Skýjafar „Arngunnur hefur um árabil þróað margræð málverk...“
Skýjafar „Arngunnur hefur um árabil þróað margræð málverk...“
Sýningin í Hallgrímskirkju stendur til 29. feb. Opið er alla daga 9–17. Sýningin í Gallerí Turpentine stendur til 19. jan. Opið mán. til fös. frá kl. 12–18 og 12–17 lau.

VOLDUGIR tónar orgelsins í Hallgrímskirkju sköpuðu málverkunum í anddyrinu dramatískan bakgrunn þegar undirrituð var þar á ferð, en þar sýnir Arngunnur Ýr myndir sínar. Arngunnur hefur um árabil þróað margræð málverk sem hafa skýjafar að myndefni. Í því trúarlega samhengi sem kirkjan skapar verkum hennar verða þau dálítið upphafin og skýin sem sum eru bleikrauð, fjólublá eða gullin, auðveldlega séð sem hluti af þróun málverksins allt frá miðöldum, þegar listin tengdist kirkjunni hvað mest, manni detta t.d. í hug kandífloslegir skýjabólstrar umhverfis bústna engla. Skýjafarið á málverkum Jacob van Ruysdael á 17. öld kemur einnig upp í hugann en ekki síst rómantík 19. aldar sem er uppfull af alls kyns birtingarmyndum himinsins með Turner í fararbroddi. Impressionistarnir leituðust líka við að fanga hverfula birtu. Það er eðlileg þróun að málarar haldi áfram að horfa til himins, og á hverjum tíma er það sem þeir sjá og sýna háð heimsmynd okkar og tíðaranda.

Í Gallerí Turpentine sýnir Arngunnur sömuleiðis stór málverk, einnig minni myndir sem gætu verið skissur en eru þó fullunnin verk. Skýjamyndir hennar hafa undantekningarlaust jarðtengingu, fjallatoppa eða eyjar. Bestu myndirnar eru margræðar og áleitnar, þegar horft er á þær er eins og fótunum sé kippt undan manni og himinn og jörð verða eitt, forgrunnur og bakgrunnur, hvað snýr upp og hvað niður brenglast, ef til vill í samræmi við rómantíska hugmynd um smæð mannsins gagnvart hinni stóru náttúru. Á móti þessari rómantísku hugmynd kemur síðan gagnrýnin og nútímaleg vinnuaðferð málara sem tekst á við myndflötinn af vísindalegri nákvæmni, rífur svolitla skænu af hér, leyfir litunum að blandast þar, setur saman fínlegar og flæðandi litasamsetningar sem koma stöðugt á óvart.

Arngunnur hefur ekki haft sig mjög í frammi hérlendis enda lengst af verið og er enn búsett erlendis. Hún á þó fullt erindi inn í íslensku listasöguna með sérstakan myndheim sinn, þar sem á stundum nær sykursætt yfirborðið leynir töluvert á sér.

Ragna Sigurðardóttir