbústaðaferð þar sem Ingibjörg var gestgjafinn, ferðalag til Washington og Prag að ógleymdum öllum matarveislunum. Við vorum farnar að leggja drög að næstu utanlandsferð og þá átti að bjóða eiginmönnunum með.

Ingibjörg var vönduð og glæsileg kona, hörkudugleg og ósérhlífin. Hún var mikill dýravinur og síðustu árin var fjölskyldan komin á kaf í hestamennsku sem veitti þeim ómælda ánægju. Hún bjó yfir listrænum hæfileikum og ber heimilið hennar þess glöggt vitni. Hún var frábær kokkur og kunnu þau hjón þá list að láta gestum sínum líða vel.

Vinátta okkar og væntumþykja óx með árunum og samverustundirnar urðu dýrmætari. Það er ólýsanlega sárt að sjá á eftir einni úr hópnum. Minningar um frábæra vinkonu getur enginn tekið frá okkur. Hennar verður sárt saknað.

Elsku Guðmundur, Valdi, Heiða, Rósi, Halla og aðrir ástvinir, guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Blessuð sé minning Ingibjargar vinkonu okkar.

Elín, Helga, Jóna, Margrét,

Sólveig, Þóra, og Ásdís

Okkar kæri félagi Ingibjörg Árnadóttir er fallin frá – langt um aldur fram. Mann setur hljóðan. Það er stutt síðan það kom í ljós að hún væri veik af þessum illvíga sjúkdómi sem dró hana til dauða á örskömmum tíma. Það leitar á hugann hve allt er í heiminum hverfult og engin veit sína ævidaga.

Ingibjörg var virkur félagi í Hestamannafélaginu Ljúfi. Allt sem hún tók að sér var gert af áhuga, alúð og dugnaði, hvort sem það voru gjaldkerastörf, ferðanefndarstörf eða hvað annað sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var hestakona af lífi og sál. Það var gaman að sjá hana á hestbaki, þessa glæsilegu konu. Þau voru fallegt par – hún og hesturinn.

Hestaferðir voru hennar gleði og þau hjónin hafa verið þeir bestu ferðafélagar sem hugsast getur í svo mörgum og góðum ferðum. Síðastliðið sumar fór stór flokkur félagsmanna langa ferð um Löngufjörur og Dali. Ógleymanleg ferð í endalausu sólskini og sælu dag eftir dag. Við vissum ekki þá að þetta yrði síðasta ferðin hennar. Hvern gat grunað það? Við munum sakna hennar...

Við höfum þó líka mikið fyrir að þakka. Við þökkum af heilum hug fyrir þau störf sem hún vann fyrir hestamannafélagið og við þökkum líka fyrir að hafa átt hana að samferðamanni og vini. Guðmundi og fjölskyldunni allri vottum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ingibjargar – hún mun ávallt geymast í hugum okkar.

Hestamannafélagið Ljúfur,

Hveragerði.

Vinkona mín Ingibjörg Árnadóttir er fallin frá eftir stutta og erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Minningarnar hrannast upp þegar hugsað er aftur í tímann. Ég kynntist þeim hjónum Ingibjörgu og Guðmundi mjög náið þegar ég flutti í Kambahraun 23 fyrir 20 árum en þau bjuggu þá í næsta húsi. Á sama tíma vorum við að byggja okkur sumarbústaði uppi í Borgarfirði á sama svæði ásamt fjölskyldum okkar. Það voru því mikil samskipti, sérstaklega vegna þess að Ingibjörg var mikill gestgjafi og voru það undantekningarlaust skemmtilegar stundir. Það var einmitt á einu þannig kvöldi sem hún sagði mér að hún hefði áhuga á að komast á hestbak en ég var þá eins og nú á kafi í hestamennsku. Ég hafði nú efasemdir um að hún gæti nokkuð á hesti en hún sagði mér að hún hefði verið á námskeiði hjá Rosemary í Geldingaholti þegar hún var 10 eða 11 ára gömul og taldi sig allt geta þó 30 ár væru liðin. Það varð úr að hún fór ríðandi með okkur nokkrum félögum þegar við vorum að fara með hestana vestur að Grímstöðum á Mýrum eitt vorið. Byrjaði hún á að fara með okkur hluta úr leiðinni en var mjög fljótlega farin að vera á hestbaki nánast allan tímann og gekk alltaf mjög vel, eins og hún væri búin að vera í hestum alla tíð. Einnig fór hún að fara í félagsferðir, s.s. kvennareiðtúra og fleira og fékk þá alltaf lánaðan hjá mér einn ákveðinn hest sem hét Tombólurauður sem henni líkaði vel við og bar hana hratt áfram. Ingibjörg hafði svo gaman af þessu sporti að það endaði með því að hún keypti sér hesta og hesthús og var komin á fullt skrið í hestamennsku með sín eigin hross og var strax vel útbúin. Hún lét ekki staðar numið þar heldur þrælaði hún Guðmundi sínum á bak, sem hafði nú reyndar alltaf verið með bæði sem hirðingarmaður og trússari og voru þau strax mjög samhent í þessu öllu saman. Á sl. 2 árum voru þau búin að fara í tvær 10 daga hestaferðir og margar styttri ferðir. Og merkilegt nokk, Guðmundur hafði bara gaman af þessu öllu.

Ingibjörg var ekki fyrr gengin í hestamannafélagið en hún var kosin í trúnaðarstörf. Hún var kosin gjaldkeri þar sem hún stóð sig mjög vel, með alla hluti á hreinu. Einnig var hún í útreiðanefnd með undirrituðum og var hún þar sannarlega betri en enginn. Þegar við hinir í nefndinni sögðum að hlutirnir myndu reddast sagði hún að allt ætti að vera skipulagt og frágengið áður en lagt væri af stað. En svona var Ingibjörg, enginn hávaði um hlutina, þeir áttu bara að vera í lagi. Ferðalögin í hestamennskunni voru henni mikið hjartans mál. Hún tjáði mér, þá orðin fársjúk, að hún ætlaði að hætta sem gjaldkeri en vildi endilega vera áfram í ferðanefnd og koma að skipulagningu sumarsins þó að hún vissi að hún gæti ekki verið með.

Ég veit að ég mæli fyrir hönd allra ferðafélaganna, þegar ég segi að hennar verði sárt saknað og hætt er við að maður fái kökk í háls næst þegar lagt verður upp í ferð því eitt er víst að við munum öll hugsa til hennar.

Við Sjöfn sendum þér, Guðmundur minn, og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sólmundur Sigurðsson.

Mér er tregt tungu að hræra þegar ég kveð Ingibjörgu Árnadóttur, kæran vin og samstarfsmann, hinstu kveðju. Við kynntumst þegar hún réðst til Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um mitt ár 1995, en ég hafði hafið störf hjá samtökunum hálfu ári fyrr. Óhætt er að fullyrða að það var mikið gæfuspor fyrir samtökin að fá hana til starfa vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem var framundan á starfsemi samtakanna og tengdra stofnana. Sú uppbygging kallaði á öflugt skrifstofuhald sem hún skipulagði og stýrði sem skrifstofustjóri til dánardægurs. Hún var vakin og sofin yfir hagsmunum samtakanna og bar hag þeirra mjög fyrir brjósti. Hún var ákaflega glögg og vandvirk í störfum sínum en jafnframt voru afköst hennar oft með ólíkindum og hún gekk ekki frá neinu verki ókláruðu. Síðast en ekki síst var hún góður vinnufélagi, naut virðingar samstarfsmanna og var lífið og sálin í félagslífi starfsmanna.

Mér var hún tryggur vinur sem studdi mig með ráðum og dáð alla tíð. Fyrir þá vináttu þakka ég nú að leiðarlokum.

Guðmundi, börnum, tengdadóttur, barnabörnum og aldraðri móður sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Skjótt hefur sól brugðið sumri,

því séð hef ég fljúga

fannhvíta svaninn úr sveitum

til sóllanda fegri.

Sofinn er nú söngurinn ljúfi

í svölum fjalldölum,

grátþögull harmafugl hnípir

á húsgafli hverjum.

(Jónas Hallgrímsson.)

Blessuð sé minning Ingibjargar Árnadóttur.

Þorvarður Hjaltason.

Handartakið slitnar, sem þakkaði kynni

samvistir allar og síðasta fund.

Sálirnar tengjast við tillitið hinsta

taug, sem að slítur ei fjarlægðin blá.

Brenna í hjartnanna helgidóm innsta

hugljúfar minningar samverustundunum frá.

(Erla)

Með fátæklegum orðum kveðjum við nú góða vinkonu og starfsfélaga. Söknuðurinn er þungbærari en tárum taki. En minning hennar lifir. Minning um glæsilega konu, góðan vin og traustan vinnufélaga. Ingibjörg var kletturinn í vinnunni, grunnurinn sem við öll hin byggðum á í orðsins fyllstu merkingu. Í starfi sínu sinnti hún ólíkum þörfum okkar og sameinaði okkur í eina heild. Með gleði yfir lífinu, skapandi hugarfari og smitandi ákafa skapaði hún andrúmsloft og hefðir sem við hin njótum að henni genginni. Það var Ingibjörg sem festi árshátíðina í sessi og sá til þess að skemmtinefndin hefði eitthvað að gera. Sama má segja um aðra viðburði. Hún bætti vinnustaðinn með litum, blómum og smáatriðum enda mikil smekkmanneskja og fagurkeri. Haustferð starfsfólks var einnig verk Ingibjargar. Skemmst er að minnast síðustu haustferðar þegar hún tók á móti gönguhópnum rennandi blautum af sinni einskæru gestrisni og sótti okkur síðasta spölinn á hestakerru. Enginn gat rennt í grun að sú lífsglaðasta af okkur yrði ekki með næst. En við getum þó glaðst yfir því sem hún gaf okkur og heldur áfram að gera með þeim hefðum sem hún skapaði. Heimili Ingibjargar og Guðmundar var alltaf opið og þeim gleði að taka á móti fólki. Veitingar Ingibjargar sviku engan og margar uppskriftir hennar til á okkar heimilum. Venjuleg uppskrift af spesíum varð betri hjá henni en öðrum og engin aðventa án spesíanna hennar. Ingibjörgu var margt til lista lagt, virk en lét ekki mikið fyrir sér fara. Hún málaði málverk og hélt sýningu á verkum sínum síðastliðinn nóvember mitt í áfalli sjúkdómsins. Hún eignaðist sín fyrstu hross fyrir nokkrum árum og hafði mikla ánægju af útreiðum og naut samvistanna við hrossin fram í fingurgóma. Eins og ætíð var áhugi hennar var smitandi, og fór svo að fjölskyldan fylgdi henni í hestamennskuna. Ein hestaferð á sumri að lágmarki var henni alveg nauðsynleg.

Ingibjörg var traustur vinnufélagi, klár í sínu starfi og lagði grunn að góðum starfsanda. Hún var ekki fyrir athyglina en hún fékk hana hvar sem hún fór. Hún var hæglát og frekar feimin en samt sú sem skapaði gleðina allt í kringum sig. Það gerði hún með nærveru sinni og skapandi persónuleika. Hún var falleg að innan sem utan. En umfram allt var hún félagi okkar og vinur. Félagsskapar hennar og vináttu er nú sárt saknað. Að Austurvegi 56 verður skarð hennar aldrei fyllt og allt um kring eru minningar um frábæra manneskju sem fór alltof fljótt.

Við vottum Guðmundi, Rósa, Heiðu, Valda og fjölskyldu okkar dýpstu samúð. Hugur okkar dvelur við ljúfar minningar og einlæga ósk um styrk í þungbærri þraut. Minning Ingibjargar lifir með okkur öllum.

Samstarfsfólk og

vinir að Austurvegi 56.

Elskuleg vinkona og vinnufélagi, Ingibjörg Árnadóttir, er fallin frá eftir stutt og erfið veikindi.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Innilegar samúðarkveðjur til Guðmundar, barnanna og annarra aðstandenda, þeirra er missirinn mestur.

Minning hennar lifir.

Alda og Ragnar.

Elsku Ingibjörg, ekki datt okkur í hug að tíminn yrði svona stuttur eftir að þú varðst veik, aðeins örfáar vikur. Okkur langar að þakka þér fyrir allar samverustundirnar.

Hvíl þú í friði, kæra vinkona.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Valdimar Briem.)

Elsku Guðmundur, Rósant, Edda og dætur, Heiða, Valdemar og Halla, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Helgi, Margrét,

Arnar Geir og Sævar Þór.